Eggjadropa og maískornasúpa

Þessi súpa er voðalega einföld og þægileg, upplögð svona í miðri viku. Hún er líka holl, próteinrík, trefjarík og góð í forrétt ef þið eruð með austurlenska veislu á borðum. Hún er líka mjög ódýr og heppileg ef buddan er ekki þung. Hún virkar flókari en hún í raun er og súpan vekur alltaf hrifningu þegar hún er borin á borð.

Athugið að súpan er merkt sem án hneta en hún inniheldur sesamolíu. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir sesamfræjum ættu því að sleppa sesamolíunni. Súpan hentar vel þeim sem hafa mjólkuróþol og glúteinóþol.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Eggjadropa og maískornasúpa

Fyrir 2-3

Innihald

  • 250 g maískorn (án viðbætts sykurs)
  • 2 eggjahvítur
  • 1 tsk sesamolía (má sleppa)
  • 1,5 gerlausir grænmetisteningar 
  • 750 ml vatn
  • 2 msk maísmjöl (eða kartöflumjöl)
  • 1 msk tamarisósa til að bragðbæta ef þarf
  • 1 dropi stevia eða 1 tsk hreint agavesíróp

Aðferð

  1. Hrærið eggjahvíturnar vel.
  2. Blandið maísmjöl saman við 1-2 msk af vatni hrærið mjög vel þangað til fljótandi og þunnt.
  3. Setjið 750 ml vatn og grænmetisteninga í pott.
  4. Hleypið suðunni upp og blanda maískornunum saman við.
  5. Bætið steviadropanum eða agavesírópinu út í.
  6. Látið malla (ekki sjóða) í 15 mínútur, ekki með lokinu á.
  7. Blandið eggjahvítunum saman við maísmjölsblönduna og hrærið vel.
  8. Hellið eggjahvítu/maísmjölsblöndunni út í, í lítilli, en stöðugri bunu og hrærið í súpunni allan tímann (án þess að sjóði í súpunni). Gott er að hræra með gaffli eða litlum sósupískara. Eggjadroparnir munu sjóða og verða að mjóum, hvítum ræmum.
  9. Setjið sesamolíuna út í.
  10. Smakkið til með tamarisósunni, ekki víst að þurfi.
  11. Berið fram í djúpum skálum með djúpum skeiðum ef þið eigið svoleiðis.

Gott að hafa í huga

  • Ef súpan er of bragðmikil má setja aðeins meira af vatni út í súpuna.
  • Það er líka hægt að setja rifinn kjúkling út í, bætið bara aðeins af vatni og krafti við svo súpan verði ekki alltof þykk. Ef kjúklingur er notaður, má nota kjúklingakraft í stað grænmetiskrafts.
  • Ef notaður er kjúklingur legg ég áherslu á að nota aldrei annað en free range kjúkling þ.e. „hamingjusaman”.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Ummæli um uppskriftina

Helga Óskarsdóttir
10. des. 2015

Sælar

langar að benda á að þessi er ekki vegan :)

knús Helga

sigrun
10. des. 2015

Ji að sjálfsögðu ekki! Búin að leiðrétta, kærar þakkir.