Chapati (indverskar flatkökur)

Þetta brauð ætti með réttu að heita heimsins einfaldasta brauð. Það hentar vel með indverskum mat því það er hlutlaust í bragði (minnir helst á ristað pítubrauð en er samt gerlaust). Það er sérlega gott að nota til að dýfa í sterkar sósur og þess háttar. Chapati er líka mikið notað í Afríku, sérstaklega þar sem indverskra áhrifa gætir, við Indlandshafið. Ég hef oft borðað chapati í Afríku og finnst alltaf jafn gott. Það hentar líka vel til að skófla upp í sig t.d. pottréttum eins og maður borðar oft þar um slóðir. Brauðið hentar líka sérlega vel í útilegur því maður getur útbúið brauðið heima og hitað upp í álpappír yfir eldi.


Chapati (indverskar flatkökur)

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Chapati (indverskar flatkökur)

Gerir um 10-12 chapati brauð

Innihald

 • 250 g spelti
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Um 200 ml vatn (meira eða minna eftir þörfum)
 • Nokkrir dropar kókosolía í þurrku til að strjúka yfir pönnuna
 • Járnpanna (t.d. pönnukökupanna sem má brenna við á)

Aðferð

 1. Blandið saman speltinu og saltinu í skál.
 2. Gerið holu í miðjuna og hellið vatninu í.
 3. Hnoðið deigið lauslega eða þangað til það er hætt að festast við skálina.
 4. Skiptið deiginu í 10-12 litla bita
 5. Fletjið hvern bita út í kringlótta köku með kökukefli (u.þ.b. eins og undirskál að stærð) og passið að hafa nóg af spelti bæði undir deiginu og ofan á því (þegar þið rúllið með kökukeflinu).
 6. Hitið pönnuna vel og setjið kókosolíu í þurrku til að strjúka yfir pönnuna.
 7. Leggið hverja köku ofan á pönnuna og hitið þangað til koma blöðrur í deigið (upp undir 30 sekúndur).
 8. Snúið við og notið pönnukökuspaða til að þrýsta kökunni niður á pönnuna. Hitið í nokkrar sekúndur.

Gott að hafa í huga

 • Kökurnar mega alveg vera aðeins brenndar og bólgnar, það gefur þeim bara meira bragð og karakter.
 • Það má gjarnan setja krydd eins og coriander, basil o.fl. í brauðið.
 • Ef þið eigið ekki kökukefli getið þið notað stóra flösku.

Ummæli um uppskriftina

Dana Jóna
13. mar. 2011

var að prufa og þetta lofar góðu :-) einfalt og auðvelt
ætla að prufa aftur og setja þá smá krydd í brauðið.

sigrun
13. mar. 2011

Líst vel á að prufa krydd Dana, það gæti komið vel út :)

Baldvin
29. jún. 2011

Er óhætt að taka svona með sér í 3-4 daga göngu? geymist þetta vel?

sigrun
29. jún. 2011

Það geymist alveg (.ránar ekki né myglar á 3-4 dögum) en verður MJÖG þurrt og jafnvel óætt nema maður risti brauðið yfir eldi eða dýfi brauðinu t.d. í súpu. Myndi líka mæla með að nota 2 msk af kókosolíu í deigið, brauðið geymist betur þannig :)

Hulda Rós
16. okt. 2011

ég er voða spennt fyrir þessu en finnst svolítið skrýtið að uppskriftin gefi m 10 brauð ef það á að skipta deiginu í 12 hluta :) Elska uppskriftirnar þínar! Takk fyrir að deila þeim svona

sigrun
16. okt. 2011

Ha ha góður punktur Hulda Rós....ég er búin að lagfæra :)

maria
14. des. 2011

Ég bakaði svona brauð en það minnti einna helst á flatkökur,á það ekki að lyfta sér? Er hægt að setja lyftiduft til að það verði svipað og Naan brauð? En það bragðaðist mjög vel,setti Maldon salt og smurði með grænu pestó og Hummus:) Takk fyrir flottar uppskriftir.

sigrun
14. des. 2011

Sæl. Chapati er mjög ólíkt Naan brauði. Naan brauð er loftkennt og mjúkt og í það er notað ger (til þess að það verði einmitt létt og mjúkt). Þó að maður noti vínsteinslyftiduft fær maður ekki út Naan brauð....ég nota ekki ger og þess vegna er ekki uppskrift að Naan brauði á vefnum mínum. Ef þú googlar Naan brauð geturðu fengið fullt af fínum uppskriftum sem þú ættir að geta leikið þér með :)

Barbamí
20. okt. 2012

Ah, ég hefði átt að kveikja á perunni þegar ég las að chapata líkist flatkökum og drífa mig út á svalir með baksturinn. Nú þarf ég að reykræsta íbúðina! En dásamlegt brauð. Ég borðaði eina með ostsneið á. Maðurinn minn dúndraði hins vegar kavíar ofaná og finnst það himneskt :-)
Takk fyrir takk.

sigrun
20. okt. 2012

Ha ha æ æ leitt að heyra með reykræstinguna :) Ég opna bara vel út til að lofti vel um en það ætti nú ekki að vera mikill reykur þó? Vona að það endi ekki með því að slökkviliðið komi á staðinn en í versta falli má þá bjóða þeim upp á heimatilbúið chapati....með kavíar :)

Soley E
22. okt. 2012

Ég gerði þetta í staðin fyrir pítubrauð kom mjög vel út =)

sigrun
22. okt. 2012

Frábært :) Gastu skorið það í helminga og sett inn í það hráefni?

Hrefna
24. apr. 2015

mín reynsla er að það komi meiri reykur ef það fer mikið hveiti á pönnuna. ég reyndi því að hrista það mesta af þeim eftir að fletja þær út. annars eru þær mjög góðar

sigrun
24. apr. 2015

Já það er sniðugt að gera það Hrefna :)