Franska súkkulaðikakan hennar Lísu

Lísa Hjalt vinkona mín er mögnuð kona og þriggja barna móðir, ein af þessum íslensku ofurkonum sem virðast geta allt. Lísa sendir mér gjarnan uppskriftir að því sem hún er að útbúa og alltaf er það girnilegt og gott. Hún var svo góð að gefa mér uppskrift af súkkulaðikökunni sinni sem slegið hefur í gegn á heimili hennar og víðar. Ég var búin að bíða nokkuð lengi eftir uppskriftinni sem var búin að vera í þróun í smá tíma (og sumir orðnir spenntir á mínu heimili… nefni engin nöfn). Þetta er algjörlega uppáhaldskakan mín.

Ég gef Lísu orðið: Það á vera pínulítil frönsk súkkulaðikökustemning yfir þessari. Æðisleg með jarðarberjum, bláberjum eða hindberjum eða með rjóma fyrir þá sem borða svoleiðis!

Ég ætla bara að segja ykkur að Jóhannes lagðist næstum því í gólfið úr hamingju þegar hann borðaði kökuna…...enda a.l.g.j.ö.r.l.e.g.a. dásamleg. Hafið í huga að það er AFAR mikilvægt að baka kökuna ekki lengur en gefið er upp. Ég baka hana í nákvæmlega 12 mínútur í mínum ofni (athugið að ofnar eru misjafnlega kröftugir) en hún á að vera rétt svo þétt í köntunum en afar mjúk í miðjunni (og nánast eins og deig).

Athugið að þið þurfið 21 sm bökunarform og matvinnsluvél (eða góðan töfrasprota) til að útbúa þessa uppskrift.


Nammi namm þessi kaka er algjört sælgæti

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Franska súkkulaðikakan hennar Lísu

Gerir 1 köku

Innihald

 • 80 g döðlur, mjúkar
 • 100 g cashewhnetumauk
 • 4 msk kókosolía
 • 90 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 egg 
 • 65 g spelti
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 4 msk kakó (lífrænt framleitt og helst fair trade)
 • 0,25 tsk Himalaya- eða sjávarsalt 
 • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur úr heilsubúð
 • Ögn af muldum valhnetum [ok að sleppa en gefur afar gott bragð]
 • 20 g dökkt (70%), lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri [má sleppa]

Aðferð

 1. Steinhreinsið döðlurnar og setjið í matvinnsluvél ásamt cashewhnetumaukinu. Blandið í um 2 mínútur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og á meðan vélin vinnur, bætið þá olíunni matskeið fyrir matskeið út í. Vinnið í um 1 mínútu eða þangað til vel maukað. Hellið í stóra skál.
 2. Hrærið hrásykur og egg með gaffli og setjið út í stóru skálina ásamt vanilludropunum. Hrærið vel.
 3. Blandið spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kakói saman [sigtið kakóið út í speltið] og setjið svo út í stóru skálina. Hrærið rólega saman með sleif.
 4. Saxið súkkulaðið smátt og hrærið varlega út í deigið ásamt muldu valhnetunum ef þið notið þær.
 5. Smyrjið hringlaga form (passið að þvermálið sé ekki meira en 21 sm) með kókosolíu [eða klæðið formið með bökunarpappír].
 6. Bakið við 180° C í 12-15 mínútur. Gætið þess að baka kökuna EKKI of lengi.
 7. Takið kökuna strax úr ofninum og leyfið henni að kólna aðeins.

Gott að hafa í huga

 • Nota má cashewhnetur í staðinn fyrir cashewhnetumauk en þá þarf að mauka hneturnar vel. Cashewhnetumauk fæst í flestum stærri matvöruverslunum sem og í heilsubúðum.
 • Ef þið eigið bara harðar döðlur getið þið látið þær liggja í bleyti í 30 mínútur. Hellið svo vatninu af og notið í uppskriftina eins og um mjúkar döðlur væri að ræða.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Í staðinn fyrir cashewhnetumaukið má nota hnetusmjör. 
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur oft mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. 

Ummæli um uppskriftina

Drífa
06. jan. 2011

þessi kaka er sjúklega góð og er í uppáhaldi á mínu heimili, meira segja þeir sem segjast ekki borða hnetur eru æstir í hana. mæli með henni í staðin fyrir franska súkkulaði köku þessi slær henni algjörlega við. :o)

sigrun
07. jan. 2011

Gaman að heyra Drífa og takk fyrir að deila með okkur :)

gudrunh
08. jan. 2011

Þessi er líka í miklu uppáhaldi á okkar heimili - ég nota hana líka þannig að ég sker hana í litla teninga og á í boxi svo hægt sé að næla sér í hollan gúmmelaðibita í ísskápnum (ekki mikið svindl það) ;)

sigrun
08. jan. 2011

Sniðug hugmynd, að eiga kökuna í litlum bitum í boxi :)

Stella
14. apr. 2011

Ótrúlega góð þessi uppskrift, gæti verið að það hafi gleymst vínsteinslyftiduftið?
Ég held ég hafi bakað hana aðeins of stutt, var reyndar með 21cm form ; )
Hér brostu allir allan hringinn!

sigrun
15. apr. 2011

Það getur munað öllu að vera ekki með rétta stærð á formi því kakan verður þykkari og því lengur að bakast með minna formi :) Það á sérstaklega við um þessa köku svo ef þú bakar hana eftur passaðu þá að bæta nokkrum mínútum við baksturstímann. Kakan á að vera mjög klesst og þunn en ekki þannig að hún sé óbökuð.

