Bloggið

Óhollustusamkeppni notenda CafeSigrun: Keppandi #8

Seasoned Restaurant Style Croutons frá Mrs. Cubbison‘s

Brauðteningar

Tillaga frá Jónu S.

Ég velti því svolítið mikið fyrir mér hvort að væri óviðeigandi að vera með óhollustusamkeppni þegar fólk er kannski minna að hugsa um hvort hlutirnir eru hollir/óhollir heldur en hvort það eigi fyrir mat/ekki fyrir mat....Svo hugsaði ég með mér að þar sem keppnin væri nú meira til gamans þá væri bara gott að geta brosað út í annað yfir óhollustu...það er nefnilega algjör óþarfi að láta hollustu lönd og leið þrátt fyrir kreppu og auman fjárhag.

---

En svo við vindum okkur nú í brauðteningana þá eru margir sem eflaust hafa laumað þeim ofan á salatið í gegnum tíðina. Oftar en ekki eru þessir brauðteningar djúpsteiktir svo þeir verða extra kröntsjí og þeir luma á merkilega mikilli fitu miðað við stærð og umfang. Þeir bæta nefnilega alveg helling af hitaeiningum úr kolvetnum og fitu við venjulegt salat og ef þið eruð að hugsa um línurnar þá er þetta eitt af því fyrsta sem ætti að fjúka af salatdiskinum. Þá er mun sniðugra að fá sér t.d. ristaðar, muldar hnetur (hægt að steikja upp úr smá tamarisósu til að fá meira kryddbragð) og svo getur maður gert sína eigin brauðteninga með því að baka heimabakað speltbrauð í ofni (skera í bita) í 10-15 mínútur eða svo (við 180°C). Upplagt er að úða þá með smá vatni áður en þeir fara inn í ofn og krydda svo eftir smekk. Maður getur svo fryst brauðteningana og notað seinna (og hitað aftur í ofninum).

Brauðteningar þessir eru reyndar ekki djúpsteiktir en innihalda ýmislegt „áhugavert“ eins og litarefni, MSG (Monosodium Glutamate), transfitusýrur (úr hertri sojaolíu), high fructose corn syrup (sem er allt og alla að drepa í Bandaríkjunum og er búið að banna víða), o.fl. Það sem er líka mjög blekkjandi er að næringarefnataflan er reiknuð út miðað við hvern skammt (sem er 7 gr) en ekki út frá 100 gr sem segir manni miklu meira. Það er himinhá hitaeiningatala í brauðteningum, hellingur af kolvetnum og fitu en t.d. engar trefjar.

Innihaldslýsing: ENRICHED WHEAT FLOUR [FLOUR, BARLEY MALT, FERROUS SULFATE (IRON), "B" VITAMINS (NIACIN, THIAMINE MONO¬NITRATE (Bl), RIBOFLAVIN (B2), FOLIC ACID)), PARTIALLY HYDROGENATED SOYBEAN OIL, WATER, HIGH FRUCTOSE CORN SYRUP, SALT. CONTAINS 2% OR LESS OF: YEAST, ROMANO AND PARMESAN CHEESE (PASTEURIZED CULTURED MILK, BUTTERMILK, SALT, PARTIALLY HYDROGENATED SOYBEAN OIL, WHEY, DISODIUM PHOSPHATE, CITRIC ACID, SODIUM CASEINATE, LACTIC ACID, ENZYMES), SWEET DAIRY WHEY, MALTODEXTRIN, SPICES, NATURAL FLAVORS, GARLIC, PARSLEY, ROSEMARY, MONOSODIUM GLUTAMATE, PAPRIKA, DISODIUM INOSINATE.. AND GUANYLATE, CULTURED WHEY, TURMERIC.. AND ANNATTO EXTRACTS (COLOR), SOY LECITHIN.

Glúteinlaust: Nei Mjólkurlaust: Nei Hnetulaust:

Næringargildi í 100 gr: Orka (kcal): 428 Prótein: um 10 gr (minna en 1 gr í hverjum 7 grömmum) Kolvetni: 57 gr Þar af sykur: um 10 gr (minna en 1 gr í hverjum 7 grömmum) Þar af trefjar: 0 gr Fita: 14 gr Þar af mettuð fita: ekki tekið fram Þar af einómettuð: ekki tekið fram Þar af fjölómettuð: ekki tekið fram Transfita: (ekki tekið fram en inniheldur pottþétt transfitusýrur þar sem notuð er hert sojaolía)

Óhollustueinkunn: 1,5 (10 er hollast)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Cirka gengi

Ég fór í bankann í hádeginu..ekki í panikki eins og svo margir þessa dagana heldur fékk ég smá pening til baka úr skattinum í Bretlandi og ákvað að nýta mér ástandið hérna heima (eða öllu heldur leggja mitt af mörkum til að koma með pening inn í landið...hehe).

Þessum spurningum þurfti ég sem sagt að velta fyrir mér áður en ég lagði af stað.

