Valhnetu- og graskersbrauð

Þessi uppskrift kemur reyndar aðeins breytt, úr bók sem heitir Farmer’s Market Cookbook (Uppskriftabók af bændamarkaðinum). Þetta brauð er ekki sætt en aðeins sætur keimur af því svo það hentar vel t.d. fyrir hummus eða smurost. Graskersfræ eru ótrúlega holl og þau innihalda mikið zinc sem er sérlega hollt fyrir karlmenn og beinin þeirra (já karlmenn fá líka beinþynningu) sem og blöðruhálskirtil. Hnetur innihalda omega 3 fitusýrur sem eru nauðsynlegar fyrir okkur og gera hjartanu í okkur gott (minnka líkur á hjartaáfalli). Einnig innihalda valhnetur töluvert af andoxunarefnum. Brauðið er létt og fínt og það kemur ægilega góð lykt þegar maður bakar það! Það er upplagt að baka brauðið í nóvember-desember því þá nær maður í síðustu graskerin og desember er árstíð valhnetanna. Bætið aðeins meira af múskati við deigið til að fá meiri jólalykt af því og ef þið viljið fá það sætara þá þurfið þið að bæta við meira af agave en minnka þá magnið af graskerinu um 25 grömm.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að útbúa þessa uppskrift. Einnig þurfið þið stórt brauðform.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Valhnetu- og graskersbrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 75 g valhnetur eða pecanhnetur, saxaðar
 • 400 g spelti
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk múskat
 • 1 tsk kanill
 • 500 g grasker eðe butternut squash (þyngd miðast við óverkað grasker)
 • 75 ml agavesíróp
 • 2 msk kókosolía
 • 2 eggjahvítur
 • 1 egg
 • 2 msk graskersfræ

Aðferð

 1. Saxið hneturnar gróft.
 2. Afhýðið og fræhreinsið graskerið og skerið það í grófa bita. Setjið graskerið í pott og látið sjóða í um 15-20 mínútur þangað til það er orðið mjúkt.
 3. Hellið vatninu af graskerinu og látið það kólna. Færið yfir í matvinnsluvél eða blandara og maukið í um 10 sekúndur eða þangað til vel blandað saman.
 4. Setjið 275 g af graskersmaukinu í litla skál. Bætið eggjum, agavesírópi og kókosolíu saman við. Hrærið vel.
 5. Í stóra skál skuluð þið sigta saman spelti, lyftiduft, múskat, kanil og salt. Hellið öllu úr litlu skálina yfir í stóru skálina og hrærið varlega (7-8 hreyfingar). Bætið hnetunum og graskersfræjunum saman við og hrærið varlega (2-3 hreyfingar).
 6. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Gætið þess að það fari vel í öll horn.
 7. Bakið við 180°C í um 45 mínútur og athugið hvort það er orðið tilbúið (stingið hníf í miðjuna og ef blaðið er þakið deigi þarf að baka brauðið lengur).

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með smurosti, döðlusultu, hummus eða einhverju öðru góðu.
 • Ef afgangur er af graskersmaukinu má frysta það og nota síðar.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.