Fjóla
15. apr. 2011

Þessi er æði
á kærasta sem ekki má heyra ,,heilsu,, eitthvað en hann borðaði þessa með bestu list :) takk fyrir frábæran vef!

Hildur Halldórs
15. apr. 2011

Takk fyrir þessa fínu uppskrift, þessi kaka hvarf ofan í samstarfsfólk mitt í gær og flestir urðu hissa (og glaðir) þegar þeir heyrðu að hún væri líka góð. Ég átti ekki alveg nóg af cashewhnetum svo ég bætti það upp með hnetusmjöri sem var mjög gott :)

Hildur Halldórs
15. apr. 2011

Þetta átti auðvitað að vera "líka holl"

Fanney Sig
11. maí. 2011

Hae hae,
mig langadi ad vita hvort tad se leyfilegt ad nota hunang eda ageve syrop i stadinn fyrir hrasykurinn tar sem sonur minn ma helst ekki borda sykur?

Takk fyrir frabaera sidu.

sigrun
11. maí. 2011

Sæl Fanney

Nei ég er hrædd um að kakan yrði fljótandi, þ.e. allt of lin :( Þú gætir keypt Lucuma duft eða Maca í heilsubúðinni (veit ekki hvort að það fæst en þú getur hringt þangað). Eða ef hann má fá xylitol gætirðu notað það í staðinn fyrir hrásykurinn (en minna af því, um 3/4 af magninu).&; Svo er spurning hvort þú sleppir hrásykrinum en notir meira af döðlum í staðinn og aðeins meira af agave. Kakan verður ekki eins en það kannski kemur ekki að sök?

Ásgerður
28. maí. 2011

Er að prófa þessa uppskrift. Hlakka til að fá útkomuna.
En það hefur líklega gleymst að taka það fram hvenær þú setur lyftiduftið.

frábær síða annars! :)

sigrun
29. maí. 2011

Mikið rétt, búin að leiðrétta, takk fyrir :) Vona að kakan hafi tekist vel ;)

Ásta Hrund
19. júl. 2011

Ég er mikill aðdáandi að frönskum súkkulaðikökum og get alveg sagt að þessi er nú í uppáhaldi! Ótrúlega góð og ekki skemmir fyrir að hún er holl líka :D Rosa gott að setja bláber ofan á.

sigrun
19. júl. 2011

Mmmmmm bláber, góð hugmynd :)

Guðrún Ýr
28. sep. 2011

Þessi finnst mér æði, svona kaka sem maður finnur ekki að sé eitthvað extra "holl", sló í gegn :)

sigrun
28. sep. 2011

Gaman að heyra Guðrún Ýr. Ég skila því til Lísu súkkulaðisnillings&;:)

Ragnheiður
05. nóv. 2011

Þessi kaka er unaðslega góð. Ég var með hana í saumó í fyrra og nú aftur um daginn því stelpunum fannst hún þvílíkt æði.Ég bauð upp á þeyttan rjóma og fersk jarðarber með. Eini ókosturinn er sá að hún endist ekki lengi, kallinn var búinn að klára rest á hádegi daginn eftir saumó:-)

sigrun
05. nóv. 2011

Ég er með munninn fullan af kökunni í þessum skrifuðu orðum.....ég er heppin að fá sneið því maðurinn minn var einn heima með henni he he.

DianaMjoll
20. nóv. 2011

Er að gera kökuna.Spennandi að sjá hvernig hún kemur út!:)

DianaMjoll
20. nóv. 2011

Ætla að hafa hana í kvöld í desert með fjökskyldunni.Mæli algjörlega með henni.

