Döðlu- og valhnetubrauð

Þetta er samsetning úr mörgum döðlubrauðsuppskriftum. Ég var ekki ánægð með neina þeirra (hvað hollustu varðar) og þróaði því mína eigin. Ég notaði kókosolíu í stað smjörs (og töluvert minna af fitu en átti að gera), rapadura hrásykur í stað hvíts sykurs og spelti í stað hvíts hveitis. Þetta er voða fínt kökubrauð með sunnudagskaffinu og passar sérlega vel í nestisboxið fyrir stóra sem smáa. Brauðið má frysta.

Athugið að þið þurfið um 1 kílóa brauðform til að baka kökubrauðið í. Athugið einnig að ef þið hafið ofnæmi fyrir hnetum má alveg sleppa þeim.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Döðlu- og valhnetubrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 220 g döðlur, saxaðar gróft
 • 50 g valhnetur, saxaðar gróft (má sleppa)
 • 300 ml vatn (fyrir döðlurnar)
 • 350 g spelti
 • 20 g hveitiklíð (eða meira spelti)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk kakó eða carob (má sleppa)
 • 75 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 egg
 • 2 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
 • 2 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar gróft, setjið í skál og hellið um 300 ml af sjóðandi heitu vatni yfir. Látið standa í 20 mínútur.
 2. Saxið valhneturnar gróft.
 3. Sigtið saman í stóra skál spelti, lyftiduft og kakó. Hrærið vel og bætið hveitiklíðinu saman við.
 4. Í annari skál skuluð þið hræra saman eggjum, vanilludropum, rapadura hrásykri, agavesírópi og kókosolíu. Hellið út í stóru skálina og veltið deiginu til (ekki hræra of mikið).
 5. Hellið vatninu af döðlunum og geymið. Bætið döðlunum út í stóru skálina ásamt valhnetunum. Notið eins mikið af vatninu og þarf út í deigið. Athugið að deigið á að leka af sleif í stórum klessum en á ekki að leka af í dropatali. Það ætti heldur ekki að vera nægilega þurrt til að hægt væri að hnoða deigið.
 6. Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu út í og gætið þess að það fari í hornin líka.
 7. Bakið við 180°C í 40-45 mínútur.
 8. Berið fram með lífrænt framleiddum sultum án viðbætts sykurs, hummusi, smurosti, ólífusmjöri o.fl.

Gott að hafa í huga

 • Deigið á ekki að vera of blautt en heldur ekki of þurrt. Það á t.d. ekki að vera það þurrt að maður geti hnoðað það en heldur ekki of blautt þannig að það dropi af sleifinni. Það á að vera svona mitt á milli!
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Gott er að bæta svolitlu af söxuðum valhnetum eða pecanhnetum í deigið.
 • Kanill fer vel með þessu kökubrauði, sérstaklega ef þið bakið það fyrir jólin.
 • Þegar kökubrauðið hefur kólnað er best að skera það í sneiðar og frysta hverja sneið fyrir sig. Þannig er auðvelt að kippa einni og einni sneið út og setja t.d. í brauðrist eða bakaraofn.

Ummæli um uppskriftina

gestur
23. feb. 2011

mjög gott brauð hjá þér, takk fyrir þetta :)

sigrun
24. feb. 2011

Gaman að heyra að þér líkaði brauðið. Þú ættir að prófa kryddbrauðið líka, það er mjög gott :)

Hrefna Sif Jónsdóttir
29. júl. 2012

Ég var að prófa þetta döðlubrauð! Það er algjör snilld, rosalega gott. Ætlum að nota það sem nesti í vinnuna á morgun :) Takk fyrir uppskriftina.

sigrun
29. júl. 2012

Meiriháttar! Svo er mjög sniðugt að frysta það og taka með sér í nesti :)

Skrifa ný ummæli

Vinsamlegast athugið að reiti merkta með * þarf að fylla út.
 
Innihald þessa svæðis verður ekki sýnilegt almenningi.
Þessi spurning hér að neðan er til að varna því að spamvélar geti sett inn sjálfvirkar færslur.
Vinsamlegast leggðu saman tölurnar og skrifaðu niðurstöðurnar. T.d. fyrir einn plús þrír, skaltu skrifa 4.
þrír plús þrír eru