  • Hvert er gengið á pundinu miðað við íslenska krónu?
  • Hvert er gengið hjá banka A, B og C?
  • Hvar er hagstæðast að skipta peningunum og hverjum á maður að treysta?
  • Í hvaða banka ætti ég að leggja peningana mína (er með reikninga í þremur bönkum)?
  • Hvaða banki er ekki farinn á hausinn?
Ég hef oft farið með breska debetkortið mitt og tekið út pening í íslenskum banka, án þess svo mikið sem að pæla í neinum af ofangreindum spurningum...enda er maður orðinn góðu vanur. Núna hins vegar skoðaði ég gengið hjá öllum bönkum og valdi svo þann sem virtist vera með hæsta gengið. Var samt ótrúlega hrædd um að það myndi lækka þessar 5 mínútur sem tók mig að labba í bankann.

Ég fer í bankann og í eyrunum glumdu orðin frá reiðum íslenskum tónlistarmanni yfir allt. Samtalið við bankaagreiðsludömurnar var kostulegt:

(Bankaafgreiðsludaman): Góðan dag

*(Ég) Góðan daginn, ég ætla að taka út pening af breska kortinu mínu og leggja inn á íslenskan reikning.

Hmm ok, ég veit ekki hvað gengið er, allt mjög óljóst?

*Uuuuu hvað er það t.d. núna?

Það breytist eiginlega á 5 mínútna fresti.

*Ok en hvað er það núna...cirka?

245 krónur.

*Ok ég ætla að taka út x mikinn pening af kortinu mínu og leggja inn á íslenska reikninginn.

Hmmm sko það breytist svolítið hratt gengið...ég veit ekki alveg hvað það er, mjög óljóst.

*Uuuuu ok en ég ætla að taka út pening samt hvað sem gengið er næstu mínúturnar (enda í hæstu hæðum hvort sem það lækkar um 10 krónur eða meira næstu sekúndurnar).

(Stúlkan spyr samstarfskonu sína): Heyrðu hvað er gengið núna...? Hin stúlkan svarar: "Veit ekki...mjög óljóst, erfitt að segja til um það"....Hin spyr aftur "Nota ég sölugengið eða kaupgengið eða almenna gengið"? (Svolítið merkileg spurning miðað við bankastarfsmann sem hefur eflaust gert þetta milljón sinnum enda var ég í raun bara að skipta pundum og ekkert annað).

"Sko þetta er allt mjög óljóst".... (ég fékk álíka ræðu og þessa fyrir ofan) og stúlkan spyr hina "Uuuu hvað er kaupgengið á"? "Munar það miklu" spyr hin. Hin stúlkan segir á milli tyggjósmellanna "Tsjáhhh alveg 50 kalli". "Ok notaðu þá bara svona cirka gengið"...."eða EITTHVAÐ".

*Cirka gengi? Er ég ekki að tapa á því ef þið notið Cirka gengi?

Ja sko það er það eina sem við getum gert núna því allt er svo óljóst...

Ég get svo svarið fyrir það.....nú hef ég oft tekið út pening t.d. í Kenya og er ekki viss um að ringulreiðin sé nokkurn tímann jafn mikil og ég upplifði þarna í hádeginu (ok reyndar tekur allt þar 400 sinnum lengri tíma).

Ástandið sem ég upplifði í bankanum var svolítið eins og að horfa á hóp af antilópum sem veit af ljóni rétt hjá...þær eru ekki farnar að hlaupa en eru mjög styggar og varar um sig og stökkva upp af minnsta tilefni, óöruggar um sig og vita ekkert hvert þær eiga að hlaupa.

Fyrir utan bankann voru ljósmyndarar, fréttamenn, lögreglumenn, öryggisverðir...Þetta var sem sé í Reykjavík, í dag.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Af pasta og blankheitum

Það var árið 2001 og við Jóhannes vorum að flytja út fyrir landsteinana í mastersnám, blaut á bak við eyrun. Við vorum búin að selja íbúðirnar okkar (áttum tvær litlar íbúðir þá), setja peninginn inn á bók og búin að pakka kössum í gám. Þetta var að okkur fannst, stórt skref. Við vorum að flytja til London og við vissum akkúrat ekkert í okkar haus. Við höfðum oft komið til London en það er ekki það sama að búa í borginni eða heimsækja hana sem ferðamaður. Við vorum skíthrædd um að eiga ekki krónu. Sú hræðsla reyndist vera rétt þegar á hólminn var komið. Við.áttum.ekki.krónu.

Við fluttum ekki inn til London til að byrja með heldur bjuggum við aðeins fyrir utan. Bærinn tilheyrði samt stór-London (Greater London Area). Samt ekki nóg til að ég skammaðist mín ekki fyrir póstkóðann....ég þurfti nefnilega að skrifa Middlesex en ekki London og ég grenjaði næstum því við tilhugsunina. Ástæðan fyrir því að við fluttum þangað fyrst var að skólinn okkar var nálægt og af því að í heilt ár þurftum við að vera límd við skólann, var þetta góður kostur. Við enduðum svo á því að búa þarna í tæp 3 ár í um 70 fm 3ja herbergja íbúð. Ekki hægt að kvarta yfir miklu svo sem en svona úthverfafílingur er ekki alveg okkar stemmning enda leið okkur grilljón sinnum betur í ys og þys London síðar meir.

