Orðalisti
Hér má finna lista yfir orð/innihaldsatriði sem gætu verið notendum framandi, sérstaklega þeim sem eru að gera breytingar í mataræði sínu. Smellið á orðið sem þið viljið fræðast um nánar og útskýring á orðinu mun birtast sjálfkrafa fyrir neðan það.
Athugið að þessar upplýsingar eru aðeins til glöggvunar og koma ekki í staðinn fyrir upplýsingar frá aðilum mér fróðari!!
Acacia hunang
Acacia hunang (enska: Acacia Honey) er í miklu uppáhaldi hjá mér því það er „hreint" bragð af því og það helst fljótandi í langan tíma. Hunang á að virka vel til þess að berjast gegn flensum enda er það ríkt af andoxunarefnum. Hunang á einnig að virka vel til að mýkja særindi í hálsi og getur verið gott fyrir magann. Hunang ætti aldrei að gefa börnum undir 12 mánaða aldri.
Notkun: Þar sem uppskrift gefur agavesíróp, má yfirleitt nota sama magn af acacia hunangi. Hafið í huga þó að í ísgerð er betra að nota hlynsíróp eða agavesíróp því hunang frýs við lægra hitastig og getur breytt áferð íssins. Athugið einnig að bragð af hunangi getur verið nokkuð afgerandi og mér finnst því yfirleitt best að nota það með einhverju öðru. Hunang er ekki vegan afurð þ.e. hentar ekki jurtaætum. Acacia hunang fæst í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Gætið þess að kaupa einungis hreint acacia hunang.
Agave síróp
Agave síróp (enska: Agave Nectar/Agave Syrup) hefur verið notað í þúsundir ára og er framleitt aðallega í Suður Afríku og Mexikó. Í Mexikó er safinn (sírópið) þekktur sem aquamiel eða „hunangsvatn" en ljóst agave síróp er ekki ósvipað og milt hunang að bragði (en þó alls ekki eins). Aztekar töldu agave vera gjöf frá guðunum og notuðu vökvann til að sæta drykki og mat. Agave sírópi er yfirleitt tappað af Blue Agaves (bláu agaveplöntunni) sem vex í gjóskujarðvegi í suður Mexikó. Agave plantan er stórgerð, eins og kaktus og vex og þrífst á svipaðan hátt.
Fleiri en 100 afbrigði af agaveplöntunni eru til, í mismunandi stærðum og litum. Vegna þess að Bláa Agave plantan er rík af kolvetnum er hún talin best til þess að búa til sírópið. Það eru aðrar tegundir til af agave plöntunni en yfirleitt er síróp úr Bláu Agave plöntunni talin best og þá í sína hráasta formi. Agave síróp frá Suður Afríku er unnið úr Bláu Agave plöntunni einvörðungu.
Þegar agave plantan er orðin 7-10 ára gömul eru laufin skorin af. Eftir stendur kjarni plöntunnar sem getur vegið 25-75 kíló. Vökvinn er tappaður af kjarnanum, hann er síaður og hitaður við lágt hitastig sem brýtur kolvetnin niður í sykrur. Til eru ljós og dökk afbrigði agave síróps og eru þau úr sömu plöntunni en ljósa sírópið er yfirleitt hitað við lægra hitastig og er meira síað en dökka afbrigðið. Það er einnig mildara í bragði en dökka afbrigðið. Hrátt agave síróp er hitað undir undir 47°C/118°F sem þýðir að agave síróp hentar vel fyrir þá sem eru í hráfæðispælingum þar sem ensímin eyðileggjast ekki. 
