Kryddaðar strengjabaunir
5. október, 2003
Þessi uppskrift er komin frá Tamila fólkinu í suðurhluta Indlands (reyndar fékk ég hana bara úr indverskri matreiðslubók sem ég á). Baunirnar eru gott meðlæti með ýmsum grjóna- og karríréttum. Frekar bragðsterkt meðlæti en alls ekki um of.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Kryddaðar strengjabaunir
Fyrir 3-4 sem meðlæti
Innihald
- 1 msk kókosolía
- 1 msk fínt rifið eða saxað engifer
- 2 litlir rauðir chili pipar, saxaðir smátt
- 2 hvítlauksgeirar saxaðir smátt eða pressaðir
- 2 tsk coriander fræ
- 1 tsk brún sinnepsfræ
- 0,5 tsk fenugreek fræ
- 560 g snake beans (langar baunir sem hlykkjast í u, fást stundum í stærri matvöruverslunum og kallast stundum strengjabaunir eða green beans. Franskar baunir eru einnig fínar í þennan rétt
- 125 ml kókosmjólk
- 2 msk fersk corianderlauf, söxuð (má sleppa)
Aðferð
- Afhýðið og rífið engiferið eða saxið smátt.
- Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið. Saxið smátt.
- Pressið hvítlauksgeirana eða saxið þá smátt.
- Hitið kókosolíu á stórri pönnu og bætið vatni saman við ef þarf meiri vökva.
- Bætið engiferi, chili, hvítlauk og coriander-, sinneps-, og fenugreekfræjum á pönnuna og hitið í 2 mínútur.
- Bætið baununum saman við og hitið í 5 mínútur.
- Bætið kókosmjólkinni saman við og leyfið öllu að hitna vel eða þangað til mesti vökvinn er að mestu leyti gufaður upp. Gætið tekið um 30 mínútur.
- Áður en rétturinn er borinn fram, dreifið þá söxuðu coriander laufunum yfir.
Gott að hafa í huga
- Þetta meðlæti er einnig gott kalt svo það er allt í lagi að geyma það yfir nótt og borða daginn eftir.
- Fenugreek fræ eru ljósbrún, eins og pínulitlir leirmolar í útliti. Þau fást yfirleitt í verslunum sem selja austurlenskar matvörur. Ef þið finnið ekki fenugreek fræ er best að sleppa þeim alveg þ.e. það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir fræin í matargerð.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025