Pecankaka með súkkulaði- og cashewmauksfyllingu
Þessi er dásamlega holl og góð. Í pecanhnetum og cashewhnetum er holl fita sem hjálpar til við að halda hjartanu heilbrigðu. Fyllingin er loftkennd, næstum því eins og súkkulaðimús og ég get lofað ykkur því að bros færist á varir þeirra sem smakka hana! Ég hef gert þessa köku hundrað milljón sinnum og það er ekki sjaldan sem hún algjörlega þurrkast af borðinu eins og stormsveipur fari yfir. Þessi kaka er nefnilega þannig að maður verður að skera bara píííííínulitla sneið í viðbót eftir að hafa klárað bitann sem var á diskinum, og svo aðra, og aðra sneið. Hægt er að útbúa þessa köku í lítil form og bera fram sem litlar kökur en ég geri yfirleitt eina stóra. Athugið að kakan er ekki bökuð. Ég nota heimatilbúið cashewhnetumauk en hægt er að kaupa það í heilsubúðum. Það er svívirðilega dýrt svo ég mæli með að búa það til sjálf. Athugið að kakan þarf að stífna í ísskápnum í nokkrar klukkustundir áður en hún er borðuð. Kakan hentar vel þeim sem hafa mjólkur- og/eða glúteinóþol. Uppskriftin virkar svolítið flókin en er það í raun ekki.
Þessi kaka hefur m.a. unnið sér það til frægðar að hafa verið útbúin í jöklaferð. Ég laumaði lítilli útgáfu af kökunni í bakpokann hjá Jóhannes í eitt skiptið þegar hann fór í jöklaferð, við mikla kátínu hans. Hann var ofurþreyttur og kaldur eftir göngu og slark dagsins, og það sem kom honum áfram var vitneskjan um kökuna í pokanum. Hann var að sjálfsögðu með ofur hollan mat með sér (hinir voru með pakkamat) og eftir matinn dró hann fram kökuna góðu. Það lá við yfirliði samferðarmanna hans, bæði úr undrun og gleði. Kökunni var skipt niður jafnt á milli allra (1 sm sneið á mann), við mikla hamingju.
Nauðsynlegt er að eiga matvinnsluvél eða góðan blandara til að búa kökuna til en einnig þurfið þið kringlótt 21 sm, lausbotna kökuform.
Dásemdar pecan-, cashew- og súkkulaðikaka
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
- Hráfæði
Pecankaka með súkkulaði- og cashewmauksfyllingu
Innihald
Botn:
- 100 g pecanhnetur
- 50 g möndlur
- 90 g döðlur, saxaðar gróft (leggið í bleyti í 20 mínútur)
Fylling:
- 100 g cashewhnetur
- 1 stór, vel þroskaður banani
- 30 g kakó
- 4 msk hlynsíróp eða hrátt agavesíróp
- 50-60 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 2 msk kókosolía
- 1 msk kakónibbur (cacao nibs), má sleppa
Aðferð
- Byrjið á botninum:
- Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í 20 mínútur.
- Setjið möndlurnar í matvinnsluvélina og malið í um 15 sekúndur eða þangað til grófmalaðar (mega ekki vera of fínmalaðar á þessu stigi). Bætið pecanhnetunum út í og malið áfram í 10 sekúndur eða þangað til hneturnar eru orðnar nokkuð fínmalaðar án þess að vera maukaðar (geymið í matvinnsluvélinni).
- Hellið vatninu af döðlunum (ekki notað) og setjið í matvinnsluvélina. Blandið í um 10 sekúndur eða þannig að deigið verði grófkornótt og haldist vel saman ef þið klípið það saman með fingrunum.
- Klæðið 21 sm lausbotna kökuform með plastfilmu. Þrýstið blöndunni ofan í botninn og upp á hliðarnar (svona 1,5-2 sm upp á hliðina, botninn þarf ekki að vera mjög þykkur). Geymið í ísskápnum.
- Útbúið fyllinguna:
- Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og maukið alveg þangað til hneturnar fara að mynda kekki, gæti tekið nokkrar mínútur. Á meðan vélin vinnur skuluð þið bæta kókosolíunni út í. Maukið vel.
- Afhýðið bananann og bætið honum út í ásamt hlynsírópi, salti, vanilludropum og kakói. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur og hellið á meðan um 25 ml af sojamjólkinni út í blönduna.
- Fyllingin verður mjög fljótandi og ætti að leka af sleif frekar hratt (en ekki í dropatali). Ef hún er mjög stíf (eins og búðingur), bætið þá um 25-35 ml af sojamjólk til viðbótar. Betra er þó að hafa blönduna stífari en mýkri því alltaf má bæta meira af sojamjólk saman við ef nauðsynlega þarf.