Hafa ber í huga að agave síróp er ekki það sama og agave síróp. Víða tíðkast að blanda óæskilegum efnum við það til að lengja líftíma þess eða gera það sætara. Það er þá oft hitað við hátt hitastig og selt sem heilsuvara. Varast skal slíkar eftirlíkingar. Hlutfall frúktósa á móti glúkósa er mismunandi eftir framleiðsluaðferð og getur verið t.d. 92% frúktósi á móti 8% glúkósa eða t.d. 56% frúktósi á móti 20% glúkósa. Agave síróp fer hægar út í blóðið en venjulegur sykur og hækkar blóðsykurinn því lítið (og er meðal annars ástæða þess að ég nota það). Talið er að neysla á frúktósa sé ekki góð fyrir lifrina en hins vegar skal hafa í huga að hvítur sykur er heldur ekki góður fyrir okkur. Agave síróp, ólíkt frúktósa sem framleiddur er með kemískum aðferðum inniheldur ekki sulfur dioxide, hydrochloric acid eða önnur óæskileg efni.
Í raun er enginn sykur góður fyrir okkur og það er engin rannsókn sem „mælir með” neyslu á agave sírópi en það er heldur engin rannsókn sem mælir með neyslu á hvítum sykri. Af tvennu illu vil ég frekar nota agave síróp og þau ensími sem eru til staðar í hráa afbrigði þess heldur en hvíta, óunna sykurinn. Þetta er líka spurning um hóf og óhóf. Óhófleg neysla á ávöxtum er ekki talin góð heldur svo dæmi sé tekið.
Notkun: Notið ¾ bolla af agave sírópi á móti 1 bolla af sykri. Athugið að ekki er hægt að skipta út sykri fyrir agave síróp í allar uppskriftir nema ef hlutföllum þurru hráefnanna og vökva er breytt í samræmi. Það þýðir að í muffins getur verið erfitt að nota einungis agave síróp ef ekki er dregið úr öðrum vökva (annars verður baksturinn blautur og klístraður). Agave síróp fæst í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
Arrow Root/Örvarrót
Örvarrót (enska: Arrow Root) er glúteinlaus afurð sem notuð er til að þykkja búðinga, hlaup, kökur, heitar sósur, í ís (til að hindra myndun ískristalla) o.fl. Hvíta duftið sem er unnið úr rótum plöntunnar lítur út eins og lyftiduft eða maísmjöl. Örvarrót þykknar við lægra hitastig en t.d. hveiti eða maísmjöl. 
Notkun: Ég blanda örvarrót yfirleitt saman við kalt vatn áður en ég nota það í heita vökva. Gætið þess vel að þið ofhitið ekki blönduna (og látið hana ekki sjóða). Örvarrót blandast ekki sérlega vel við mjólkurafurðir eins og jógúrt eða mjólk og er því betra að nota kartöflumjöl eða maísmjöl ef þið eruð að nota mjólkurvörur í t.d. súpur eða ís. Athugið að sumir framleiðendur blanda saman örvarrót og hveiti til að drýgja það og gera ódýrari í framleiðslu. Gætið þess að kaupa hreina örvarrót (100%). Notið 1 kúfulla matskeið af örvarrót á móti einni sléttfullri matskeið af maísmjöli. Örvarrót fæst í flestum heilsubúðum.
Carob
Carob (enska: Carob/Carob Powder) Carob er ekki mjög þekkt afurð, sérstaklega ekki í norður Evrópu en hefur þó verið notað í þúsundir ára og var þekkt í Grikklandi allt frá árinu 4 fyrir Krist. Carob var notað í ýmsum tilgangi m.a. til að líma saman efnið sem múmíur voru vafðar í, sem fóður fyrir kýr og Rómverjar átu baunirnar sem sælgæti.
