Zanzibar baunir með sætum kartöflum í kókossósu

Zanzibar tilheyrir Tanzaníu sem liggur í austurhluta Afríku. Ég kom til Zanzibar haustið 2007 og féll alveg fyrir töfrum eyjarinnar. Krydd- og hnetumarkaðir, kryddskógar, tær, blár sjórinn, frábærir veitingastaðir, gamli bærinn (Stone Town) með Foradhani matarmarkaðinum á kvöldin við gasluktirnar...kræklótt hús og skökk þök..yndislegt. Á Zanzibar eru hefðirnar sterkar í anda Araba og Indverja og áhrif af sætkrydduðum mat frá t.d. Indlandi eru greinileg hér. Uppskriftin kemur úr bók sem ég á sem heitir World Food Cafe og heitir eftir samnefndum veitingastað í London. Veitingastaðurinn er grænmetisstaður og aldeilis frábær matur þar á boðstólum, einn af okkar uppáhalds stöðum. Hann er staðsettur í Neal’s Yard, Covent Garden fyrir þá sem vilja prófa hann. Athugið þó að hann er lokaður á sunnudögum! Ég mæli með bókinni, hún er full af frábærum uppskriftum og fróðleik um menningu þessa staða sem eigendur World Food Cafe heimsóttu. Þessi réttur er einn af þeim sem verður bara betri daginn eftir og er frábær á þriðja degi í nestið. Um að gera að búa til slatta! Vissuð þið að Freddie Mercury fæddist á Zanzibar? Það er m.a.s. veitingastaður sem heitir eftir honum.

Athugið að augnbaunir þarf ekki að leggja í bleyti og má sjóða beint.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Zanzibar baunir með sætum kartöflum í kókossósu

Fyrir 4-6

Innihald

  • 450 g sætar kartöflur, skrældar, skornar í 2 sm teninga og soðnar
  • 450 g augnbaunir (black eyed peas), soðnar eða úr dós
  • 1 stór laukur, afhýddur og saxaður smátt
  • 6 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
  • 5 sm bútur ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
  • 2 tsk kókosolía
  • 0,5 tsk negull
  • Smá klípa kardimomma
  • 2 tsk turmeric
  • 6 grænir chili pipar, fræhreinsaðir og skornir í 4 lengjur
  • Ein lúka fersk corianderlauf, rifin
  • 400 ml kókosmjólk
  • Svartur pipar eftir smekk
  • Heilsusalt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk

 

Aðferð

  1. Skrælið sætu kartöflurnar, skerið í 2 sm bita og sjóðið þangað til nánast mjúkar en ekki of mjúkar (í um 7 mínútur).
  2. Sjóðið augnbaunirnar í 45-50 mínútur eða þangað til næstum því mjúkar.
  3. Afhýðið engifer, lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  4. Afhýðið engiferið og saxið smátt.
  5. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og skerið hvern pipar í 4 lengjur.
  6. Rífið corianderlaufin eða saxið gróft.
  7. Hitið kókosolíu á stórri pönnu eða í stórum potti og bætið við vatni ef þarf. Steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferið þangað til allt er orðið mjúkt.
  8. Bætið negul, kardimommu, chili pipar og coriander saman við og hitið í um 3 mínútur.
  9. Bætið kókosmjólkinni við, sætu kartöflunum og baununum og hitið í nokkrar mínútur.
  10. Leyfið þessu að malla þangað til kartöflurnar eru orðnar alveg tilbúnar.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með chapati brauði, hýðishrísgrjónum eða byggi og raita gúrkusósu
  • Nota má nýrnabaunir í staðinn fyrir augnbaunir.
  • Augnbaunir (enska: black eyed peas) eru hvítar með svörtum doppum á.
  • Það þarf ekki að leggja augnbaunir í bleyti heldur er nóg að sjóða þær í 50 mínútur.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í smoothie eða svona rétt.