Eggjadropa- og krabbakjötssúpa

Voða létt, próteinrík og góð súpa, mest megnis vatn og maískorn en afskaplega bragðgóð og fljótleg í undirbúningi. Það er hægt að kaupa bæði frosið og niðursoðið krabbakjöt.

Athugið að uppskriftin er merkt sem án hneta en hún inniheldur sesamolíu. Ef þið hafið ofnæmi fyrir sesamfræjum, sleppið þá sesamolíunni. Súpan er glúteinlaus og mjólkurlaus.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Eggjadropa- og krabbakjötssúpa

Fyrir 2-3

Innihald

  • 250 g maískorn (frosin eða úr dós, án viðbætts sykurs)
  • 2 eggjahvítur
  • 2 msk maísmjöl 
  • 1 tsk sesamolía (má sleppa)
  • 2 stórir gerlausir grænmetisteningar
  • 800 ml vatn
  • 1 msk hrísgrjónaedik (má sleppa)
  • 2 tsk ferskt engifer, mjög smátt saxað
  • 1 tsk agavesíróp
  • 200 g frosið eða niðursoðið krabbakjöt
  • 1 msk tamarisósa
  • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

  1. Blandið maísmjölinu saman við 1-2 msk af vatni. Hrærið vel þangað til allt er orðið kekkjalaust.
  2. Hrærið eggjahvíturnar vel.
  3. Blandið eggjahvítunum og maísmjölinu vel saman og setjið til hliðar.
  4. Hleypið suðunni upp í stórum potti og blandið maískornunum og grænmetiskraftinum saman við.
  5. Látið malla (ekki sjóða) í 15 mínútur, ekki með lokinu á.
  6. Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt.
  7. Bætið hrísgrjónaedikinu, engiferinu, saltinu og agavesírópinu saman við.
  8. Hleypið suðunni aftur upp og lækkið hitann þangað til kraumar.
  9. Bætið krabbakjötinu (og vökva ef einhver er) út í.
  10. Hrærið í eggjahvítu/maísmjölsblöndunni og hellið henni út í súpuna, í mjórri, en stöðugri bunu og hrærið í súpunni allan tímann (gætið þess að láta súpuna ekki sjóða). gott er að hræra með gaffli eða litlum sósupískara. Eggjablandan mun verða að mjóum, hvítum ræmum.
  11. Bætið sesamolíunni við og hitið í 2 mínútur án þess að sjóða
  12. Bragðbætið með tamarisósunni ef þarf. Einnig er gott að nota svolítinn pipar.

Gott að hafa í huga

  • Hægt að skipta krabbakjötinu út og nota rifið kjúklingakjöt í staðinn. Notið aðeins free range („hamingjusaman”) kjúkling.
  • Einnig hægt að nota smávegis af mjúku tofui ef maður borðar ekki kjöt.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Ef súpan er of bragðsterk getið þið sett svolítið meira vatn út í.