Steiktar núðlur og grænmeti

Þetta er bara svona týpískur, austurlenskur núðluréttur. Það er ekkert eitt afgerandi bragð af honum, bara frekar mildur og fínn fyrir þá sem þola til dæmis illa sterkt kryddbragð. Ég nota hrísgrjónanúðlur en nota má aðrar núðlur eins og t.d. soba núðlur (úr bókhveiti). Rétturinn er léttur og fullur af C vítamínum og trefjum og fer sérlega vel í nestisboxið.


Dásamlega léttur og fínn núðluréttur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Steiktar núðlur og grænmeti

Fyrir 4

Innihald

  • 1 laukur
  • 1 gul eða rauð paprika
  • 1 msk kókosolía
  • 150 g spergilkál (brokkolí)
  • 100 g hvítkál
  • 100 g snowpeas (flatar, grænar baunir)
  • Lítill bútur (eins og vínber að stærð) ferskt engifer
  • 100 g baunaspírur
  • 200-300 g þykkar hrísgrjónanúðlur eða bókhveitinúðlur
  • 2 tsk maísmjöl
  • 100 ml eplasafi
  • 1 tsk sesamolía
  • 2 msk tamarisósa

Aðferð

  1. Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar.
  2. Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið í frekar grófa bita.
  3. Skerið spergilkálið í litla bita.
  4. Skerið hvítkálið í mjóa strimla.
  5. Rífið engiferið smátt.
  6. Hitið wok pönnu (eða djúpa, stóra pönnu) þangað til hún er orðin mjög heit.
  7. Setjið kókosolíu á pönnuna.
  8. Snöggsteikið laukinn, paprikuna, hvítkálið, snjóbaunirnar, engiferið, og baunaspíruarnar nokkrar mínútur. Notið vatn ef þarf meiri vökva á pönnuna.
  9. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, látið renna vel af þeim og blandið þeim saman við grænmetið. Hitið í nokkrar mínútur á pönnunni.
  10. Hrærið saman maísmjöl, eplasafa og tamarisósu. Hellið út á pönnuna og hrærið í á meðan sósan þykknar.
  11. Takið af hitanum og bætið sesamolíunni saman við.

Gott að hafa í huga

  • Það má nota alls kyns grænmeti í stað þess sem talið er upp hér að ofan. Til dæmis má nota maískorn, kúrbít (e. courgette/zucchini), gulrætur í strimlum, gúrkur í strimlum, sveppi o.s.frv. Einnig má setja kjötafganga eða sjávarfang ef þið eruð ekki grænmetisætur eða vegan.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Nota má aðrar núðlutegundir í staðinn fyrir hrísgrjónanúðlur. T.d. má nota soba núðlur (úr bókhveiti), spelt núðlur eða udon núðlur (innihalda hveiti).