Um CafeSigrun

Forsaga málsins er sú að árið 1999 (25 ára), kunni ég ekki að sjóða pasta og borðaði það þurrt. Það eru meira að segja vitni að því. Árið 2003 opnaði ég CafeSigrun vefinn. Hvað gerðist eiginlega í millitíðinni? Ég flutti til London í framhaldsnám og uppgötvaði allt dásamlega hráefnið sem í boði var. Ég hélt til dæmis að það væru bara til þrjár gerðir af eplum, græn og rauð og gul. Ég keypti mér uppskriftabækur og byrjaði að dunda í eldhúsinu, svona þegar ég var ekki í stuði fyrir skólabækurnar. Það var ekki einungis það að ég kynni ekkert að elda (mín hugmynd um frábæran kvöldmat var ristað brauð með osti og pestói sem ég jafnvel bauð fólki upp á í matarboðum) heldur var málið aðeins flóknara því ég borða ekki sykur, sælgæti né skyndibita og hef ekki gert síðan ég var 12 ára. Það var ekki um auðugan garð að gresja í hollum uppskriftum í bókum og hvað þá á vefsíðum.

Opinbera ástæðan fyrir því að ég hætti að borða sælgæti og aðra óhollustu var sú að ég átti hest sem ég þurfti að kosta sjálf og ef ég sleppti því að kaupa mér sælgæti, gat ég keypt hey og annað sem þurfti ofan í hestinn minn. Þann pening sem ég vann mér inn með skólanum, notaði ég allan í hestinn minn og tímdi ekki að nota í annað. Ég reyndar var aldrei mikið fyrir sælgæti og nammið af jólaballinu átti ég yfirleitt ósnert fram undir páska og páskaeggið átti ég fram til jóla, ósnert (og orðið hvítt). Óopinbera skýringin er sú að ég var í hestaferð um 12 ára aldurinn ásamt fjölda fólks og á einum viðkomustaðnum var okkur gefinn lykill að sjoppunni á staðnum. Maðurinn minn (sem var í sömu hestaferð..en við vorum sko ekki gift um 12 ára...bara svo enginn misskilningur sé hérna) heldur því statt og stöðugt fram að ég hafi þá sagt, haldandi um magann að ég ætlaði aldrei, aldrei að borða sælgæti aftur á ævinni. Ég man aftur á móti ekkert eftir atvikinu (getur maður misst minnið af sælgætisáti?).

En svona að öllu gamni slepptu þá hætti ég 12 ára að borða sælgæti, kex, kökur, ís, skyndibitamat og annað sem gæti talist óhollt. Ég hélt að ég væri búin að finna lykilinn að góðri heilsu. Samt var ég ALLTAF lasin og fékk kvef og hálsbólgu á 2ja mánaða fresti (og ég merkti inn á almanakið hvenær ég átti von á því að fá kvef næst). Það hittist þannig á að ég greiddi yfirleitt afborganir af hesthúsinu mínu sem ég var að kaupa, með hor í nefinu og trefil um hálsinn, þær voru nefnilega á 2ja mánaða fresti. Ég skildi þetta bara ekki, ég sem borðaði alltaf hollt! Ég hafði ekki hugmynd um að ósoðið, hvítt pasta, engar trefjar og það að borða ekkert grænmeti og lítið af ávöxtum skiptu einhverju máli fyrir heilsuna. Fjölbreytt mataræði fyrir mér var brauðsneið með osti og sykurlaus skyrdrykkur. Ég hafði meira að segja reynt að gera hollar kökur sem allar misheppnuðust (t.d. kemur fljótandi kiwi ostakaka upp í hugann sem og holl haframjölsterta sem leit út eins og pizza). Það þýðir lítið að sleppa sykri, hveiti og smjöri o.fl. og vona að kakan haldist saman á lyginni einni saman. Ég vissi svo lítið og kunni svo lítið og hafði enga þekkingu og ekkert sjálfstraust í eldhúsinu. En eins og með allt þarf maður bara að æfa sig en ég neita því ekki að ég hefði komist mun hraðar áfram ef ég hefði haft svona vef til hliðsjónar.

Þegar við fluttum svo til London, uppgötvaði ég ótrúlegt úrval af spennandi hráefni og mikið úrval grænmetis og ávaxta og byrjaði að fikta mig áfram í eldhúsinu. Ég komst að því að það væri hægt að gera hollari kökur og smákökur og margt fleira með góðu hráefni. Ég henti út hveiti og notaði spelti eingöngu (og hef gert síðan) og ég fór að nota kókosolíu og borða meira grænmeti og ávexti. Síðan þá, hef ég orðið lasin kannski 5-6 sinnum á 10 árum. Ég veit ekki hvort að ónæmiskerfið ákvað að hrökkva í gang við þessar breytingar eða hvort að það hefði hrokkið í gang hvort sem var. Ég er allavega sátt, nú er þetta orðið hluti af mínum lífsvenjum og eitthvað sem ég velti aldrei fyrir mér sérstaklega. Ég hef aldrei á ævinni farið í megrun, ég hef haldið sömu þyngd frá því ég var um 15 ára og borða alltaf þangað til ég er södd og sleppi aldrei úr  máltíð. Ég borða líka ótæpilega af kökum og mat enda alltaf að gera tilraunir. Tannlæknirinn minn segir samt að glerungurinn á tönnunum mínum sé líkt og í heilbrigðum 13,5 ára unglingi. Ég er að sjálfsögðu ekki með neinar skemmdir og hef aldrei fengið.

