Kachumbari (tómat- og rauðlaukssalat)

Uppskriftin kemur frá Lucy Mwangi mágkonu minni sem er frá Kenya. Þetta salat er svipað og mexikanskt „salsa" en ekki eins sterkt þar sem búið er að útvatna laukinn til að draga úr styrkleika bragðsins. Salatið er borið fram með öllu mögulegu í Kenya, ekki síst grilluðu kjöti eða grænmeti þ.e. notað eins og íslenskt hrásalat en er helmingi hollara! Kenyabúar nota mikið af fersku coriander (stundum kallað Cilantro) í matinn sinn.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Kachumbari (tómat- og rauðlaukssalat)

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 stór rauðlaukur, saxaður MJÖG smátt
  • 2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 4-5 tómatar, MJÖG smátt saxaðir. Sumir fræhreinsa tómatana en það er smekksatriði
  • Hálf gúrka, söxuð mjög smátt
  • Ein lúka ferskt coriander, bara laufin, söxuð (má sleppa, ég nota ekki alltaf)
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og saxaður smátt (má sleppa)
  • 1 vel þroskað avocado, saxað mjög smátt (avocado er ekki alltaf notað með en mér finnst það svakalega gott)
  • 1 límóna í bátum (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið rauðlaukinn og saxið mjög smátt. Látið laukinn liggja í söltu vatni í um 30 mínútur og skolið svo af í sigti (tekur bitra bragðið úr lauknum).
  2. Skerið tómatana í helminga, fræhreinsið þá og saxið smátt.
  3. Saxið gúrkuna smátt.
  4. Fræhreinsið chilipiparinn og saxið smátt.
  5. Afhýðið avocadoið og saxið smátt.
  6. Blandað öllu varlega saman (án þess að hræra) og kælið í um 30 mínútur.
  7. Salatið má gjarnan bera fram með límónubátum.

Gott að hafa í huga

  • Ef avocado er ekki notað má gera salatið með a.m.k. dags fyrirvara. Ef þið viljið útbúa það með fyrirvara en samt nota avocado, má geyma að saxa avocadoið fram á síðustu stundu.