FRÁBÆR SÍÐA!

sigrun
20. nóv. 2011

Gaman að heyra :) Njótið vel :)

gestur
14. feb. 2013

Er gluten i thessu

sigrun
14. feb. 2013

Já, hún væri annars merkt sem glúteinlaus. Þú getur notað kartöflumjöl í staðinn eða hrísmjöl.

gestur
14. feb. 2013

Dóttir mín er með glúteinofnæmi og elskar franska súkkulaðiköku og ef svo er ad thad sé glútein var eg að vonast eftir hvort hægt væri að sleppa thvi ?

gestur
14. feb. 2013

Ok takk

Andrea Ýr
18. feb. 2013

Takk innilega fyrir þessa uppskrift. Þessi kaka var bökuð fyrir afmæli dóttur minnar (sem er með laktósóþol) og hún vakti mikla lukku bæði hjá fullorðnum og börnum.

sigrun
18. feb. 2013

Það er gaman að heyra Andrea og ég skal koma því áleiðis til Lísu snillings :)

m.brynjars
24. mar. 2013

Sæl og takk fyrir frábæra síðu :)
Það eru mörg óþol á mínum bæ svo ég er með þrjár spurningar varðandi breytingar áður en ég fer afstað:

-hrásykur: get ég notað t.d. Kókosblóma sykur í staðinn (sem er ekki svo grófur)?
-egg/rauður: er hægt að nota "egg Substitute" duft (blandað í vatn samkv. pakkanum)?
-Ef ekki þessar breytingar virka dettur þér þá aðrar lausnir í hug?

Með fyrir fram þökk

sigrun
24. mar. 2013

Þú getur vel notað coconut sugar (coconut palm sugar) í staðinn fyrir hrásykur, það er ekkert mál og ég hef gert það oft.

Varðandi egg substitute þá hef ég ekki notað það í kökuna en svo lengi sem þú notar sambærilegt magn við eggin í kökunni þá ætti það að vera í lagi því egg er ekki megin uppistaðan í kökunni (ólíkt t.d. muffinsum þar sem egg skipta meira máli).

Vona að þetta hafi hjálpað :)

Kv. Sigrún

Anna Vala
06. mar. 2014

Var að gera þess i annað sinn. Sleppti hrasykrinum og notaði 120gr af sukrin hefði jafnvel matt vera minna. Við sjáum hvort barnið vill þetta i leikskólanum meðan önnur börn borða sykur :) Notaði líka Steviu dropa með vanillu i stað sykursins. Persónulega finnst mer kakan góð. Ætla samt að nota minna sukrin næst og meiri döðllur;). Takk fyrir flottan vef

sigrun
07. mar. 2014

Ok gaman að heyra Anna Vala, takk fyrir að deila með okkur þessari útgáfu, mjög gagnlegt fyrir marga að vita :)

Ragnheiður
05. des. 2016

Sæl Sigrún,

ég var að baka þessa köku fyrir saumaklúbb á morgun. Ég hafði hana í ofninum á 180°C í nákvæmlega 12 mínútur. Bakaði hana í silikonformi á blæstri. Þegar ég tók hana úr forminu sá ég að botninn var brenndur. Á maður frekar að baka hana við undirhita og yfirhita?

sigrun
05. des. 2016

Sæl Ragnheiður

Leitt að heyra með kökuna. Ég veit hreinlega ekki alveg hvað skal segja. Hún ætti enn að vera mjúk og mjög lítið bökuð í miðjunni eftir 12 mínútur (alveg eins og á myndinni). Ég hef bæði notað blástursofn sem var nýlegur í ótal skipti og svo eldgamlan ofn ekki með neinum blæstri (einnig í ótal skipti) og hún kemur alltaf vel út. En eitthvað hefur augljóslega klikkað og þá þarf maður að klóra sér í kollinum aðeins. Það eina sem mér dettur í hug (af því það er ólíkt minni aðferð), er silikonformið, að það henti hreinlega ekki þessari köku? Ég hef notað stálform með bökunarpappír í öll skiptin og alltaf virkað þannig. Nærðu að baka kökuna aftur fyrir saumaklúbbinn, í stálformi og með bökunarpappír? Eða, ef þú notar aftur silikonformið, að prófa þá bara kannski 8 mínútur til að byrja með? Er ofninn þinn nokkuð „sprettharður" þ.e. heitari en aðrir ofnar? Nokkuð að bila? (Vonandi ekki)! Endilega láttu mig vita hvernig þetta tekst hjá þér. Ómögulegt að vera með brennda köku í saumaklúbbnum!

Ragnheiður
08. des. 2016

Sæl Sigrún,
og takk fyrir svarið. Ég notaði reyndar þessa köku í saumó, skóf bara botninn af með mjög beittum hníf :-) Og hún var alveg ágæt og ekkert brunabragð en hún hefði mátt vera mýkri í miðjunni. En næst prófa ég að hafa hana bara í 10 mínútur á blæstrinum :-) Ofninn er alveg í lagi og ég held hann sé ekkert sprettharðari en aðrir ofnar. En þessi kaka er góð og ég ætla að baka hana aftur fyrir jólin.

sigrun
08. des. 2016

Jæja það er gott að hún fór ekki í ruslið :) Prufaðu 10 mínútur næst (hef aldrei bakað hana svo stutt!) og mundu eftir þeytta rjómanum með (ef þú borðar rjóma), hann tekur kökuna á algjörlega annað level :)

Mig grunar að silikonformið sé sökudólgurinn hér...ég hallast að því allavega :)