Grænmetissoð

Þetta soð má nota í alls kyns grauta og súpur og sömuleiðis má nota það til að sjóða t.d. kjúkling eða fisk í. Mælt er með því að nota ferskt soð en ekki frosið þegar búa á til mat sem á að frysta síðar. Þetta á þó ekki við um soð sem á að nota t.d. í súpu eða mauk (og á ekki að frysta aftur). Þess vegna er heppilegt að frysta svolítið magn í einu t.d. í ísmolaboxi. Soðið geymist líka í kæli í lokuðu íláti í allt að viku. Uppskriftin kemur frá Annabel Karmel úr bókinni Top 100 Baby Purees. Mikilvægt er að nota ekki tilbúið grænmetissoð (þ.e. teninga eða kraft í dósum) þar sem það inniheldur allt of mikið af salti fyrir ungbörn. Það getur líka innihaldið ger sem getur farið illa í börnin. Soðið hentar 6-7mánaða og eldri eða þegar barnið er búið að fá fasta fæðu í einhvern tíma og ef það er ekki viðkvæmt fyrir lauk). 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Grænmetissoð

Gerir 600 ml

Innihald

 • 1 laukur, afhýddur og saxaður gróft
 • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað gróft
 • 3 gulrætur, skrældar og saxaðar gróft
 • 1 blaðlaukur, þveginn og saxaður gróft
 • 1 sellerístilkur, saxaður gróft
 • 1 tsk kókosolía (eða önnur olía) eða smjör
 • 850 ml kalt vatn
 • 1 knippi ferskt krydd eins og timian, steinselja, oregano
 • 1 lárviðarlauf
 • 4 svört piparkorn (má sleppa)
 • Pínulítil klípa karrí (má sleppa)

Aðferð

 1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið gróft.
 2. Skrælið gulrætur og saxið gróft.
 3. Þvoið og snyrtið blaðlauk og sellerí og saxið gróft.
 4. Saxið ferska kryddið gróft.
 5. Hitið olíuna í stórum potti og látið lárviðarlaufið, laukinn og hvítlaukinn krauma í 2 mínútur.
 6. Hitið afganginn af grænmetinu í olíunni í 5 mínútur.
 7. Hellið vatninu yfir og látið sjóða.
 8. Bætið ferska kryddinu saman við ásamt karríi og piparkornum.
 9. Lækkið hitann og látið soðið malla á vægum hita í um 1 klukkustund.
 10. Látið soðið kólna í um 2 tíma og síið svo í gegnum fíngata sigti.
 11. Kreistið afganginn af grænmetinu (t.d. með kartöflustöppu) ofan í síuna svo að afgangurinn af vökvanum fari allur úr grænmetinu.
 12. Kælið soðið og frystið í ísmolabox.

Gott að hafa í huga

 • Skipta má út ofantöldu grænmeti fyrir annað grænmeti og t.d. má nota sætar kartöflur eða rófur, blómkál, paprikur, steinseljurót o.s.frv.
 • Nota má soðið sem sósu.
 • Gott er að frysta soðið í ísmolabox. Setjið svo molana í góða frystipoka. Merkið pokana með innihaldi og dagsetningu. Í góðum frysti geymist soðið í nokkra mánuði. Ekki ætti að nota soðið í mat sem á að frysta aftur síðar.
 • Soðið hentar einnig fullorðnum og má þá bæta aðeins af salti saman við.