Sesamnúðlur

Þetta er núðluréttur sem ég held dálítið upp á en hráefnin eru kannski frekar óvenjuleg; chilli, sesamfræ og hnetusmjör. Asíubúar nota reyndar oft hnetusmjör í réttina sína (og má nefna satay sósuna sem dæmi) svo samsetningin er kannski ekki svo skrítin eftir allt saman. Allavega er þetta ljúfur og góður réttur og mjög saðsamur.


Sesamnúðlur, einfaldur og saðsamur réttur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Sesamnúðlur

Fyrir 3-4

Innihald

  • 250 g hrísgrjónanúðlur (úr brúnum hrísgrjónum) eða aðrar núðlutegundir
  • 3 msk sesamolía
  • 1 hvítlauksrif, marið eða saxað smátt
  • 2 msk mjúkt hnetusmjör (annað hvort heimatilbúið eða lífrænt framleitt og að sjálfsögðu sykurlaust)
  • 1 lítill rauður eða grænn chili pipar, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • 2 msk ristuð sesamfræ, þurristuð í stutta stund á pönnu
  • 5 msk tamarisósa
  • 1 msk límónusafi
  • Smá klípa svartur pipar
  • 4 msk fersk corianderlauf, söxuð smátt (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið hvítlaukinn og merjið eða saxið smátt.
  2. Skerið chili piparinn langsum, skafið fræin úr og saxið hann smátt.
  3. Blandið saman í skál; sesamolíu, hvítlauk og hnetusmjöri. Hrærið vel.
  4. Hitið pönnu (án olíu) og þurrristið sesamfræin í 10-20 sekúndur á háum hita. Kælið aðeins.
  5. Bætið saxaða chili piparnum, sesamfræjunum og tamarisósunni út í skálina.
  6. Bætið nú límónusafanum út í og hrærið vel. Smakkið til með pipar. Ef ykkur finnst sósan of þykk, setjið þá 1-2 msk af volgu vatni út í og hrærið vel.
  7. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka rétt áður en bera á matinn fram.
  8. Látið renna af núðlunum og setjið í skál.
  9. Hellið sósunni strax út í, blandið vel saman og dreifið söxuðum corianderlaufunum yfir.
  10. Berið fram heitt.

Gott að hafa í huga

  • Það er einnig gott að nota svolitla slettu af tabasco sósu í staðinn fyrir chili piparinn.
  • Ef þið geymið réttinn í kæli, stífnar hann aðeins. Til að mýkja hann upp, setjið þá í pott og hitið varlega í nokkrar mínútur.
  • Nota má aðrar núðlur í réttinn, t.d. soba núðlur (úr bókhveiti), speltnúðlur eða udon núðlur (innihalda hveiti).

Ummæli um uppskriftina

Drífa
23. nóv. 2010

Þessi réttur var mjöööög bragðgóður, svolítið sterkur og kóríanderinn setti punktinn yfir i-ið!! ;) Ég mun gera þennan rétt aftur og aftur! :)

sigrun
03. nóv. 2015

Dásamlegt að heyra :)

Svandís M
03. nóv. 2015

Líst mjög vel á þessa uppskrift! Ég hef ekki séð hrísgrjónanúðlur úr brúnum hrísgrjónum í verslunum. Geturðu bent mér á hvar þær fást?

sigrun
03. nóv. 2015

Ég hef séð þær í heilsubúðum og svo í heilsudeildum stærri verslana. Mig minnir að síðast hafi ég keypt þær í Fræinu, Fjarðarkaupum. En þú gætir líka athugað í glútenlausu deildunum því þessar núðlur eru glútenlausar.