Ávaxta- og cashewhnetuís

Þessi ís er ekkert nema vítamín og hollusta. Uppskriftin að ísnum kemur úr bók sem heitir einfaldlega RAW eftir strák að nafni Juliano. Þessi strákur er eins sérstakur og fólk er sérstakt en bókin hans, hráfæðisbók er fráááááábær. Hráfæðispælingar eru mjög skemmtilegar en sumar uppskriftanna henta illa fyrir okkur á Íslandi þar sem t.d. ein uppskriftin felst í því að útbúa pizzubotna sem eiga að bakast í sólinni í um 8 klukkustundir. Við Íslendingar náum varla 8 tímum af sól yfir allt sumarið heima (he he). Það eru samt margar sniðugar uppskriftir í bókinni og þetta er virkilega skemmtileg pæling (ekki elda neitt upp fyrir 50°C til að drepa ekki ensímin í matnum o.s.frv.). Ísinn hentar vel fyrir þá sem eru með mjólkuróþol því það eru engar mjólkurafurðir í ísnum. Ísinn hentar einnig þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan).

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Ávaxta- og cashewhnetuís

Fyrir 3-4

Innihald

  • 125 g cashewhnetur
  • 500 ml hreinn appelsínusafi
  • 240 g mjúkar döðlur, saxaðar gróft
  • 150 g mango (einungis kjötið), saxað smátt
  • 1 stór banani, vel þroskaður 

Aðferð

  1. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið þær í allavega 2 mínútur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og malið áfram í 2-3 mínútur eða þangað til hneturnar eru mjög fínt malaðar/maukaðar. Setjið í stóra skál.
  2. Saxið döðlurnar gróft og setjið í matvinnsluvélina ásamt appelsínusafanum. Blandið í 1-2 mínútur eða þangað til döðlurnar eru vel maukaðar. Setjið í skálina.
  3. Afhýðið mangoið og skerið 150 g af kjötinu í litla bita.
  4. Afhýðið bananann og skerið í bita.
  5. Setjið mango og banana í matvinnsluvél og blandið í 1 mínútu eða þangað til vel maukað. Setjið í skálina.
  6. Hrærið allt vel saman í skálinni.
  7. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  8. Ef ekki er notuð ísvél:
  9. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
  10. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Ef döðlurnar eru harðar/þurrar má leggja þær í bleyti með helmingnum af safanum í nokkrar klukkustundir.
  • Nota má eplasafa eða ananassafa í staðinn fyrir appelsínusafann.

Ummæli um uppskriftina

marco
18. okt. 2012

sæl má sleppa banönunum ?

sigrun
18. okt. 2012

Það má sleppa honum og nota meira mango í staðin, áferðin breytist aðeins reyndar.

gestur
25. nóv. 2012

Bjó þennan ís til og hann er í frystinum. Hlakka til að prófa hann með heitri berja sósu.

sigrun
25. nóv. 2012

Mmmm væri til í að eiga hann í frystinum núna. Vona að hann hafi tekist vel hjá þér :)