Kókos- og límónusúpa
Þessi súpa er svolítið „öðruvísi”, krydduð en ansi góð og sérlega drjúg. Kókosmjólkin, engiferið og límónan passa vel saman og gefa ferskt bragð með thailensku ívafi. Afskaplega sniðug súpa ef maður á smávegis af tofu, rækjum, kjúklingi eða fiski til að henda út í en stendur þó vel fyrir sínu sem seðjandi grænmetissúpa. Mér finnst mjög mikilvægt með súpur sem innihalda sítrónugras og límónur að þær bragðist ekki eins og uppþvottalögur og að gott jafnvægi sé á milli súra, sæta og sterka bragðsins. Þið getið lagað hlutföllin að ykkar smekk en ég er hrifnari af aðeins sætari súpum en sterkum.
Súpan hentar þeim sem hafa mjólkuróþol og glúteinóþol. Súpan hentar einnig vel til frystingar (en betra að bíða með að setja kínverska hvítkálið út í þangað til súpan er hituð upp).
Til að gera kryddgrunninn er gott að nota matvinnsluvél eða töfrasprota en einnig má saxa hráefnið afar smátt.
Ef þið finnið ekki kínverst hvítkál má sleppa því.
Mild og bragðgóð súpa fyrir alla fjölskylduna
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Kókos- og límónusúpa
Innihald
- Hálfur laukur
- 5 g ferskt engifer
- Hálfur grænn chili pipar
- 2 hvítlauksrif
- 2 stilkar sítrónugras (e. lemon grass)
- 100 g pak choi (kínverskt hvítkál), saxað gróft
- Fjórðungur úr rauðri papriku, sneidd í þunnar sneiðar
- 1 msk kókosolía
- 200 ml vatn
- 5 steviadropar án bragðefna
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 200 ml kókosmjólk
- 300 ml mjólk að eigin vali
- 175 g baunaspírur
- Safi af hálfri sítrónu
- Safi af hálfri límónu
- Ein lófafylli fersk coriander lauf (má sleppa)
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Svartur pipar eftir smekk
Aðferð
- Afhýðið hvítlauk og lauk. Saxið gróft.
- Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið. Saxið gróft.
- Skerið paprikuna langsum og fræhreinsið. Skerið í þunnar sneiðar.
- Afhýðið engiferið og saxið smátt.
- Fjarlægið ystu blöðin af sítrónugrasinu og saxið smátt.
- Hreinsið kínverska hvítkálið og saxið gróft.
- Setjið hvítlauk, lauk, engifer, chili pipar og sítrónugras í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) og maukið í um mínútu eða þangað til vel maukað saman og engir stórir bitar eftir.
- Hitið kókosolíuna í potti og setjið maukið í pottinn. Hitið varlega í um 5 mínútur.
- Bætið við kókosmjólk, mjólk, stevia, vatni, grænmetisteningi, baunaspírum, papriku og kínverska hvítkálinu. Hitið varlega í 10 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið meyrt (ennþá aðeins stökkt) en ekki mjúkt.
- Bætið við sítrónu- og límónusafanum og corianderlaufunum og hitið að suðu.
- Kryddið með salti og pipar og berið fram í djúpum skálum.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að bæta út í súpuna afgangs sjávarfangi eins og, lúðubitum, humri, hörpuskel eða rækjum til að gera hana matarmeiri. Einnig má nota kjúkling (notið „hamingjusaman” kjúkling).
- Einnig er hægt að bæta meira grænmeti út í eins og smátt skorinni gulri og rauðri papriku, núðlum eða smávegis af soðnum grjónum.
- Pak choi kallast líka hakusai, bai cai, pak choi eða kínverskt hvítkál. Fæst oft í stærri matvöruverslunum eða verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskum matvörum.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.