Banana- og engiferbrauð
5. mars, 2003
Bananar og engifer í sömu sæng hljómar kannski svolítið skringilega en útkoman er frábær!!!! Þetta er alveg ekta brauð til að búa til á sunnudagsmorgni því lyktin verður svo góð í húsinu og maður er allan daginn í banana-og engiferskýi :)
Ef ykkur finnst rúsínur ekki góðar má nota döðlur eða aprikósur í staðinn.
Athugið að þið þurfið brauðform sem tekur um 1 kg.
Ljúflega kryddað kökubrauð, fullkomið með tebollanum
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án hneta
Banana- og engiferbrauð
Gerir 1 brauð
Innihald
- 275 g spelti
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 msk ferskt engifer, saxað smátt
- 3 tsk engifer (malað)
- 1 tsk kanill
- 0,5 tsk múskat (enska: nutmeg)
- 0,25 tsk negull (enska: clove)
- 80 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 2 egg
- 4 mjög vel þroskaðir bananar
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 1 msk kókosolía
- 115 g rúsínur (eða döðlur/aprikósur)
Aðferð
- Sigtið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftiduft, engifer (malað), kanil, negul og múskat. Hrærið mjög vel.
- Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt. Þið þurfið eina matskeið af engiferi. Setjið út í stóru skálina og hrærið vel.
- Afhýðið bananana og stappið vel. Setjið í aðra skál ásamt vanilludropum, hrásykri, kókosolíu og eggjum. Hrærið mjög vel.
- Hellið bananablöndunni út í stóru skálina og veltið deiginu aðeins til. Ekki hræra mikið (8-10 hreyfingar ættu að duga).
- Bætið rúsínunum út í deigið og veltið deiginu varlega.
- Deigið á að vera frekar blautt (á að leka af sleif í stórum klessum) og ef það er of þurrt, bætið þá svolitlu vatni, mjólk eða appelsínusafa út í.
- Klæðið brauðformið með bökunarpappír og hellið deiginu út í. Gætið þess að það fari vel í hornin.
- Bakið við 180°C í 45-50 mínútur.
- Kælið brauðið aðeins og skerið svo í sneiðar.
Gott að hafa í huga
- Það er mjög gott að gera muffinsa úr þessu deigi og þarf þá að baka þá skemur eða í um 20 mínútur.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Ef þið eigið ekki þroskaða banana má nota sykurlausan og lífrænt framleiddan barnamat (bananamauk) í staðinn.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
26. feb. 2011
þetta brauð er bara dásamlegt :))
26. feb. 2011
Frábært að heyra Edda :)
09. ágú. 2011
Þetta er besta brauð í heimi, prufaði það með döðlum, svaka gott!
08. okt. 2011
Þetta er algert uppáhalds!
08. okt. 2011
Vííííí gaman að heyra :)
05. feb. 2012
Þetta brauð er algjör dásemd og gerir stormandi lukku. Takk fyrir þessa góðu síðu :)
05. feb. 2012
Dásamlegt að heyra :) Ég bakaði það einmitt sjálf í fyrradag :)
08. mar. 2012
Þetta er alveg snilld! Gerði reyndar muffins með döðlum og þær voru nú ekki lengi að renna niður :)
09. mar. 2012
Ha ha, bara gott að þeir voru góðir  :)
23. sep. 2013
Þetta brauð er dásamlegt... sló í gegn heima hjá mér um helgina!!