Carob er stundum notað í staðinn fyrir kakó og súkkulaði, sérstaklega ef fólk er viðkvæmt fyrir örvandi efnum kakósins (koffein og theobromine). Þessi efni geta gert súkkulaði ávanabindandi og er vegna örvandi áhrifanna ekki alltaf hentugt fyrir þá sem eru viðkvæmir (aldraðir, hjartveikir, konur með börn á brjósti, ung börn). Þeir sem þjást af mígreni taka carob oft fram yfir kakó og súkkulaði þar sem örvandi efnin eru talin geta kallað fram mígrenikast. Carob er einnig fituminna en kakó og ein matskeið af carobdufti inniheldur 25 hitaeiningar en enga fitu, enga mettaða fitu, ekkert kólesteról og aðeins 6 grömm af kolvetnum. Það er því oft notað af þeim sem vilja gera vel við sig en eru að hugsa um línurnar. Carob má líka gefa hundum og þess vegna má oft sjá carob í hundasælgæti. Theobromine sem finnst í súkkulaði (en ekki í carob) er nefnilega hættulegt hundum. Carob inniheldur A, B, B2, B3 og D vítamín, er nokkuð próteinríkt (8%) og inniheldur fjölda steinefna potassium (kalíum), magnesium, járn, manganese, kopar, nikkel o.fl. Carob inniheldur einnig þrefalt meira kalk en kakó.  Carob (duftið) er yfirleitt selt hrátt þ.e. ekki hitað yfir 47°C/118°F og er því kjörið fyrir þá sem eru í hráfæðispælingum.
Það er nokkuð erfitt að lýsa bragðinu af carob. Það er aðeins sætara en kakó en hefur örlítinn karmellutón sem og jarðartón. Þeir sem eru hrifnir af kakói og súkkulaði eru ekki vísir með að vilja carob svona í fyrsta kasti en ef maður byrjar að nota það að staðaldri líkar manni æ betur við það (það er a.m.k. mín reynsla). Gerið bara ekki þau mistök að bjóða súkkulaðiunnendum upp á carobköku og vonast til að þeim líki hún í fyrsta kasti. Það er mjög ólíklegt að svo verði.
Hægt er að kaupa carob stykki (eins og súkkulaðistykki) og má finna bæði carob stykki án mjólkur og með mjólk.
Notkun: Nota má carob (malað) í staðinn fyrir kakó (sama magn) og carob stykki í staðinn fyrir súkkulaði (sama magn). Gætið þess að ofhita ekki carob stykki yfir vatnsbaði, það er aðeins viðkvæmara en súkkulaði að því leyti. Gera má alla eftirrétti sem krefjast kakós eða súkkulaðis með carob. Carob fæst í flestum heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana.
Gerlausir grænmetisteningar
Gerlausir grænmetisteningar (enska: Yeast Free Vegetable Stock Cubes) eru eins og nafnið gefur til kynna án viðbætts gers. Ger er auðvitað ekkert hættulegt, mér finnst það bara vont á bragðið (sérstaklega í brauði) og því sneiði ég hjá því. Þeir sem hafa Candida sveppasýkingu, eða hafa ofnæmi fyrir geri ættu að nota gerlausa grænmetisteninga. Hafið í huga að allur grænmetiskraftur/súpukraftur inniheldur ger nema annað sé tekið fram. Ég er hrifnust af Kallo (Low Salt) grænmetisteningum en til eru fleiri tegundir sem eru fínar. Ef þið hafið ekki óþol eða ofnæmi fyrir geri og ef ykkur er sama um bragðið, getið þið notað hefðbundna, lífrænt framleidda grænmetisteninga/grænmetiskraft.
Notkun: Notið eins og venjulega grænmetisteninga. Yfirleitt er 1 teningur leystur upp í 250-500 ml af vatni (fer eftir því hvað súpan á að vera bragðmikil). Gerlausir grænmetisteningar fást í flestum heilsubúðum en einnig má finna grænmetiskraft í heilsuhillum stærri matvöruverslana.
