Um ungbarnamat

Ég tók hér saman alls kyns fróðleik sem ætti að hjálpa til varðandi aldur, fæðusamsetningar, fæðuofnæmi og fleira þegar verið er að byrja að gefa ungbörnum fyrsta matinn. Það er sniðugt að kaupa góða bók með uppskriftum og nokkrar sem ég get bent á frá Annabel Karmel sem er eins konar gúrú í þessum málum sem og Sara Lewis (flettið þeim upp á Amazon). Uppskriftirnar eru héðan og þaðan (m.a. frá Annabel) og mæðrum barna í kringum mig (eins og t.d. Elvu Brá vinkonu minni). Svo er hellingur frá mér sem ég hef prófað á mínum börnum. Margir foreldrar halda að það sé svo tímafrekt að búa til mat á hverjum degi og það er alveg víst að nú til dags hafa foreldrar lítinn tíma til að standa yfir pottunum og hræra í þeim. Þess vegna er gott að búa til mikið magn í einu og frysta, taka einn dag í mánuði í það að mauka helling, frysta í ísmolabox og pakka svo inn í góða frystipoka. Þannig er hægt að senda krílin með hollan mat til dagmömmu eða fyrir upptekna foreldrið sem er heima við er kjörið að geta hitað upp mola og mola. Gott er einnig að gera grunnmauk eins og sætar kartöflur, blandað grænmeti o.fl. til að eiga þegar börnin fara að fá kjöt- eða fiskbita út í matinn. Matvinnsluvél eða töfrasproti, (frystir), ísmolabox, lítil plastbox og frystipokar er góður grunnur til að byrja með.

Gott er að hafa í huga að siðir og venjur á hverju heimili eru ólík og það sem hentar einu barni og einni fjölskyldu hentar ekki endilega öllum. Þessar upplýsingar ætti þess vegna að nota sem viðmið og svo prófið þið ykkur bara áfram, spyrjið foreldra sem þið þekkið um uppskriftir, ráð o.s.frv.

Elvu og Ölmu Maríu hjúkrunarfræðingi þakka ég fyrir kærlega fyrir yfirlestur og góðar ábendingar. Heimild: Næring ungbarna á vef Landlæknis en einnig má finna þar frábærar ráðleggingar um næringu ungra barna.

Almennt um mat fyrir börn:

Meltingarkerfi og ónæmiskerfi ungra barna þroskast ekki fyrr en um 6 mánaða aldurinn og er ekki fullþroskað fyrr en við eins árs aldurinn. Það besta fyrir barnið er móðurmjólkin enda fær barnið mótefni frá móðurinni sem ver það gegn sýkingum. Móðurmjólkin er alltaf stútfull af mótefnum og þau hverfa ekki úr mjólkinni þó barnið verði eldra. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í sambandi við fæðuofnæmi og bakteríur og er ástæðan fyrir því að mikilvægt er að dauðhreinsa snuð, túttur, skeiðar o.fl sem börn setja upp í sig þegar þau eru þetta ung. Ónæmiskerfi ungra barna ræður t.d. illa við matareitrun.

Mikilvægt er að börn snemma venjist á fjölbreytt bragð og ekki síst eftir 6 mánaða aldurinn. Upplagt er til dæmis að gufusjóða og mauka kryddjurtir eins og basil eða kóriender með öðrum mat. Í raun má segja að því fjölbreyttara sem úrvalið af hollum mat, því betra. Ekki er lengur talin þörf á því að börn sem eru í áhættuhópi fyrir ofnæmi (t.d. ef foreldrar eða systkini hafa ofnæmi) eða þau sem eru með exem, þurfi að sneiða hjá ofnæmisvöldum. Þó er sjálfsagt að gefa börnunum góðar gætur fyrstu dagana þegar bragðað er á nýrri matartegund og góð regla er að gefa þeim frekar að morgni heldur en að kvöldi fyrir háttinn. Hunang ætti ekki að gefa börnum fyrir eins árs aldurinn þar sem það getur innihaldið eitur sem getur valdið mjög alvarlegum sýkingum í maga og þörmum og skemmir auðvitað tennurnar.

