Útilegusveppasúpa með fjallagrösum

Frábær máltíð sem maður myndi ekki einu sinni vera óánægður með á fínasta veitingahúsi en úti í náttúrunni, uppi á fjalli, með fallegt útsýni, við sætan læk, í góðu veðri, er bara ekkert betra!

Hvort að súpan er glúteinlaus, gerlaus og mjólkurlaus fer eftir því hvernig súpur þið kaupið. Ég geri ráð fyrir því að svo sé í uppskriftinni.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Útilegusveppasúpa með fjallagrösum

Fyrir 2 svanga göngugarpa

Innihald

  • 2 pakkar sveppasúpa, úr heilsubúð
  • 1 lítri kalt vatn
  • 10 g þurrkaðir sveppir
  • Hálf lúka fjallagrös (má sleppa)
  • 100-150 g hrísgrjónanúðlur
  • Smá klípa salt, pipar og múskat (enska: nutmeg)

Aðferð

  1. Áður en lagt er af stað í ferðina skuluð þið blanda saman súpuduftinu, þurrkuðum sveppum, salti, pipar og múskati í plastpoka. Geymið leiðbeiningarnar að súpunni ef þið þurfið. Hafið hrísgrjónanúðlurnar í sér poka.
  2. Í áningarstað skuluð þið sjóða súpuna samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Hrærið mjög vel.
  3. Skolið fjallagrösin eða dustið af þeim og tætið aðeins niður.
  4. Þegar súpan er byrjuð að sjóða, setjið þá fjallagrösin og hrísgrjónanúðlurnar út í og láta malla í 5 mínútur eða svo.
  5. Berið fram strax.
  6. Gott er að grilla chapati brauð eða glúteinlausa brauðvasa með súpunni. Best er að grilla brauðið áður en súpan er elduð og pakka svo inn í álpappír. Gætið þess samt að eiga nægilegt gas fyrir súpuna og allt annað sem þið ætlið að elda!

Gott að hafa í huga

  • Það má endalaust setja meira af góðgæti ofan í súpuna. Gott er að blanda saman þurrkuðum paprikubitum, þurrkuðum maískornum o.s.frv. í súpuna. Fyrir kjötæturnar má saxa kjöt sem búið er að matreiða og taka með sér í ferðalagið (borða fyrsta daginn). Það má undirbúa súpugrunninn á áningarstað og kjötæturnar geta sett kjötið út í þegar grænmetisæturnar eru búnar að fá sér á sinn disk