Bloggið
Djúsí, óbökuð hnetukaka
Það er gott að taka fram gamlar og góðar uppskriftir og endurnýja þær. Ég skellti í þessa í gær og smellti auðvitað af mynd. Ég mæli með þessari köku (svo lengi sem ekki er til staðar ofnæmi) fyrir afmæli, saumó, fermingar og í raun hvað sem er því kakan heldur sér vel, hana má útbúa deginum áður (skera þá bananasneiðar daginn sem á að bera hana fram) og svo eru endalausir möguleikar hvað skreytingar varðar. Þessa köku hef ég boðið fólki uppi á miðju hálendi Íslands, í hestaferð, án rafmagns og hita (þannig að ekki hefði verið hægt að baka kökur) og ég get sagt ykkur að gleðihrópin heyrðust alla leið til byggða!
Ný uppskrift: Hnetusmjörskaka
Það hafa margir verið að bíða eftir þessari og loksins er hún komin á CafeSigrun vefinn. Hún er búin að vera í bragðprófunum hjá ættingjum, vinum og vinnufélögum og ég held svei mér þá að hún sé bara tilbúin :) Njótið vel!
Smakkstundin
Öll börn hafa sína sérvisku í tengslum við mat og hvers kyns bragð, áferð og lykt. Mín börn eru þar engin undantekning. EH sem er 7 ára stúlka vill ekki sjá ólífur eða fetaost (ekki kaldan ost yfirhöfuð) eins og pabbi hennar en NS sem er 5 ára drengur elskar capers og parmesan eins og mamman (ég). Ég hef gríðarlegan áhuga á því hvernig börn borða, hvað þau borða, hvers vegna þau borða það sem þau borða og hvernig fjölskyldan borðar yfirleitt. Það eru gríðarlega margir þættir sem spila þarna saman. Mér er mikið í mun að börnin mín borði fjölbreytt og til þess að svo sé, þarf að bjóða þeim upp á fjölbreytni í mat! Maður er nefnilega ótrúlega fljótur að detta í fasta rútínu sem er ekki endilega gott fyrir mann.
Börnin mín eru mjög dugleg að borða ávexti og grænmeti en mér fannst vanta upp á t.d. að vilja smakka osttegundir, ýmis grænmetismauk og eitt og annað sem oft er á boðstólum hér heima. Svo ég skipulagði stóra smakkstund. Litlar smakkstundirnar eru búnar að vera fastur liður frá því börnin voru nánast ómálga, ég gólaði mjög reglulega SMAKKSTUND og þau komu kjagandi á litlu fótunum sínum með skoltinn opinn eins og litlir fuglsungar, tilbúin til að taka á móti því sem kom. Þá var ég kannski að gera tilraunir með pestó eða muhammara (papriku- og valhnetumauk), hummus og fleira í þeim dúr. Eins bauð ég þeim líka að smakka ef ég var að gera tilraunir á kökum og fleiru. Auðvitað þótti þeim það síðarnefnda betra og skemmtilegra að smakka, en það var allt sett undir sama hatt þ.e. ég bauð þeim jafnt að smakka á því eins og öðru sem ég var að útbúa.
En að smakkstundinni. Ég útbjó spjöld með myndum (sem ég fann á netinu) af greipaldin (beiskt), salti (salt), vínberjum (sætt), sítrónu (súrt), chilli (sterkt) og svo eitt spjald með umami (t.d. bragðið sem maður finnur í misosúpum, næringargeri, kjötsoði o.fl.). Það sem var í smakkstundinni var eftirfarandi: Súrdeigsbrauð, sesamkex (nokkuð hlutlaus grunnur til að smakka), epla- og bananamauk, mangó, vínber, rúsínur, gráfíkjusulta (án viðbætts sykurs), grænar ólífur, rófur, blámygluostur, fetaostur, parmesan, camembert (mikið þroskaður), saltað og bakað maískorn, jarðhnetur, furuhnetur, rautt pestó úr krukku, grænt pestó heimatilbúið (basil, ólífuolía, hvítlaukur, parmesan, furuhnetur), misósúpa, noriblöð (blöðin sem fara utan um sushi), greipaldin, sykurhrökkbaunir, eikarlauf, hvítkál, kínakál, ruccola (klettasalat), Lambhagasalat, krydduð síld, svartur pipar og svartur kavíar.
Það voru einungis tvær reglur: Fyrri reglan var sú að ekki mátti segja oj en síðar reglan var sú að það þurfti að smakka heilan bita af því sem smakkað var (þetta voru yfirleitt mjög litlir bitar). Við vorum einungis að dæma bragðupplifun, ekki að dæma hvort að eitthvað væri gott/vont. Eftir hvert smakk, lyfti hver og einn spjaldi/spjöldum og það var gaman að sjá hversu ólíka bragðupplifun við höfðum á hverri afurð. T.d. lyfti ég upp spjaldi fyrir salt, beiskt og umami fyrir camembert á meðan eiginmaðurinn lyfti upp salt en börnin lyftu upp beiskt. Þetta tók langan tíma hjá okkur en var ofsalega skemmtilegt. Það spunnust umræður um ýmislegt tengt matvælum, bragði o.fl., hvað passaði vel saman (t.d. camembert, ruccola og gráfíkjusulta) og hvað passaði illa saman (ólífur og síld).