Börn ættu ekki að fá mat með viðbættu salti. Þau gætu vanist því og endað með of háan blóðþrýsting og önnur heilsufarsvandamál seinna meir. Mataræði er eins og allir vita, mikið til vani. Gætið þess að lesa utan á pakkningar á tilbúnum mat því oft er mikið salt í pakkamat (t.d. bollasúpum, kexum og brauðum). Sama á við um sykur, forðist að gefa börnum hreinan sykur. Ég fæ alls ekki skilið hvernig foreldrum dettur í hug að gefa börnum sínum við eins árs aldur köku á kaffihúsi þegar barnið getur ekki einu sinni sagt orðið „kaka” og hefur ekki hugmynd um hvað kaka er…nema sætt, sætt, sætt, gott, gott, gott. Ekki gefa þeim sætindi og sykur ef þau vita ekki einu sinni hvað það er. Hægt er að vera með epli, döðlur, mandarínur, vínber, rúsínur o.fl. góðgæti skorið í heppilegar stærðir fyrir börnin ef þau vilja eitthvað á kaffihúsinu. Það er upplagt fyrir foreldrana að borða slíkt með barninu svo þau læri það sem fyrir þeim er haft.

Börn ættu ekki að borða of mikið af trefjum þar sem þau verða of södd of fljótt án þess að fá í raun nóg að borða og næringarefni nýtast ekki eins vel ef þau „skolast út”. Einnig ætti alls ekki að gefa börnum fitusnauðan mat eins og léttar mjólkurvörur (t.d. smjör, ost, jógúrt o.þ.h.) þar sem þau þurfa fituna nauðsynlega til að vaxa, sérstaklega upp að tveggja ára aldrinum.

Best er auðvitað að kaupa lífrænt framleiddar vörur (eins og mauk, grauta o.fl.) ef þarf að kaupa matinn á annað borð sem og lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti, sérstaklega þegar um er að ræða rótarávexti en þeir draga í sig mikið af nitur úr jörðinni. Best er að skræla alla ávexti og afhýða grænmeti.

0-6 mánaða:

Fyrstu sex mánuðina er móðurmjólkin besti kosturinn en sá næst besti er þurrmjólkin sem ætluð er ungbörnum. Hægt er að fá lífrænt framleidda þurrmjólk (t.d. Babynat og Holle) í heilsubúðum og apótekum. Eftir að barnið er orðið 1-2ja vikna gamalt er mælt með D dropum. Ráðleggingar um skammtastærðir af D dropum má finna á vef Landlæknis. Best er að bíða með lýsið þangað til barnið fer að borða fasta fæðu og er þá gefin ein matskeið (5 ml) af Krakkalýsi. Ef barnið þarf ábót fyrstu 4 mánuðina þá er ungbarnaþurrmjólkin besti kosturinn, grautur eða önnur föst fæða hentar ekki börnum fyrstu 4 mánuðina. Sum börn sem taka vel við mat og hafa góða lyst þola að fá hrísmjöls- eða maísgrauta eða milda, stappaða fæðu eins og avocado, eftir 4 mánuða aldurinn.

0-6 mánaða börn ættu aðeins að fá móðurmjólk (eða þurrmjólk) nema aðstæður kalli á annað (og þá í samráði við lækni, næringarfræðing eða hjúkrunarfræðing í ungbarnavernd). Eftir 6 mánaða ætti barnið að fá stoðmjólk ef það þarf viðbót við móðurmjólk eða þurrmjólk. 