Goji ber
Goji ber (enska: Goji Berries, Wolfberries) vaxa í Kína, Mongólíu og í Himalaya fjöllunum. Þau líta út eins og rauðar, mjóar rúsínur (þurrar og krumpaðar). Berin hafa verið notuð í yfir 6000 ár í alls kyns tilgangi, m.a. eiga þau að hjálpa til við að vernda lifrina, sjónina, eiga að gera ónæmiskerfið betra, auka blóðflæði o.fl. Goji berin eru afar rík af andoxunarefnum (sérstaklega beta-carotene sem er mikilvægt efni fyrir augun). Goji ber eru talin geta hindrað vöxt krabbameinsfruma og eiga einnig að geta lækkað kólesteról í blóðinu. Goji berin bragðast ekki ósvipað þurrkuðum kirsuberjum en eru súrari.
Notkun: Ég nota goji ber í muffins, smákökur, biscotti (eins og ég myndi nota þurrkuð kirsuber) en ég geri líka goji drykki og fleira. Finna má goji ber í öllum heilsubúðum sem og í stærri matvöruverslunum. Gætið þess að þau séu hrein og án viðbættra efna og sykurs.
Himalaya salt
Himalaya salt (enska: Himalayan Salt) er sagt innihalda 80 mismunandi steinefni sem og járn og á því að vera töluvert hollara í neyslu heldur en hefðbundið borðsalt sem oft hefur viðbætt efni og joð og er að megninu til salt (enska: sodium chloride). Hefðbundið salt er einnig þurrkað við afar háan hita sem breytir náttúrulegri samsetningu efna í salti. Himalaya salt (sem er afar fallegt á litinn, allt frá ljósbleikum yfir í dökk fjólubláan) er sagt finnast djúpt í Himalaya fjöllunum. Í raun má finna Himalaya salt víða, t.d. í klettafjöllum Pakistan en það skiptir svo sem engu hvaðan gott kemur. Himalaya salt er uppáhalds saltið mitt óháð því hvort það sé hollara en annað salt eða hvar það finnst, mér finnst það einfaldlega bragðbetra en annað salt. Einnig er ég hrifin af sjávarsalti (og Maldon salti).
Notkun: Eins og hefðbundið borðsalt. Himalaya salt finnst í öllum heilsubúðum sem og í stærri matvöruverslunum og sælkeraverslunum.
Hrísgrjónasíróp
Hrísgrjónasíróp (enska: Brown Rice Syrup) hefur notið vinsælda á síðustu árum sem náttúrulegt sætuefni. Hann inniheldur nánast hreinan glúkósa (maltósa í ýmsu formi). Hrísgrjónasíróp hefur mjög þétt og svolítið afgerandi bragð og það hefur örlítinn maltkeim. Það minnir á hunang að áferð og er álíka þykkt (eða þykkara).
Notkun: Stundum er hrísgrjónasírópi blandað saman við byggmaltsíróp svo athugið það vel ef þið eruð með glúteinóþol. Ég nota hrísgrjónasíróp í uppskriftir sem mega gjarnan vera svolítið þéttar og jafnvel klístraðar og er það gott bindiefni fyrir t.d. orkustangir. Einnig má nota hrísgrjónasíróp í te (og almennt til að sæta drykki), í sósur, á kökur og það passar (eins og hlynsíróp) sérlega vel með pecan hnetum. Hrísgrjónasíróp fæst í flestum heilsubúðum og stundum í heilsudeildum stærri matvöruverslana.
Kókosmjólk
Kókosmjólk (enska: Coconut Milk) ætti maður ekki að rugla saman við kókosvatn (enska: coconut water) sem er tær vökvi óþroskaðrar kókoshnetu. Kókosmjólk er sæt og þykk, hvít að lit og hefur 15-17% fituhlutfall. Þó að kókosmjólkin innihaldi nokkuð hátt hlutfall mettaðrar fitu er fitan hollari en t.d. smjör þar sem hún er nýtt vel af líkamanum. Kókosmjólk inniheldur lárinsýru (enska: lauric acid) sem einnig má finna í brjóstamjólk en sýran er talin sýklahemjandi.
