Dökk súkkulaðikaka (án súkkulaðis)

Þetta er bara ansi sniðug uppskrift. Þessi kaka inniheldur ekki súkkulaði eða kakó, ekkert smjör, ekkert hveiti, engan sykur, engan flórsykur og engan rjóma! Aðaluppistaðan er hnetur og carob. Kremið er svo búið til úr tahini (sesammauki) carobi og hlynsírópi. Kakan hentar því mjög vel fyrir þá sem eru jurtaætur (enska: vegan) og fyrir þá sem vilja ekki hveiti (t.d. með glúteinóþol) eða sykur. Kakan er reyndar alls ekki hitaeiningasnauð, þvert á móti, hún er þvílík kaloríubomba en á móti kemur að hún er ansi vítamínrík, próteinrík, kalkrík og svo er mikið af hollri fitu í öllum hnetunum og möndlunum. Gott er að bera kökuna fram með cashewhneturjóma (eða venjulegum rjóma fyrir þá sem það vilja). Gott er að hafa í huga að ekki þarf að baka þessa köku og hún tekur ekki langan tíma í undirbúning þar sem hráefnið fer mest allt í matvinnsluvél! Þetta er sennilega „frægasta uppskriftin” á CafeSigrun því hún hefur fengið umfjöllun a.m.k. 4 sinnum í blöðunum! Kakan sló einnig í gegn á meðal útlendinga í hestaferð um hálendið 2007. Þeir trúðu því ekki að hægt væri að fá svona fína köku án þess að vera með neitt nema sleif og skál (ég var búin að mala hneturnar)!

Athugið að nota má kakó í staðinn fyrir carob. Nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Litrík og falleg kaka, fín í hvaða veislu sem er

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Dökk súkkulaðikaka (án súkkulaðis)

Gerir 1 köku

Innihald

Botninn:

  • 150 g möndlur
  • 185 g cashewhnetur
  • 180 g döðlur, saxaðar gróft (setjið í volgt vatn í 15 mín)
  • 1,5 kúfuð msk carob (eða kakó)
  • 0,25 tsk salt (t.d. Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 banani, vel þroskaður

Kremið:

  • 125 ml ljóst tahini (sesammauk), hellið olíunni af eins mikið og hægt er
  • 4 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) 
  • 1,5 msk carob (eða kakó)
  • 1 banani, vel þroskaður
  • Nokkrar matskeiðar af vatni (af döðlunum)

Aðferð

Aðferð - Botninn:

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í soðið, volgt vatn. Látið liggja í 15 mínútur.
  2. Setjið hnetur og möndlur í matvinnsluvél, malið hneturnar í um 1 mínútu eða þangað til fínmalaðar án þess að vera maukaðar. Bætið salti og carobi saman við og malið í 5 sekúndur. Setjið í stóra skál.
  3. Hellið vatninu af döðlunum en haldið eftir nokkrum matskeiðum.
  4. Setjið döðlur og banana í matvinnsluvél og blandið í 30 sekúndur eða þangað til vel maukað. Setjið út í stóru skálina og hrærið mjög vel.
  5. Kælið í um klukkutíma.
  6. Hellið deiginu á þann disk eða bakka sem bera á kökuna fram á og mótið kökuna með t.d. sleikju. Það má hafa hana ferkantaða, kringlótta (hjartalaga þess vegna!) en aðalatriðið er að hún verði ekki of þykk (fínt að hafa hana svona 2 sm á hæð).

Aðferð - Kremið:

  1. Setjið banana, tahini, hlynsíróp og carob í matvinnsluvélina. Maukið í um 30 sekúndur eða þangað til flauelsmjúkt. Bætið við nokkrum matskeiðum af döðluvatninu ef þarf. Kremið á að leka hægt að sleif (en ekki í dropatali).
  2. Setjið plastfilmu yfir kremið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.
  3. Takið kökuna úr ísskápnum og smyrjið kreminu yfir hana og utan á hana. Skreytið kökuna með ferskum ávöxtum (t.d. vel þroskuðum bönunum og jarðaberjum), kókosflögum eða jafnvel þurristuðum, söxuðum hnetum eða möndlum.
  4. Berið fram með cashewhneturjóma eða venjulegum, þeyttum rjóma.

Gott að hafa í huga

  • Tvöfalda má uppskriftina til að fá þykkari köku. Það er þó gott að hafa í huga að kakan er ansi saðsöm og mikil þannig að mér finnst henta vel að hafa hana í þynnri kantinum.
  • Kakan virkar kannski flókin en hana má gera í mörgum stigum t.d. vera búin að mala hnetur nokkrum dögum áður o.s.frv. Kakan geymist í meira en viku í kæli
  • Þetta er svolítið meira en þarf af kreminu en þið getið fryst afganginn og borðað sem ís eða notað í drykk (smoothie).
  • Carob og tahini (sesammauk/sesamsmjör) fæst í heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana.
  • Nota má kakó í stað carobs.
  • Nota má dökkt tahini í staðinn fyrir ljóst (dökkt er hollara).
  • Kremið má nota á aðrar kökur.

Ummæli um uppskriftina

Bjarnhildur Ólafsdóttir
18. des. 2010

Sæl Sigrún.
Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá minni fjölskyldu. Ég ætlaði alltaf að segja þér frá því að ég breytti aðeins og setti súkkulaði krem ofan á (svona sem ég bý til úr kókosolíu, agavesýrópi og kakói) í staðin fyrir kremið sem þú ert með og þá er þetta næstum eins og frönsk súkkulaðikaka :)

Bestu kveðjur
Bjarnhildur

sigrun
18. des. 2010

Bjarnhildur það er örugglega frábær viðbót, takk fyrir að deila með okkur!!!!

gestur
19. sep. 2012

Er nokkuð hægt að nota meira magn af möndul í stað hneta ? :)

sigrun
20. sep. 2012

Já já það er vel hægt :)