Engiferbrauð

Þessi uppskrift kom svo sannarlega á óvart, brauðið var verulega gott!!! Ég fann þessa uppskrift (þ.e. upprunalegu útgáfuna af henni) í einhverjum bæklingi sem ég greip með mér í búðinni í London. Það eru oft sniðugar uppskriftir sem liggja frammi og maður getur safnað þeim í möppu ef maður vill. Ég er nú ekki svo skipulögð og ég hef heldur ekki pláss fyrir bæklingasafn. Mér finnst því best að fletta í gegnum bæklingana, klippa út uppskriftina sem ég ætla að nota og hengja hana t.d. á ísskápinn. Þá man ég eftir að gera hana við fyrsta tækifæri og ef mér líst vel á hana, fer hún á vefinn.

Ég er búin að breyta uppskriftinni aðeins, nota barnamat í staðinn fyrir alla fituna sem átti að vera í uppskriftinni, nota hrásykur í staðinn fyrir venjulegan sykur, spelti í stað hveitis, vínsteinslyftiduft í stað venjulega lyftiduftsins.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Engiferbrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

  • 225 g spelti
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 3 tsk engifer
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 175 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
  • 1 egg
  • 3 msk hrein sojajógúrt eða venjuleg jógúrt
  • 1 msk kókosolía

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál, spelti, vínsteinslyftiduft, salt, kanil, múskat og engifer. Hrærið vel.
  2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi, sojajógúrti og barnamat. Bætið kókosolíunni út í og hrærið vel. Hellið út í stóru skálina og rétt svo veltið deiginu til (ekki hræra of mikið).
  3. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  4. Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu út í og gætið þess að það fari vel í öll horn.
  5. Bakið við 160°C í 50-60 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Þegar kökubrauðið hefur kólnað er best að skera það í sneiðar og frysta hverja sneið fyrir sig. Þannig er auðvelt að kippa einni og einni sneið út og setja t.d. í brauðrist eða bakaraofn.
  • Nota má AB mjólk eða jógúrt í staðinn fyrir sojajógúrt.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

jovina
17. jún. 2014

Get ég notað sukrin í staðinn og hvernig eru þá hlutföllin?

sigrun
17. jún. 2014

Sæl. Ég hef ekki prufað það sjálf en ætli þú þurfir ekki sama magn bara.