Ólympíuleikaleysi

Nú eru almennu Ólympíuleikunum lokið (en Ólympíuleikar fatlaðra eru að hefjast innan fárra daga). Allt húllumhæið í öll þessi ár, allir peningarnir, öll þjálfun íþróttafólks, allar endurbæturnar á byggingum og götum, reiðhjólastígum og strætóum, fínu ruslatunnurnar.....og nú er þetta bara búið! Ruslatunnurnar reyndar halda sér og fínu endurbæturnar á mörgum götunum í London munu vonandi standast tímans tönn.

Hins vegar urðum við ekki vör við neitt. Ekki neitt. Við sáum nokkra blaktandi Ólympíufána, og hér og þar voru götur merktar sem forgangsgötur fyrir keppendur og merkikerti. Það segir ekkert um hvort umfangið var lítið eða mikið. Það segir okkur bara hversu borgin er stór og við kannski ekki mjög mikið að þvælast um borgina (nema okkar næstu þúfur). Við sáum ekki neina atburði og eigum ekki sjónvarp. Var þó límd við sjónvarpsskjáinn þegar fimleikar karla voru í gangi (var í matvörubúðinni og röðin var löng og ég flýtti mér hægt).

Ég get því ekki sagt að mér sé létt við að Ólympíuleikarnir séu afstaðnir (minni lokanir eru vegna Ólympíuleika fatlaðra svo við munum ekkert finna fyrir þeim, ekki það að þeir séu minna mikilvægir).....því miðað við hversu lítið vör við urðum við allt, hefði alveg eins getað verið heimsmeistaramót flughnýtinga í gangi.

Ég bjóst við meira umfangi kannski, lúðrasveitum og húllumhæi, íþróttafólki á götunum, túristum með fána. En í staðinn var borgin tóm. Algjörlega tóm. Vegna þess að allir héldu að borgin yrði yfirfull af fólki og umferð. Hóteleigendur skutu verðinu upp í topp, enginn kom, hótelherbergi voru því seld á niðursettu verði þegar fram á leikana leið. Því hér var enginn. Verslunareigendur kvörtuðu mikið um lélega sölu því túristarnir flúðu og heimafólk flúði og þar með datt salan niður.

Hver veit nema að við munum sjá Ólympíuleikana í Brasilíu 2016....en fyrst þurfum við að fá okkur sjónvarp (höfum ekki átt slíkt í 15 ár).....það gengur ekki að vera að fylgjast með í matvörubúðinni. 
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrundski1
28. ágú. 2012

hahaha ég upplifði þetta ekki svona.... reyndar voru lestarnar tómar sem var gott. En vá gleðin í borginni og í kringum staðina sem viðburðirnir voru. Algjörlega geggjað og sjálfboðaliðarnir vel merktir útum allt og svo hjálpsamir og kátir. Gluggaútstillingarnar voru í íþróttaanda hvert sem maður fór (sá meirasegja ólympíulegstein hjá útfararstofu) og það voru allra þjóða fánar gersamlega útum allt. Og gleiðin t.d í Coven garden..... mexicanar í hópum að syngja og ástralar og íþróttafólk jú just name it :D
Ég ætla til Ríó og er byrjuð að safna :D

sigrun
28. ágú. 2012

Vá.....en ótrúlega ólík upplifun.....það hefði verið svo gaman að upplifa þessa stemmningun en líklega hefðum við þurft að hafa a) áhuga á leikunum, b) vera á þeim stöðum þar sem fólk var að fagna og c) ekki fara í burtu ef fólk var að fagna....

Kannski hefði maður þurft að hafa augun aðeins meira opin??? Hmmmm mjög merkilegt.

Verður svona lotterí með miða í Ríó eins og var hér?