9-12 mánaða

Síða 1 af 1

Aldursflokkurinn 9-12 mánaða er spennandi tími bæði fyrir börn og fullorðna. Sum börn eru að taka sín fyrstu skref og SVO mikið gerist í þroska barna aðeins á nokkrum mánuðum. Þau hafa sterkar skoðanir á hlutunum, segja kannski nokkur orð og jafnvel rífast og skammast. Það er ekki óalgengt að á þessum aldrei verði börn matvönd. Það er mikilvægt að láta börn ekki borða yfir sig og láta þau ekki „klára eina skeið í viðbót”. Heilbrigð og vel nærð börn láta yfirleitt vita þegar þau eru orðin södd og það er ekki gott að kenna börnum að borða á sig gat í hvert skipti sem sest er til borðs, þau verða að læra að fylgja sinni seddutilfinningu. Ég kenndi dóttur minni fljótt að hrista hausinn þegar hún var orðin södd og það var aldrei um það að ræða að ég væri að troða í hana mat ef hún vildi hann ekki. Hún vissi líka að hún fengi ekki neitt annað fyrr en við næstu máltíð. Þannig vissi ég að hún væri ekki að vera dyntótt, hún var bara einfaldlega orðin södd. Ég tók reyndar eftir því að ef dóttir mín var mjög þreytt þýddi ekki að gefa henni mat, hún vildi kannski eina skeið og búið enda er það að borða eitthvað sem krefst þátttöku nánast allra líffæra okkar. Sú athöfn að borða getur reynt mjög mikið á börn, sérstaklega ef þau eru illa upplögð. Gætið þess að börn séu ekki of þreytt þegar þið gefið þeim að borða.

Börn á þessum aldri eru orðin nokkuð fær í að taka hluti upp frá borði og er gott að gefa þeim t.d. ristað brauð, skorið í lengjur, soðnar gulrætur skornar í lengjur o.fl., o.fl. Mikilvægt er að láta barn ekki vera án eftirlits þegar það er að setja upp í sig mat sjálft.

Við 12 mánaða aldurinn (svo lengi sem barnið hefur ekki ofnæmi fyrir neinu og ef ofnæmi er ekki þekkt í fjölskyldunni) má barnið fara að borða nánast allt sem fullorðna fólkið er að borða (fyrir utan viðbætt salt og sykur auðvitað) og má stappa matinn þannig að grófir bitar séu í honum. Börn á þessum aldri eru komin með nokkrar tennur sem þau geta notað til að bíta sig í gegnum kjöt og fisk o.fl. Umfram allt er gott að hafa matinn fjölbreyttan og verið óhrædd við mild krydd eins og ferskt basil, ferska steinselju, karrí o.fl. Börn vilja bragðmikinn (en þó ekki sterkan) mat.

Athugið að á næstunni mun ég birta mun fleiri uppskriftir í þessum flokki.

Ítarlegri fróðleikur um ungbarnamat


Fiskur með kartöflum og grænmeti

Þessi uppskrift kemur úr bæklingi sem heitir Næring ungbarna og er gefin út af Manneldisráði og Miðstöð heilsuverndar barna.

Fyrsta kexið fyrir litla fingur og munna

Fyrsta kexið

Þetta kex er mátulega hart (en ekki of), gott á milli fingranna (ekki of gróft) og er hvorki of sætt né of sterkt á neinn hátt. Þetta kex er upplagt að eiga fyrir börnin á milli mála.

Grænmetissoð

Þetta soð má nota í alls kyns grauta og súpur og sömuleiðis má nota það til að sjóða t.d. kjúkling eða fisk í.

Hollur kvöldmatur fyrir litla kroppa

Gulrótar-, avocado- og kartöflumauk

Þetta mauk er hentugt að því leytinu að það inniheldur flókin kolvetni og er fyllandi. Það er einnig mátulega sætt vegna gulrótanna og hentar því vel sem grunnmauk með meira grænmeti.

Kjúklingur með blaðlauk, gulrótum og grænum baunum

Þessi réttur kemur úr frábærri bók Annabel Karmel Top 100 Baby Purees. Hægt er að nota lambakjöt, fisk eða nautakjöt í staðinn fyrir kjúklinginn.

Kannski ekki fallegt á litinn en afar hollt mauk engu að síður

Sveskjumauk

Þetta mauk er afar hollt og gott. Lítil börn eru yfirleitt mjög hrifin af sveskjum en þess þarf að gæta að þau séu vel maukuð.

Grænt og vænt

Sætar kartöflur, spergilkál, spínat og avacado

Til að koma spínati ofan í litlu krílin getur stundum þurft að dulbúa það enda er það svolítið rammt og bragðsterkt svona eitt og sér.