Það skemmtilega í þessu er að börnin fá þarna rödd við matborðið og þau gefa sitt álit og á þau er hlustað. Þau eru álitsgjafar eins og við fullorðna fólkið. Orðaforði þeirra gagnvart mat og alls kyns afurðum eykst og viljinn til að smakka eitthvað nýtt eykst líka.
Ég mæli með því að prófa svona smakkstundir!
Ný uppskrift: Kakó- og heslihnetutrufflur
Þessar trufflur (og mögulega jólakonfekt...) geri ég þegar ég vil gera vel við mig og mína. Eða nei, það er eiginlega lygi....ég geri þær þegar mig langar í eitthvað fáránlega gott. Og ég þarf ekkert tilefni til. Það er best að vera bara hreinskilinn með það.
Ný uppskrift: Ostakaka með rifsberjasósu
Það er nú svo merkilegt með rifsberin að ég hef aldrei, á ævinni, gert nokkurn skapaðan hlut úr þeim. Þrátt fyrir að hafa haft gott aðgengi að rifsberjarunnum í gegnum tíðina. Ég stalst gjarnan yfir til nágranna hér í bernsku til að næla mér í rabarbara og rifsber en lengra náði samneyti mitt við rifsber ekki, þangað til núna. Ég á að vísu rifsberjarunnan en uppskeran var heil fjögur ber í ár. Ég kenni fuglunum um en á erfitt með að vera reið út í fuglana fyrir að draga sér björg í bú. Í foreldrahúsum var uppskeran af rifsberjum óvenju góð þetta árið og ég gat hreinlega ekki slegið hendinni á móti þessum fallegu rauðu berjum sem eru sprengfull af C vítamíni.
Ég er ákaflega hrifin af ostakökugrunninum sem ég hef notað í um 13 ár ótrúlegt en satt svo ég notaði hann hér líka. Í þessari köku er töluvert minna af sykri en maður myndi finna í hefðbundinni ostaköku og hefðbundinni rifsberjasultu (2/3 minna), enda er þetta sósa frekar en sulta. Og það er allt í lagi. Enginn er verri þó hann sé sósa.
Ódýrt og einfalt: 13 hollar uppskriftir
Það getur verið erfitt að eiga lítinn aur og vera samt að reyna að borða hollt. Matur þarf að vísu ekki alltaf að kosta hálfan handlegg þó hann sé hollur. Það sem til þarf er útsjónarsemi og svolítil fyrirhyggja. Alltaf er best að kaupa meira magn en minna og frysta það sem útbúið er umfram. Hér hef ég tekið saman 13 uppskriftir sem ég ætti kannski að kalla Uppskriftir fyrir blanka háskólanema en eiga vel við fyrir alla þá sem vilja hugsa um það sem þeir setja ofan í sig án þess að þurfa að taka bankalán. Munið bara að skyndibitinn er alltaf verstur, bæði fyrir buddu og maga.
Pride uppskrift CafeSigrun 2016 lítur dagsins ljós!
Að lifa lífinu án fordóma og harðra dóma er eitthvað sem ég lifi eftir. Sem sálfræðingur er það mikilvægt að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni en sem móður er það mér enn mikilvægara að kenna börnum mínum þessi gildi. Ég hef í fjöldamörg ár lagt til Pride uppskrift í tilefni Hinsegin daga (sem mér finnst þó alltaf rangnefni). Það er kannski ekki stór biti í umræðuna um bætt líf til handa þeim sem þurfa að sæta óþolandi fáfræði annarra....en kakan er góð og hugsunin hrein :) Gleðilegan Pride dag 2016!
Ný uppskrift: Súkkulaði- og berjakaka (hráfæðiskaka)
Þessi kaka er klárlega með þeim flóknari á vefnum mínum. Að minnsta kosti svona fljótt á litið. En þetta er svona kaka sem ég geri þrátt fyrir að ég sé búin með allar afsakanir fyrir tilefnum (afmæli, jól, páskar o.s.frv.) því þó hún sé svolítið maus, er hún samt alveg þess virði. Kakan er auðvitað pakkfull af hollustu með öllum sínum vítamínum, trefjum, próteini, hollri fitu og allt það....en hún er mjög hitaeiningarík líka og inniheldur hlynsíróp svo hún er engin megrunarkaka svo sem...enda á hún ekki að vera það, það á enginn að fara í megrun, ever, það er aldrei sniðugt. Kökuna þarf maður að útbúa með svolitlum fyrirvara en hún bætir og kætir á alla vegu svo endilega brettið upp ermarnar!
Thailenskar fiskikökur með sesamsósu
Ég er sérlega hrifin af fiskikökum sem þessum því bragðið er margslungið og ríkulegt án þess að fiskurinn yfirgnæfi. Sesamsósan gerir líka algjörlega punktinn yfir i-ið. Börnin eru sjúk í þessar fiskikökur og sama gildir um fullorðna fólkið á heimilinu. Þær eru líka æðislegar inn í vefjur og jafnvel gróft pítubrauð.
Ný uppskrift: Möndlu- og kínóasmákökur (glútein- og mjólkurlausar)
Ég var að bæta þessari uppskrift inn á vefinn.....mjólkur- og glúteinlausar möndlu- og kínóasmákökur. Þær eru snilldaruppfinning þó ég segi sjálf frá og algjörlega unaðslegar með kaffibolla. Sérstaklega á rigningardögum. Eða eftir langan vinnudag. Eða þegar börnin eru búin að vera krefjandi......Eða kannski þarf maður enga afsökun til að búa þær til.....