Litlar ávaxtabökur með carob- og cashewkremi

Það er fátt sem toppar þennan eftirrétt í hollustu. Hann inniheldur holla fitu, trefjar, prótein, vítamín, flókin kolvetni og fleira gott fyrir okkur. Þennan eftirrétt má gera með góðum fyrirvara og jafnvel frysta. Þessar litlu hollustubökur eru glúteinlausar og hentar líka fyrir þá sem eru jurtaætur (vegan). Botnarnir eru ekki bakaðir og það má útbúa þá vel á undan og taka með sér fyllinguna og kremið og setja saman annars staðar (upplagt í sumarbústaðinn og útileguna til dæmis). Uppskriftin virkar flókin því hún er í þremur hlutum en hún er samt&;ofureinföld. Gætið samt að því að þið þurfið um 2-3 klukkustundir til að leggja hnetur í bleyti og svo til að láta botn og fyllingu stífna.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Litlar ávaxtabökur með carob- og cashewkremi

Gerir 6 ávaxtabökur

Innihald

Botn:

 • 100 g möndlur, lagðar í bleyti í nokkrar klukkustundir
 • 100 g döðlur, saxaðar gróft og lagðar í bleyti í nokkrar klukkustundir
 • 1 msk cashnewhnetumauk eða möndlusmjör
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 1 tsk kanill

Fylling:

 • 50 g döðlur, saxaðar smátt
 • 50 g aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxaðar smátt
 • 40 g þurrkuð epli (lífrænt ræktuð), söxuð smátt
 • 25 g rúsínur
 • 3 msk cashewhnetumauk eða möndlusmjör
 • 2 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp

Krem:

 • 1 vel þroskaður banani
 • 1 msk carob (eða kakó)
 • 2 tsk hreint hlynsíróp eða agavesíróp
 • 2 msk cashewhnetumauk eða möndlusmjör

Aðferð

 1. Byrjið á botninum:
 2. Saxið döðlur gróft og leggið í bleyti.
 3. Leggið möndlurnar í bleyti.
 4. Hellið vatninu af möndlunum og döðlunum og setjið í matvinnsluvél. Blandið í um 5 sekúndur eða þangað til gróft saxað. Bætið cashewhnetumauki, vanilludufti og kanil saman við og blandið áfram. Deigið ætti að vera mjög smátt saxað en ekki samt of blautt/maukað. Það ætti að haldast saman ef þið klípið því á milli fingurgómanna.
 5. Best er að nota silicon muffinsform til að útbúa botnana (en má nota önnur form). Þrýstið blöndunni í vel í botn og kanta þannig að það sé alls staðar jafn þykkt.
 6. Frystið í 1-2 klukkustundir.
 7. Undirbúið fyllinguna næst:
 8. Saxið döðlur, epli og aprikósur smátt og setjið í matvinnsluvélina ásamt rúsínum, cashewhnetumauki og hlynsírópi. Blandið í 5-10 sekúndur eða þangað til allt er orðið vel hakkað en alls ekki maukað. Setjið í skál og geymið í ísskápnum í um 30 mínútur.
 9. Að lokum skuluð þið undirbúa kremið:
 10. Afhýðið banana og setjið í matvinnsluvél ásamt carob, hlynsírópi og cashewhnetumauki. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til mjög vel maukað og mjúkt.
 11. Takið botnana úr frysti og raðið varlega á disk eða diska.
 12. Setjið fyllingu í hvern bökubotn. Gott er að nota teskeið.
 13. Hellið kremi yfir bökurnar eða notið sprautupoka.
 14. Skreytið með kókosmjöli.

Gott að hafa í huga

 • Nota má saxaðar hnetur, kakónibbur eða ferska ávexti/fersk ber til að að skreyta bökurnar með.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Athugið að þið þurfið cashewhnetumauk (enska: cashew butter) eða möndlusmjör (enska: almond butter) í uppskriftina (fást í heilsubúðum). Ef þið finnið ekki slíkt, má útbúa sitt eigið með því að mauka hnetur eða möndlur í matvinnsluvél ásamt kókosolíu þangað til afar vel maukað og silkimjúkt (því mýkra því betra).

Ummæli um uppskriftina

Malen
27. okt. 2012

hef tekið eftir að í mörgum uppskriftunum þínum er notaður banani til að þykkja, er hægt að nota eitthvað annað? (er með ofnæmi fyrir banana, döðlum, avocado, kiwi og flestum hnetum fyrir utan kasjú og pistasíu hnetur.)

sigrun
27. okt. 2012

Hmmmmm þú gætir notað vel þroskað mango eða vel þroskaða peru (þarft að sigta vökvann frá henni).....en það gæti auðvitað aðeins breytt bragðinu.