Skoða uppskriftir að fyrstu grautunum

6-9 mánaða:

Börn mega fá maukaðan mat ásamt mjólkinni sem þau eru vön að drekka þ.e. móðurmjólk eða þurrmjólk. Járnforði ungbarna er uppurinn upp úr 6 mánaða og því þurfa þau að fá járnríka fæðu og C vítamín til að aðstoða við upptöku járnsins. Börn ættu að hámarki að drekka um 500 ml á sólarhring af þurrmjólk eða móðurmjólk þegar barnið er farið að borða úr öllum fæðuflokkum. Börn mega á þessu stigi t.d. fá flestan mat, maukaðan og gufusoðinn. Engir bitar mega vera í fæðunni fyrst um sinn. Einnig má barnið t.d. fá stappaðan banana, papaya og avocado. Hrísmjöl og maísmjöl hentar vel sem viðbót við ávextina og grænmetið. Gott er að taka frá matinn sem eldaður er fyrir heimilisfólkið áður en hann er kryddaður og/eða saltaður og þynna með vatninu sem notað var til að gufusjóða

Þegar barnið þokast nær 9 mánaða aldrinum mega vera mjög litlir bitar í matnum (t.d. kjúklingabaun í nokkrum bitum) og þá má stappa matinn frekar en að mauka hann. Upp úr 7 mánaða fara tennurnar að láta á sér kræla og þá er mikilvægt að barnið noti tennurnar og hreyfi kjálkana því það æfir vöðvana fyrir tal síðar meir. Ef börnum er gefin maukuð fæða of lengi, vilja þau oft ekki minna maukaðan mat síðar meir (enda óþarfa vesen að þurfa að tyggja!). 

Það sem ætti að varast í mataræði 6-9 mánaða barna:

 • Almennt ekkert nema barn hafi ofnæmi fyrir einhverjum fæðutegundum
 • Salt (í mesta lagi 1 gramm á dag)
 • Sykur
 • Ávaxtasafa (í mesta lagi nokkrar teskeiðar á dag til að auka upptöku járns)
 • Fituskerta fæðu

Skoða uppskriftir fyrir 6-9 mánaða

9-12 mánaða:

Barnið má fara að fá „grófari mat” þ.e. með pínulitlum grænmetis- bauna-, eða kjötbitum. Að auki skulu þau fá um 500 ml á dag af þurrmjólk eða móðurmjólk til viðbótar við matinn. Gott er að miða við að um 12 mánaða geti barnið borðað bita eins og t.d. frosnar, brænar baunir (e: peas) eða kjúklingabaunir að stærð. Fylgist þó ávallt vel með því þegar barnið er að kyngja bitum ef þeir skyldu standa í hálsi þess. Mjög gott er að gufusjóða mjóa strimla úr gulrótum

Ég er mikið spurð um skvísur þ.e. maukaðan mat sem börn geta sprautað upp í sig. Ég kalla svona mat yfirleitt ungbarnaskyndibita þ.e. allt í lagi spari en ætti ekki að neyta á hverjum degi. Kosturinn er auðvitað að maukið er fljótlegt og gott að geta gripið til ef maður er á hraðferð, en bragðið er ekki heimatilbúið og börnin venjast því ekki á heimilisbragðið. Auk þess eru maukið án bita og kekkja og því ekki hentugt til lengri tíma litið. 

Það sem ætti að varast í mataræði 9-12 mánaða barna:

Að öðru leyti svipað og fyrir 6-9 mánaða nema:

 • Börn hafa ekki gott af of miklum ávaxtasafa eins og appelsínu- eða eplasafa (eiga ekki fá neinn safa fyrir 9 mánaða) og ef þau fá safa ætti hann að vera hreinn og útþynntur með vatni (10 ml safi á móti 100 ml vatni) því hann getur annars skemmt þær tennur sem eru komnar upp. Bjóðið þeim frekar vatn eða mjólk með matnum og milli mála. Appelsínusafinn er þó hentugur að því leytinu að hann hjálpar til við upptöku járns og er ágætt að blanda nokkrum teskeiðum út í t.d. mat sem inniheldur spergilkál.
 • Óþarfi er að mauka matinn og má skera hann í litla bita þegar nær dregur 12 mánaða aldrinum.
 • Börnum finnst gott að fá sósu með matnum en gætið þess að hún sé ekki of sölt.