- Takið formið úr ísskápnum og rennið kökubotninum á disk (gætið þess að hann brotni ekki). Hér þarf svolitla lagni. Best er að færa kökuna á disk þannig að þið notið lausan, sléttan botn úr kökuformi til að smeygja undir kökuna og renna henni yfir á disk.
- Hellið fyllingunni út í botninn og jafnið vel út með sleikju. Geymið í ísskáp í 2-3 klukkustundir.
- Dreifið kakónibbum yfir kökuna og berið hana fram kalda (verður annars of mjúk).
- Kökuna má skreyta með hnetum (t.d. pecanhnetum), berjum, ávöxtum, kókosflögum o.fl.
Gott að hafa í huga
- Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
- Gera má kökuna í nokkur minni form.
- Í staðinn fyrir 100 g cashewhnetur getið þið notað sama magn af cashewhnetumauki (cashew butter) ef þið komist í slíkt.
- Nota má fínt saxað, dökkt, súkkulaði (lífrænt framleitt, með hrásykri) í staðinn fyrir kakónibbur.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Ummæli um uppskriftina
06. feb. 2011
Ég gerði þessa í síðustu viku, ekki samt í fyrsta skipti, en það var í fyrsta skipti sem dóttir mín 14 ára smakkaði hana og henni fannst þetta besta kaka sem hún hefur smakkað :) Ég var mjöööög ánægð að heyra það því þetta er líka svo holl kaka og mér finnst hún aaalgjööör draumur og manninum mínum líka. En allir kostir hafa sína galla...nú fæ ég ekki eins mikið af kökunni og áður því nú sitjum við þrjú að henni!! (hrumf)
06. feb. 2011
Ha ha gaman að heyra að ykkur líkar kakan (og sérstaklega unglinginum því þeir eru harðir dómarar). Nú er illt í efni, þú ert neydd til að útbúa a.m.k. tvær kökur, eina fyrir þig og hina fyrir afganginn af fjölskyldumeðlimum :) Ég kannast sem sagt við vandamálið því ef ég fæ gesti og ber fram þessa köku verð ég að útbúa tvær, eina fyrir eiginmanninn (til að eiga í ísskápnum) og hina fyrir gestina :)
16. mar. 2011
Maðurinn minn kvartar alltaf að ég baka allt of mikið af hollum kökum sem í hans orðum 'hafa ekkert alvöru bragð'. Hann var sko ekkert smá hissa þegar ég sagði honum hvað þessi kaka var holl. Hann var þá búinn að skófla í sig 2/3 af henni. :-) Takk fyrir æðislega síðu.
16. mar. 2011
Hí hí, brilliant :) Takk fyrir að deila með okkur :)
02. júl. 2011
mmm... þessi kaka er ein af mínum uppáhalds! :)
02. júl. 2011
Gaman að heyra Hrönn :)
03. júl. 2011
Ji minn, hvað þessi kaka er mikil snilld! Gerði hana í eftirrétt í gær og hún er svooo góð. Ekkert lítið ánægð að hafa loksins prufað hana. Þessi verður oft á borðum héðani frá;D
Er að pæla í að gera síðan frönsku súkkulaðikökuna í kvöld og hlakka rosa mikið til hahaha:)
03. júl. 2011
Reglulega gaman að heyra og ég mæli svo sannarlega með 'frönskunni'. :)
20. maí. 2012
Mmmm geggjuð kaka :) frábærar uppskriftir hjá þér! Ég var ad velta því fyrir mér hvort að það sé hægt að nota eitthvað annað í kremið heldur en banana en samt fá þetta svona silkimjúkt og flott? :)
20. maí. 2012
Hmmm þú gætir notað vel þroskað mango í staðinn og jafnvel avocado. Þú gætir þurft að bæta 1 msk af agavesírópi út í og ef kremið verður of blautt bættu þá aðeins af kakói út í. Athugaðu að kremið stífnar aðeins í kæli.
05. jan. 2013
var að klára þessa og hun er algjört æði:) er ekkert smá ánægð með þessa síðu var að gefast upp á að reyna hollt fæði en fann þessa síðu og hun er buin að bjarga mer takk takk :)
05. jan. 2013
Flott að heyra Dísa :)
28. jan. 2014
þessi kaka er rosalega auðveld og rosalega góð
28. jan. 2014
Gaman að heyra Drífa :)
16. ágú. 2015
Þessi kaka hvarf ofan í fólk áður en ég náði að fara í tölvuna og þakka fyrir FRÁBÆRA uppskrift!! :D
16. ágú. 2015
Æi gaman að heyra elsku Anna Kristín :)