Notkun: Notið kókosmjólk í staðinn fyrir rjóma eða mjólk í súpur, sósur, grauta, bakstur, ís, drykki o.fl. Frysta má afgangs kókosmjólk og nota síðar og er þægilegast að frysta hana í ísmolabox. Þannig getur maður notað mola og mola t.d. í súpur eða drykki. Útbúa má sína eigin kókosmjólk með því að setja kókosmjöl í matvinnsluvél og blanda með heitu vatn eða mjólk. Kókosmjólk er yfirleitt seld í dósum og er mjólkin mun þykkari að ofan en að neðan og því mikilvægt að hrista fyrir notkun. Ef ekki á að nota alla kókosmjólkina samdægurs er best að geyma hana í góðu íláti í ísskápnum (geymist í nokkra daga) eða frysta. Kókosmjólk fæst í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Kaupið lífrænt framleidda kókosmjólk en algengt er að framleiðendur stærri, ódýrari vörumerkja bæti alls kyns aukaefnum út í kókosmjólkina til að drýgja hana sem og til að lengja líftíma hennar.
Kókosolía
Kókosolía (enska: Coconut Oil) hefur verið notuð í margar aldir og er talin allra meina bót. Á ferðum mínum um Austur Afríku hef ég oft rekist á að konur nota kókosolíu á húðina og í hárið. Sama má segja um kakósmjör (enska: cocoa butter). Það er magnað að geta notað afurð bæði útvortis og innvortis og þegar haft er í huga að húðin er stærsta líffæri líkamans skiptir máli hvað maður notar.
Kókosolía hefur af sumum hlotið slæma umfjöllun í gegnum tíðina því hún inniheldur nokkuð hátt hlutfall mettaðrar fitu (mettaða fitu má m.a. finna í rauðu kjöti, mjólkurvörum o.fl.). Við höfum í gegnum tíðina fengið að heyra að mettuð fita sé slæm fyrir hjartað (sem hún er) en nú er að koma betur og betur í ljós að ekki er öll mettuð fita eins og að kókosolía er að grunninum til ólík annari fitu hvað samsetninguna varðar. Kókosolían inniheldur meðallangar (og stuttar) fitukeðjur og helmingur þeirra samanstendur af lárinsýru (enska: lauric acid) sem er mikilvægasta fitusýran fyrir ónæmiskerfi líkamans. Það er einnig auðveldara fyrir líkamann að melta fitusýrurnar en fitu úr annari olíu því þær fara beint í lifrina þar sem þær eru nýttar strax til orkunotkunar. Það þýðir að minni áreynsla er á lifrina, skjaldkirtilinn og meltingarfærin en ella. Lárinsýru af þessum styrkleika er ekki að finna víða í náttúrunni en má meðal annars finna í brjóstamjólk! Það er afar mikilvægt að nota ekki hydrogenated kókosolíu (sem er hlaðin transfitusýrum) og að nota aðeins kaldpressaða kókosolíu. Best er að kaupa kaldpressaða kókosolíu (enska: coldpressed coconut oil, raw). Athugið að það er enginn staðall til fyrir „extra virgin kókosolíu” (enska: extra virgin coconut oil) eins og sumir framleiðendur telja neytendum trú um (hljómar svo vel!) svo þið getið sleppt því að elta slíka olíu uppi.
Notkun: Ég nota kókosolíu í stað smjörs í allar mínar uppskriftir, sérstaklega þær sem þarf að hita eða baka því kókosolían þolir hita vel. Ef kókosolían er geymd í ísskáp (hún verður þá grjóthörð) er best að geyma hana í krukku og setja krukkuna ofan í skál með heitu vatni. Við það mýkist kókosolían og verður fljótandi. Það má einnig geyma hana við stofuhita á eldhúsborðinu en þá verður hún mjúk eins og smjör). Kókosolía fæst í öllum heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana.