Franskar kartöflur

Bíðið við…, franskar kartöflur á vef CafeSigrun… er það ekki prentvilla? Er konan orðin klikkuð???? Áður en þið sendið mér áhyggjufull fyrirspurn um hvort ég sé orðin galin þá skuluð þið skoða innihaldslýsinguna á þessari uppskrift…. Það eru þrjú atriði á listanum, kartöflur, olíuúði og salt…, ekkert annað. Frönskurnar eru því bráðhollar og afar, afar langt frá því sem finna má á skyndibitastöðum. Hugmyndin er byggð á frönskunum hennar Lísu Hjalt vinkonu minni en hún fékk hugmyndina frá vinkonu sinni. Ég notaði kókosolíu/vatnsúða en Lísa útbýr frönskurnar þannig að hún penslar bökunarpappír með olíu og lætur pappírinn liggja undir kartöflunum í 2 tíma. Við það drekka kartöflurnar í sig olíuna á löngum tíma en olíumagnið er lítið. Svo saltar hún frönskurnar og bakar. Það má einnig pensla frönskurnar. Hvaða aðferð sem þið notið skiptir ekki öllu máli en ég get lofað ykkur hollum og góðum frönskum kartöflum.


Hollar og góðar franskar kartöflur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Franskar kartöflur

Fyrir 4-5 sem meðlæti

Innihald

 • 6 kartöflur
 • 1 tsk kókosolía og 2 tsk volgt vatn
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

 1. Skerið kartöflurnar fyrst í sneiðar (um 5 mm þykkar).
 2. Skerið kartöflurnar því næst í mjóa strimla.
 3. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið strimlunum jafnt á bökunarpappírinn.
 4. Blandið saman vatni og kókosolíu í litla skál. Penslið kartöflurnar með blöndunni.
 5. Saltið kartöflurnar og veltið þeim aðeins til.
 6. Úðið kókosolíu/vatni yfir eða penslið.
 7. Saltið og veltið kartöflunum aðeins til.
 8. Bakið við 200°C í um 20-25 mínútur. Fylgist vel með kartöflunum því þær eru fjótar að brenna.
 9. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

 • Mér finnst gott að hafa kartöflurnar stökkar en þið getið haft þær mýkri með því að baka þær aðeins styttra eða við lægri hita.
 • Gott er að krydda kartöflurnar með kartöflukryddi frá Pottagöldrum eða einhverju öðru góðu kryddi.
 • Sömu aðferð má nota til að baka skífur.
 • Best er að bera frönskurnar fram strax því þær mýkjast fljótt.