Spínatkartöflur (Aloo Palak)

Þetta er mjög hefðbundið indverskt meðlæti sem maður pantar yfirleitt alltaf þegar maður fer á indverskan stað (bara eins og maður pantar grjón líka). Stundum hef ég pantað þennan rétt sem aðalrétt en eini gallinn við svona veitingastaði er að það er allt löðrandi í ghee eða olíu þannig að maður verður fljótt saddur af litlu (og er auðvitað óhollt líka) en þetta er ekki svo óholl útgáfa.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Spínatkartöflur (Aloo Palak)

Fyrir 2-3 sem meðlæti

Innihald

  • 250 g spínat, saxað gróft (má nota frosið en kreistið þá allt vatn úr)
  • 2 kartöflur soðnar, skrældar og skornar í stóra bita
  • 1 grænn chili pipar, saxaður smátt (má sleppa)
  • 0,5 tsk brún sinnepsfræ (enska: mustard seeds)
  • 0,5 tsk cumin fræ (ekki kúmen)
  • 1 msk kókosolía
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Sjóðið kartöflurnar þangað til nokkuð mjúkar (en ekki mjölkenndar), skrælið og saxið gróft.
  2. Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið hann. Saxið smátt.
  3. Kreistið vatnið úr spínatinu (ef þið notið frosið spínat) og saxið gróft.
  4. Hitið kókosolíuna á pönnu.
  5. Ristið sinnepsfræin á pönnunni í 2 mínútur.
  6. Bætið chili piparnum, og cumin fræjunum út í og hitið í 1 mínútu.
  7. Bætið nú spínatinu og kartöflunum saman við og hitið í nokkrar mínútur.
  8. Saltið eftir smekk.
  9. Látið malla á pönnunni í um 15 mínútur.

Gott að hafa í huga