Súkkulaðimyntuís
Ég gerði þennan ís nokkrum sinnum því hann misheppnaðist alltaf. Eða sko...hann misheppnaðist ekki í eiginlegri merkingu heldur varð hann svo ljótur á litinn. Hann varð eiginlega ís í felulitum...svona hermannabrúngrænn....afskaplega óspennandi. Bragðið var ekkert til að kvarta yfir en ég hefði aldrei í lífinu boðið t.d. gestum upp á ísinn. Hann endaði líka alltaf í myntuhristing (bætti svolítið af sojamjólk saman við og út í blandara) og það er líka meiriháttar. Til þess að ísinn verði ekki í felulitum er best að setja hann ekki í ísvél heldur strax í plastbox með loki yfir og inn í frysti. Þannig nær avacadoið ekki að verða brúnt. Ég varð rosalega glöð þegar Jóhannes sagði við mig...mmm namm, ísinn er eins og After Eight á bragðið. Það voru akkúrat viðbrögðin sem ég var að leita eftir. Þó ég hafi ekki borðað After Eight í tvo áratugi þá man ég enn þá bragðið og hef oft fundið lyktina af því. Ég veit að margir hrista hausinn yfir því að það sé avocado í ísnum en hafið engar áhyggjur af avocadoinu, þið munið ekki finna neitt bragð af því.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Súkkulaðimyntuís
Innihald
- 300 ml hrein jógúrt
- 0,5 msk sítrónusafi
- 1,5 tsk piparmyntudropar (úr heilsubúð)
- Hálft avocado, vel þroskað
- 20 g dökkt, piparmyntusúkkulaði með hrásykri (t.d. Green & Black's)
- 75 ml agavesíróp
Aðferð
- Afhýðið avocadoið og saxið súkkulaðið fínt (eða gróft ef þið viljið stærri bita).
- Setjið avocado, agavesíróp og sítrónusafa í matvinnsluvél. Maukið í 10 sekúndur eða þangað til áferðin er silkimjúk.
- Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið súkkulaði, jógúrti og piparmyntudropum út í matvinnsluvélina og maukið áfram í nokkrar sekúndur.
- Setjið blönduna strax í plastbox, setjið lok á boxið og beint í frystinn. Hrærið í blöndunni á um klukkutíma fresti í nokkra klukkutíma eða þangað til erfitt er að hræra meira. Einnig má setja blönduna í blandara og mauka þannig.
- Áður en bera á jógúrtísinn fram, er best að leyfa honum að þiðna svolítið því hann á að vera mjúkur frekar en grjótharður.
- Athugið einnig að ísinn er fljótur að bráðna svo þið verðið að bera hann fram aðeins frosnari en þið viljið hafa hann og svo bráðnar hann pínulítið og þá er hann orðinn fínn.
Gott að hafa í huga
- Nota má sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega.