Ananas- og rauðrófusalat frá Naivasha

Þetta salat fékk ég fyrst í Naivasha sem er í Kenya, fyrir norðan Nairobi. Rauðrófur (rauðbeður) eru frekar mikið notaðar í Kenya og ananas er notaður í allt enda vex þessi frábæri ávöxtur víða í Kenya. Þegar ég sá þetta salat fyrst þá horfði ég á það og velti vöngum yfir því hvort ég ætti að prófa eða ekki. Ákvað svo að salat sem væri svona fallegt á litinn ætti skilið að vera smakkað. Ég sá ekki eftir því, salatið var afar bragðgott og skemmtilegt ekki síst af því áferðin á rauðrófum og ananas er svo ólík. Salatið er sérlega hollt og gott, vítamínríkt, járnríkt og gott fyrir meltinguna. Salatið má borða sem meðlæti eða í nesti eitt og sér. Manni þarf að þykja rauðrófur góðar til að geta borðað salatið en ég er heppin því ég elska rauðrófur!

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Ananas- og rauðrófusalat frá Naivasha

Fyrir 4 sem meðlæti

Innihald

  • 2 litlar rauðrófur
  • Fjórðungur af ananas
  • 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Sjóðið rauðrófurnar með salti í um 20-25 mínútur eða þangað til þær eru orðnar nokkuð mjúkar.
  2. Kælið rófurnar, afhýðið og skerið í litla bita (gott er að nota hanska því liturinn er ansi sterkur og erfitt að ná honum af höndum). Gott er að miða við stóra sykurmola í stærð. Gott er að nota disk til að skera rófurnar á (frekar en plast- eða trébretti).
  3. Afhýðið ananasinn, skerið miðjuna úr honum og saxið í bita jafnstóra rauðrófubitunum.
  4. Best er að setja lúku af ananas í skál, setja svo lúku af rauðrófum, lúku af ananas og koll af kolli svo ananasinn verði ekki fjólublár þegar salatið er borið fram. Ekki hræra í salatinu.

Gott að hafa í huga

  • Salatið má gera með a.m.k. dags fyrirvara en þá er best að blanda ekki hráefnunum tveimur saman fyrr en rétt áður en maður ber salatið fram.

Ummæli um uppskriftina

gestur
19. nóv. 2012

Þessi uppskrift er himnesk. Ég er í Portugal og fékk lífrænt ræktaðar rauðrófur hjá vini mínum. Ég hef ekki prófað að nota þær með ananas fyrr. Hins vegar er frábært fyrir þá sem ekki vilja finna moldarbragðið af rófunum að blanda þær með sætum kartöflum. Ég elska rauðrófur og sætar kartöflur og þessar tvær bæta hvor aðra upp og eru stútfullar af góðum efnum.

sigrun
19. nóv. 2012

Gaman að heyra :) Hér er einmitt ein uppskrift sem blandar saman sætum kartöflum og rauðrófum og ég er alveg sammála...passar vel saman: http://www.cafesigrun.com/saetar-kartoflur-i-hnetu-og-engifersosu

gestur
23. feb. 2014

Ekki fyrir minn smekk. Þó held ég ef ég hefði skorið smærra þá þætti mér það betra.

sigrun
23. feb. 2014

:) Þetta salat er alls ekki allra :) Sumum finnst líka gott að nota balsamikedik með því (sérstaklega þeim sem eru ekki brjálæðislega hrifnir af rauðrófum).