Banana- og hnetukaka með sítrónu-kókoskremi

Þessi holla og sumarlega kaka er óskaplega einföld og það þarf engan bakstursofn til að útbúa hana og hentar því vel t.d. í sumarbústaðnum ef þið eruð ekki með bakaraofn. Það er þó nauðsynlegt að eiga matvinnsluvél (eða góðan blandara). Kakan er upplögð þegar þið eruð að fá gesti eftir um klukkustund því hún er svo fljótleg. Það má vel tvöfalda uppskriftina og gera þykkari köku en þessi er frekar þunn. Ekki láta útlitið fæla frá því kremið virkar svolítið eins og gubb....Ég lofa samt að það er ekki þannig á bragðið því kremið er frísklegt og passlega sætt. Það er um að gera að skreyta hana með t.d. kókosflögum rifnum sítrónuberki.

Þið þurfið 20-22 sm kringlótt bökunarform fyrir uppskriftina.

Athugið að nota má kakó í staðinn fyrir carob en carob er sniðugt ef þið eruð að útbúa kökuna fyrir ung börn eða þá sem þola ekki örvandi efnin úr kakóinu.

Mikilvægt er að nota lífrænt ræktaða sítrónu þar sem þið munið nota börkinn af henni.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Banana- og hnetukaka með sítrónu-kókoskremi

Gerir 1 köku

Innihald

 • 80 g cashewhnetur, malaðar
 • 80 g möndlur, malaðar
 • 2 msk carob (dökkt ef það er til, annars ljóst)
 • 0,5 tsk kanill
 • 1 tsk rifinn sítrónubörkur (+ til að skreyta)
 • 2 msk sítrónusafi
 • 2 stórir, vel þroskaðir bananar
 • 35 g stórar kókosflögur
 • 1 msk kókosolía
 • 110 g döðlur, saxaðar gróft
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 3 msk appelsínusafi

 

Aðferð

 1. Rífið sítrónubörkinn fínt á rifjárni og setjið til hliðar.
 2. Setjið cashewhnetur og möndlur í matvinnsluvél og blandið í um 30 sekúndur eða þangað til fínmalað. Bætið carobi og kanil út í vélina og blandið nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
 3. Fyrir kremið skuluð þið afhýða annan bananann og setjið í matvinnsluvéllina ásamt kókosolíu, kókosflögum og sítrónusafa. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til gróflega maukað. Setjið kremið í litla skál og geymið í ísskápnum.
 4. Saxið döðlurnar gróft og setjið í matvinnsluvélina. Blandið í um 30-60 sekúndur eða þangað til vel maukaðar. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið vanilludropum og appelsínusafa út í. Blandið áfram í um 30 sekúndur.
 5. Hrærið nú döðlumaukinu saman við hnetublönduna í stóru skálinni. Deigið á að vera þannig að það sé auðvelt að klípa það saman en alls ekki of maukað eða blautt.
 6. Bætið sítrónuberkinum út í stóru skálina.
 7. Setjið plastfilmu í 22 sm kringlótt mót og þrýstið hnetublöndunni vel ofan í.
 8. Skerið hinn bananann í sneiðar og raðið ofan á botninn. Setjið botninn í frysti í 10 mínútur (eða í ísskáp í 30 mínútur) eða lengur (þó ekki lengur en 30 mínútur í frysti ef nota á kökuna strax).
 9. Takið botninn úr frystinum og hvolfið varlega ofan á kökudisk.
 10. Takið kremið úr ísskápnum og smyrjið því ofan á.
 11. Skreytið með kókosflögum, blómum eða niðursneiddum ávöxtum.

Gott að hafa í huga

 • Einnig má skreyta með t.d. berjum, svolitlu af rifnum sítrónuberki (mikilvægt að nota lífrænt ræktaða sítrónu) eða jafnvel með appelsínusneiðum.
 • Nota má kakó í stað carobs.

Ummæli um uppskriftina

Védís
22. maí. 2011

Hæ hæ, yndislega girnileg kaka. Vantar ekki kremið í uppskriftina? Ég sé það hvergi. Bestu kveðjur og takk fyrir frábæra síðu :)

sigrun
22. maí. 2011

Hæ Védís :)

Nei kremið vantar ekki heldur er uppskriftin illa orðuð hjá mér, best ég lagfæri það :)

Takk

Sigrún