Fyrstu grautarnir
Það er mikilvægt að fara sér ekki of hratt með fyrstu grautana. Það að kyngja mat (og rúlla matnum aftan í kok) krefst allt annarra vöðva heldur en að drekka og kyngja. Það að fá of mikinn graut í munninn getur virkað yfirþyrmandi og barninu getur svelgst á. Best er að byrja í smáum skrefum, gefa barninu lapþunnan graut framan á mjúkri teskeið eða jafnvel á hreinum fingri þínum. Barnið mun sjúga grautinn, finna svolítið bragð en verður ekki í miklum vandræðum með að kyngja. Skeiðin er svo nýtt fyrirbæri að það að fá graut OG skeið í munninn getur alveg ruglað þau í ríminu. Hugsið ykkur ef þið hefðuð alla ævina drukkið mjólk og svo kæmi einhver og træði skeið upp í munninn á okkur með einhverju þykku, skrítnu í skeiðinni! Hafið líka í huga að það að opna munninn, borða og kyngja getur verið líkamleg áreynsla fyrir barnið svo prófið fyrsta smakkið þegar barnið er vel upplagt og ekki of þreytt.
Gott er að blanda móðurmjólk/þurrmjólk við grautinn í fyrstu skiptin svo að barnið fái kunnuglegt bragð upp í sig. Bestu grautarnir til að byrja á eru yfirleitt ungbarnagrautarnir sem fást í heilsubúðum, annað hvort maísgrautar, hrísgrautar en svo hefur hirsigrautur reynst vel líka. Maís og hrísmjöl eru þó þær mjöltegundir sem allra síst valda ofnæmisviðbrögðum og eru auðmeltanlegir. Gott er að kaupa járnbætta grauta því járnbirgðar barnsins eru uppurnar um 6 mánaða aldurinn.
Umfram allt skuluð þið vera þolinmóð því börn taka misjafnlega vel í fyrsta grautinn, nokkrir dagar eða jafnvel lengri tími getur liðið áður en barnið tekur við grautnum og frussar honum ekki út úr sér, sármóðgað yfir að fá ekki mjólkina sína sem er AUÐVELT að innbyrða.
Ítarlegri fróðleikur um ungbarnamat
Fyrsti grauturinn
Hrísgrauturinn er eitt af því fyrsta sem börn smakka á, á eftir móðurmjólkinni. Hrísgrautur sem ætlaður er ungbörnum fer vel í maga og er mildur á bragðið án þess þó að vera alveg bragðlaus.
Maís- eða hrísmjölsgrautur
Þessi uppskrift er ósköp venjuleg uppskrift að morgungraut fyrir yngsta fólkið. Grauturinn er léttur í maga og glúteinlaus.