Ávaxtakonfekt

Lísa Hjalt vinkona mín gaukaði að mér þessari uppskrift sem hún rakst á í dönsku blaði. Uppskriftin er einföld og ódýr (engar hnetur) og nokkuð fljótleg. Í uppskriftina átti að fara vanillusykur en ég sleppti honum og notaði 2 msk af agavesírópi í staðinn. Einnig átti að fara kókosolía (2-3 mtsk) í uppskriftina en ég sleppti henni. Ég bætti við uppskriftina dökku, lífrænt framleiddu súkkulaði með hrásykri í staðinn. Ef þið sleppið súkkulaðinu er gott að nota kókosolíuna. Ég velti kúlunum ekki upp úr neinu því þær voru góðar einar sér en hægt er að velta þeim upp úr kakói eða kókosmjöli. Ég geri mínar kúlur frekar litlar, eða 12 grömm að þyngd hver en gera má stærri og færri kúlur eða fleiri og minni. Aprikósur eru fullar af A vítamínum sem skiptir miklu máli fyrir sjónina okkar. Einnig innihalda aprikósur sem og kakó andoxunarefni og stuðla þannig að vörnum líkamans gegn myndun krabbameinsfruma. Svo eru aprikósur, ásamt döðlunum mjög trefjaríkar og þurrkaðar aprikósur innihalda járn. Ef þið drekkið appelsínusafa með konfektinu hjálpið þið til við upptöku járnsins. Ávaxtakúlurnar eru ekki bara frábærar sem hollt jólakonfekt heldur eru þær líka upplagðar í nestisboxið, ferðalagið, gönguna og ekki síst bara heima sem hollt sælgæti.

Munið að kaupa ekki appelsínugular, þurrkaðar aprikósur því þær er búið að meðhöndla með efnum (sulfur dioxide) sem margir hafa ofnæmi fyrir. Lífrænt ræktaðar aprikósur innihalda ekki þetta efni. Kúlurnar geymast í margar vikur ef þær eru settar í lokað plastílát og einnig má frysta þær. Athugið að einnig er gott að dýfa kúlunum í bráðið súkkulaði...algjört nammi.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.


Konfektið góða sem passar með öllu

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Ávaxtakonfekt

Gerir 40 konfektmola

Innihald

 • 100 g þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxaðar gróft
 • 100 g döðlur, saxaðar gróft
 • 100 g kókosmjöl
 • 25 g kakó
 • 70 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, saxað smátt
 • 2 msk agavesíróp
 • 1 tsk vanillusykur [ég notaði ekki]
 • 2 msk kókosolía (má sleppa ef notað er súkkulaði)
 • Svolítið kakó eða kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr (má sleppa)

Aðferð

 1. Saxið súkkulaðið smátt.
 2. Saxið döðlur og aprikósur gróft og leggið í bleyti í 30 mínútur.
 3. Hellið vatninu af (ekki notað) og setjið döðlurnar og aprikósurnar í matvinnsluvél.
 4. Látið vélina vinna í upp undir mínútu þannig að allt blandist vel saman.
 5. Setjið agavesírópið, kakóið, kókosmjölið og saxaða súkkulaðið út í. Blandið í nokkrar sekúndur.
 6. Bætið kókosolíunni út í hér ef hún er notuð og blandið í nokkrar sekúndur.
 7. Hnoðið blönduna aðeins saman með höndunum og setjið svo í skál. Látið skálina standa í ísskáp í 30 mínútur.
 8. Mótið kúlur sem eru 12 grömm að þyngd hver (mega vera stærri eða minni) en mér finnst þetta fín stærð.
 9. Veltið upp úr kókosmjöli, kakói, sesamfræjum o.s.frv.

Gott að hafa í huga

 • Einnig má sleppa því að setja súkkulaðið inn í kúlurnar og bræða frekar súkkulaði til að dýfa konfektinu ofan í. Best er að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði. Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.

Ummæli um uppskriftina

runamagga
16. maí. 2014

Vá hvað þetta lítur vel út. Verð að prófa þetta við tækifæri.

sigrun
16. maí. 2014

Mæli alveg með því, það er dúndurgott og æði að eiga inni í ísskáp til að grípa í :)