Eftir 12 mánaða aldurinn:

 • Börn mega borða nánast allan mat sem heimilisfólkið borðar svo lengi sem það er ekki skyndibitamatur, of saltur matur, of kryddaður eða sykraður.
 • Skyr ætti helst ekki að gefa börnum fyrir 2ja ára aldurinn þar sem það er fitusnautt og inniheldur hlutfallslega mikið af próteinum fyrir litla kroppa. Gott er að bæta svolitlum rjóma út í skyrið til að bæta við fituna.
 • Haldið sykri eins mikið frá barninu og þið getið. Gefið því frekar þurrkaða ávexti, skrælda ávexti, gulrótarstrimla o.fl. til að naga og japla á.

Skoða uppskriftir fyrir 9-12 mánaða

Nokkur ráð um matmálstíma:

 • Ekki gefa pakksöddu barni mat til að smakka í fyrsta skipti. Betra er að það sé rétt aðeins svangt (en ekki hungrað) til að það taki betur á móti nýjungum. Þetta á einnig við ef verið er að kynna nýja fæðutegund fyrir barni.
 • Gætið þess að barnið sé ekki þreytt í fyrstu skiptin (og helst aldrei þegar það borðar) því það að borða mat af skeið krefst einbeitingar og svo til allra vöðva líkamans og þetta er allt nýtt og oft erfitt fyrir barninu.
 • Það er ekki víst að maturinn fari ofan í maga í fyrsta skipti því það eru allt aðrir vöðvar sem stjórna munnsogi eða því að kyngja mat svo þau þurfa að venjast því. Það tók um það bil viku með mín tvö en gæti tekið 2 daga, 2 vikur o.s.frv. hjá öðrum börnum.
 • Um leið og börnin eru farin að sitja sjálf, hafið þau við matarborðið svo þau venjist því að borða með fjölskyldunni ef hægt er.
 • Hafið matinn nógu fjölbreyttan svo þau kynnist eins fjölbreyttri fæðu og mögulegt er. Ef þau smakka allan mat eftir 6 mánaða án vandamála (t.d. spergilkál, rófur, kryddjurtir o.fl.) eru minni líkur á matvendni síðar meir. Gætið þess þó að gefa barni ekki of sterkan mat né unninn mat.
 • Notið mjúkar skeiðar, harðar gætu meitt góminn og börn gætu orðið fælin við skeiðina seinna meir.
 • Reynið að gufusjóða allt grænmeti, vítamínin tapast mun síður við að gufusjóða en að sjóða.
 • Prófið mat sem börnin vilja ekki í fyrsta skipti, aftur síðar. Ef þau vilja ekki spergilkál eða avocado getur verið gott að prófa t.d. mauk úr spergilkáli með gulrótarmauki eða avocado með sætri kartöflu. Þegar barnið er farið að borða þetta, má minnka hlutfallið af sæta grænmetinu.
 • Hafa skal í huga að börn fæðast með mun fleiri bragðlauka en við (sem eyðast svo með aldrinum) og það getur meira en verið að þeim finnist t.d. blómkál virkilega vont og séu ekki að þykjast. Prófið að mauka grænmeti sem börnum þykir síðra með t.d. perum, banana eða epli. Sæt kartafla er líka mildari á bragðið en venjuleg kartafla.
 • Prófið grænmetið áður en ávextir eru teknir inn. Ávextir eru svo sætir að oft þegar börnin hafa smakkað ávaxtamauk fyrst, fúlsa þau við grænmetinu. Ég blandaði yfirleitt alltaf grænmeti og ávexti saman svo börnin borðuðu ekki hreinan ávöxt því þeir eru svo sætir.
 • Það er gott að hafa í huga að það sem okkur finnst skrítin blanda t.d. soðin rófa og avocado stappað saman gæti litlu barni fundist voðalega gott.
 • Ef þið kaupið kjöt skuluð þið frekar kaupa lítið magn en í staðinn bestu bitana (meira járn er t.d. í dökku kjúklingakjöti en ljósu). Reynið að kaupa lífrænt framleitt velferðarkjöt. Kjöt er stundum sprautað með hormónum og fóðrið inniheldur alls kyns efni sem ekki eru góð fyrir neinn. Fyrir utan það að dýr sem fólk borðar á ekki að þurfa að lifa við slæmar aðstæður. 
 • Ef þið gefið börnum krukkumat, lesið vel innihaldslýsinguna. Engin viðbætt efni eins og bragð- eða litarefni, salt, sykur eða önnur efni ættu að vera í innihaldinu. Ég er hrifin af Hipp Organic, Organix, Holle og Babynat vörunum. Eftir fremsta megni skal kaupa lífrænt framleiddan barnamat ef kaupa á barnamat í krukku eða annan tilbúinn mat. Ég kaupi aldrei krukkumat frá Nestlé eða Gerber.
 • Frekar en að kaupa mjólkurvörur með sykri, bragð- eða sætuefnum ætti að kaupa hreinar afurðir og bæta t.d. hreinu ávaxtamauki/sultu án viðbætts sykurs út í AB mjólk eða jógúrt.
 • Kynnið ykkur allar „reglur” varðandi dauðhreinsun á mataráhöldum, snuðum, túttum o.fl.
 • Tileinkið ykkur matargjafir í ró og næði ef hægt er til að streita skemmi ekki fyrir og hafi áhrif á hvernig barnið er að borða. Munið að þolinmæðin þrautir vinnur allar (yfirleitt)!
 • Hafið aldrei kveikt á sjónvarpi nálægt matborðinu. 
 • LEGGIÐ SÍMANN FRÁ YKKUR á meðan þið sitjið með barninu. Þessar stundir koma ekki aftur. Auðvitað er gaman að taka myndir af börnunum en annað á að bíða. Börnin eiga rétt á allri okkar athygli og það truflar einbeitingu þeirra verulega ef eitthvað fyrir framan þau er með hljóðum og mynd. 
 • Aldrei segja við barnið (óháð aldri) að það sé matvant, erfitt að borða eða vilji ekki smakka neitt nýtt. Það er óþarfi að stimpla barnið því þau taka það inn á sig og erfitt er að breyta því.
 • Biðjið barnið ekki um að klára matinn sinn. Ef það fúlsar við meiru eftir ágætan skammt, er það orðið mett. Hættan er á að við yfirskrifum og vanstillum seddustjórnun barnsins ef við látum það klára skammtinn sinn og það er orðið pakksatt. 
 • Hrósið ekki barni fyrir góða matarlyst eða fyrir að borða mikið. Hrósið því frekar fyrir að borða fjölbreyttan mat. 
 • Ekki krefja börnin um að borða grænmeti en haldið því gjarnan að þeim. Skerið niður grænmeti til að hafa með matnum eða til að leyfa börnunum að narta í. Til dæmis má segja ef börnin segjast vera svöng eftir kvöldmatinn, að grænmeti sé alltaf í boði. 
 • Verið góð fyrirmynd og borðið fjölbreyttan og næringarríkan mat.
 • Ekki lofa barni sætu í staðinn fyrir að borða annan mat. T.d. ætti ekki að segja „ef þú borðar blómkálið, máttu fá eftirrétt". Það elur á óheilbrigðu sambandi við mat og eykur virði þess sæta á kostnað þess ósæta. 
 • Klappið ykkur á öxlina fyrir vel unnið verk. Þið eigið það skilið því þetta er stórt og mikilvægt starf sem þið eruð að sinna.