Gulrótar- og bananabrauð

Þetta er svona kökubrauð (þrátt fyrir að vera í laginu eins og kaka) og er fínt með t.d. tei eða kaffi. Í upprunalegu uppskriftinni (úr einhverjum lummulegum bæklingi sem ég man ekki hvaðan kom) voru 250 ml af olíu. Ég notaði 4 msk af kókosolíu og kakan er . Þessi kaka er full af vítamínum, hollri fitu, trefjum og flóknum kolvetnum því í henni eru jú bananar, gulrætur og pecanhnetur.

Kakan er frekar krydduð og ef þið vijlið minna kryddbragð getið þið sleppt negul og múskati.

Athugið að þið þurfið 24 sm smelluform fyrir þessa uppskrift. Athugið einnig að þyngd hráefnis er miðuð við það þegar búið er að verka það þ.e. skræla gulrætur og banana og rífa/stappa.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Gulrótar- og bananabrauð

Gerir eina köku

Innihald

  • 350 g gulrætur, rifnar fínt
  • 3-4 (500 gr) vel þroskaðir bananar, stappaðir
  • 260 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk negull (enska: clove)
  • 0,25 tsk múskat (enska: nutmeg)
  • 0,5 tsk engifer
  • 1 tsk kanill
  • 150 g Rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 2,5 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
  • 90 g pecanhnetur, saxaðar
  • 2 egg, hrærð lauslega
  • 2 eggjahvítur, hrærðar lauslega
  • 4 msk kókosolía
  • 4-5 msk hreinn appelsínu- eða eplasafi

Aðferð

  1. Skrælið gulræturnar og rífið fínt á rifjárni.
  2. Afhýðið bananana og stappið.
  3. Saxið pecanhneturnar.
  4. Sigtið saman í stóra skál, spelti, lyftidufti, kanil, negul, múskat og engifer. Hrærið aðeins. Bætið gulrótum og pecanhnetum út í og hrærið mjög vel.
  5. Í annari skál skuluð þið blanda saman eggjum, hlynsírópi, Rapadura hrásykri, kókosolíu og bönunum. Hrærið vel og hellið varlega út í stóru skálina. Veltið deiginu til en hrærið ekki mikið. Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  6. Setjið bökunarpappír í 24 sm smelluform. Hellið deiginu út í formið.
  7. Bakið við 150°C í um 50 mínútur eða þangað til kakan hefur lyft sér vel og er orðin gullin. 
  8. Um leið og kakan kemur út, stingið hana þá alla með prjóni. Hellið appelsínusafanum yfir kökuna.

Gott að hafa í huga

  • Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Í staðinn fyrir banana má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af eplamaukinu má frysta það í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Gott er að saxa döðlur í deigið eða nota svolítið af rúsínum og má þá minnka hrásykursmagnið aðeins.

Ummæli um uppskriftina

Kristín B. Gunnarsdóttir
03. jún. 2012

Þessi kom akkúrat á rétta augnablikinu. Teygaði gulrótarsafa þegar þessi færsla birtist og var að spá hvað ég ætti að gera við hratið. Voila! Ég hafði líka notað engifer í safann svo bragðið kemur skemmtilega í gegn. Notaði líka döðlur og minni sykur. Nammi namm! Takk fyrir mig.

sigrun
03. jún. 2012

Gaman að heyra Kristín :) Líst einstaklega vel á að nota hratið á þennan hátt og aðrar breytingar hljóma vel líka :)

Þorgerður Elín
26. jún. 2012

Sæl Sigrún
Svakalega er þetta flott síða hjá þér. Hef skoðað hana áður en aldrei nýtt hana. Vantaði að nýta banana sem voru að skemmast og fann þessa uppskrift. Þetta er svakalega góð kaka/brauð. Eeen á hún að vera blaut, þ.e.a.s. ekki þurr eins og skúffukaka?

sigrun
26. jún. 2012

Sæl Þorgerður Elín

Kakan á að vera svolítið 'klesst' þ.e. ekki eins og skúffukaka. Ef hún er of þurr eftir bakstur hefur ofninn líklega verið of heitur eða þá að bananarnir hafa verið aðeins of litlir?

Kv.

Sigrún

Þorgerður Elín
26. jún. 2012

Takk fyrir þetta, þá held ég að hún sé bara alveg eins og hún á að vera ;) Mjög góð!

sigrun
26. jún. 2012

&;Jæja gott að heyra og njóttu vel :)