Ég gerðist grænmetisæta um tvítugt en mér hefur aldrei líkað rautt kjöt og lambakjöt hataði ég frá fyrsta bita. Það var þó aðallega vegna meðferð dýranna sem ég ákvað að hætta að borða kjöt. Ég gæti ekki keypt t.d. kjúklingsef ég vissi að hann hefði verið í búri alla sína ævi. Mér finnst líka grænmeti bara svo gott að ég get ekki hugsað mér að skipta yfir í kjöt. Ástæðan fyrir því að ég er með kjúklingarétti hér á vefnum er sú að maðurinn minn og börnin elska kjúklingakjöt og ég elda það fyrir þau (en einungis ef við erum búsett í landi þar sem hægt er að kaupa velferðarkjúkling (free range).

En svo ef við gerum langa sögu enn lengri, þá með fleiri tilraunum, voru fleiri uppskriftir sem ég safnaði að mér og til að vera ekki alltaf að senda uppskriftirnar í tölvupósti, til fólks sem var að spyrja um þær, var handhægt að setja upp vef til að vísa fólki á. Það var nefnilega enginn svona vefur til og því smíðuðum við einn slíkan. Eða öllu heldur þá setti maðurinn minn, Jóhannes, upp vefinn því svo heppilega (fyrir mig, óheppilega fyrir hann) vill til að hann er forritari. Ég er búin að þræla honum út yfir árin. Og ég meina ÞRÆLA út. Hann kemur greyið þreyttur heim úr vinnu og þá oftar en ekki koma heimtur frá mér um að nýr flokkur verði búinn til, að hann þurfi að laga mynd, letur, uppfæra þetta og hitt, og bæta þessu og hinu við. Og vinnan er algjörlega endalaus. Þetta er nefnilega þriðja útgáfan af vefnum. Oft koma þessar beiðnir frá mér með lævísum bökunarilmi í bakgrunninum. Það er 100% á hreinu að án Jóhannesar væri vefurinn ekki til. Hann er líka yfirsmakkari vefjarins og allt sem hefur farið á síður þessa vefjar, hefur farið í gegnum smökkunarferli Jóhannesar. Hann er líklega eini forritarinn í heiminum sem fær greitt fyrir vinnu sína í smákökum.

Vefurinn var sem sagt í upphafi aðallega ætlaður fyrir mig, til að hafa yfirlit yfir uppskriftirnar mínar (svo þær væru ekki út um allt) en síðan hefur notendum bara fjölgað endalaust sem er bara gaman. Hverjum sem er, er frjálst að nota uppskriftirnar, prenta út og senda öðrum. Það eina sem ég bið um er að þið vitnið í réttan höfund uppskriftir og skal gera það með tengli t.d. Birt á vef Cafesigrun, www.cafesigrun.com. Einnig bið ég ykkur að geta þess hvar þið breytið uppskriftunum ef þið breytið þeim. Myndir þarf að fá leyfi til að birta (en nánast 100% líkur á því að ég samþykki leyfið). Ég legg gríðarlega vinnu í vefinn minn og ég verð b.r.j.á.l.u.ð ef einhver notar uppskriftir eða myndir án þess að láta vita hvaðan þær eru fengnar.

Þó að ég breyti uppskriftum gjarnan þá vil ég taka það fram að margar af upprunalegu uppskriftunum koma frá fólki sem kann silljón sinnum meira en ég í matargerð og eru jafnvel menntaðir, hæfileikaríkir kokkar. Ég breyti aðeins uppskriftum vegna þess að ég forðast of mikla fitu og hvítan sykur í mat en ekki vegna þess að mér finnist ég geta bætt bragðið sem slíkt. Ég vona því að enginn móðgist!!! Ef ég hef eignað mér einhverja uppskrift á síðunni, endilega sparkið í mig og sendið mér línu því ég vil auðvitað setja réttan uppruna uppskrifta alls staðar þar sem það á við. Flestar uppskriftirnar eru þó mínar frá grunni. 

Fyrir áhugasama þá eru allar myndirnar í haus vefjarins og af matnum mínar. Flestar myndirnar í hausnum eru af mat eða einhverju matartengdu og eru teknar í London, Japan, í Austur-Afríku (Kenya, Rwanda, Tanzaníu og Uganda) og víðar en þangað hef ég ferðast oftar en ég hef tölu á, sem fararstjóri og sem ferðamaður. 

Að lokum, og að gefnu tilefni: Ég er bara kona/móðir/eiginkona út í bæ (sem á ekki sjónvarp), í fullri vinnu, sem eyðir öllum sínum frítíma í eldhúsinu svo það er bannað að skamma mig mikið ef hlutirnir gerast hægt eða ef þið skiljið ekkert í því hvers vegna minn vefur hefur ekki sömu flottu virkni og t.d. vefur Mörthu Stewart.

Smáa letrið: Ég er ekki læknir, næringarfræðingur, grasalæknir eða kokkur. Upplýsingar þær sem birtast á vefnum varðandi heilsu eða heilsutengd málefni eiga einungis að vera til fróðleiks en koma aldrei í staðinn fyrir ráðgjöf hjá fagmenntuðum aðilum og mega ekki vera notaðar sem slíkar undir nokkrum kringumstæðum hvorki opinberlega né persónulega. Leitið alltaf aðstoðar fagaðila ef um veikindi eða grun um veikindi er að ræða. Þetta á sérstaklega við um börn, eldra fólk, ófrískar konur og fólk sem er heilsuveilt fyrir.

Ykkar

Sigrún