Anyways...aftur í blankheitin. Við fluttum út í júlí 2001 og vorum búin að vinna eins og geðsjúklingar. Við höfum aldrei tekið námslán í gegnum allan okkar skólaferil og þurftum því að vinna mikið, sérstaklega þar sem við vorum í námi að kaupa íbúð (2), áttum bíl, hesthús, hesta og þurftum jú að borða. Á þessum tíma borðaði ég reyndar ekki samkvæmt "CafeSigrun fræðunum" (he he) því mér var alveg sama þó ég borðaði þurrt pasta (ósoðið). Matur var bara næring og ekkert annað fyrir mér. Ég var líka ALLTAF veik, fékk flensur hvað eftir annað, alltaf með hálsbólgu og endalaust með kvefpestir. Veislumáltíðir samanstóðu af soðnu pasta og pestói úr krukku. Við vorum jú skítblönk og það átti bara eftir að versna.

Við flugum sem sagt út og það byrjaði ekki vel. Við fórum með GO flugfélaginu sem var í gangi þá og komum ansi snemma morguns út til London. Við vorum búin að vera svefnlaus síðustu dagana fyrir flutninga og ákváðum að leggja okkur á hótelherberginu sem við áttum pantað. Herbergið var ekki tilbúið og við ákváðum því að eyða tímanum inni í London. Við tökum strætó en vorum svo þreytt að við steinsofnuðum bæði. Við vöknuðum loks upp, og vorum farin fram hjá stoppinu okkar. Við stukkum út úr strætó og glöð í bragði gengum við um í sólinni. Okkur fannst við alveg gorgous...að vera flutt til London. Þangað til ég ég snarstoppaði úti á miðri götu (þannig að fólk labbaði aftan á mig)...."Jóhannes....TASKAN". Jóhannes fölnaði upp og ekki að ástæðulausu. Í töskunni var: Öll kreditkort og debitkort okkar beggja, farsímar okkar beggja, vegabréf okkar beggja, ipod, lófatölva, gleraugu, glæný sólgleraugu, reiðufé (afmælispeningar) o.fl., o.fl. Sem betur fer er Jóhannes ekki þannig að hann æsi sig yfir hlutunum (ég hefði lagst í jörðina og farið að grenja ef hann hefði farið að skammast) og hann tók djúpt andann og byrjaði að hugsa. Í einfeldni minni hélt ég að ég myndi bara geta hringt í tapað fundið og að þeir myndu hafa samband við strætóbílstjórann sem myndi skila góssinu. Je ræt. Það var ekki alveg svo einfalt í 8 milljón manna borg. Dótið sáum við aldrei aftur og þetta var ansi mikill skellur fyrsta daginn í útlöndunum. Við áttum sem betur fer góða að heima á Íslandi sem ráðlögðu okkur varðandi tryggingamál, greiðslukort o.fl. Sumt var bætt en annað ekki. Við stóðum sem sé nánast allslaus í nýju landi. Við fórum heldur niðurlút upp á hótel og konan þar hlustaði á raunasögu okkar. Hún bauð okkur upp á tebolla (ráð Breta við öllu) og aldrei hefur tebolli smakkast eins vel og þá (fyrr en 6 árum seinna þegar nágranni bauð okkur upp á tebolla eftir innbrot í íbúðina okkar).

Eftir margra vikna redding og þvæling vorum við orðin ansi slæpt og þreytt. Við bjuggum hjá Svani bróður í Suður-Englandi í 10 daga, fórum til systur Jóhannesar í nokkra daga sem bjó í Danmörku og það var bara VISA, VISA, VISA enda áttum við ekkert annað. Við áttum sem sé hvergi heima og það er skrítin tilfinning. Loksins fundum við íbúð eftir mikla leit (og aftur reddingar frá fjölskyldu og fyrrverandi vinnuveitanda sem gat vottað fyrir okkur) og við fluttum inn. Við vorum í stórum mínus, dótið okkar ókomið og við vorum skííítblönk. Á sama tíma fengum við líka áætlun frá skattinum upp á rúma milljón sem gladdi okkur lítið (en var leiðrétt síðar). Það var sem sagt allt ómögulegt. Við gengum um götur London og horfðum inn á veitingastaði þar sem brosandi fólk var að borða dýrindis máltíðir. Við horfðum inn í búðargluggana á rúm, sængur og dýnur sem okkur langaði gjarnan að kaupa. Í þrjá mánuði áttum við 2 diska, 2 gaffla, 2 skeiðar, 2 bolla, pappakassa fyrir skrifborð og 2 garðstóla. Í rúman mánuð sváfum við á þunnum tjalddýnum (ég á loftsæng) með handklæði og föt yfir okkur. Hamingjan sem braust út þegar við keyptum okkur sængur var ólýsanleg. Mér fannst ég sofa með ský yfir mér. Hamingjan breyttist í tryllingslegan fögnuð við kaup á svefnbeddum (sem við notuðum síðar fyrir gestarúm). Að þurfa ekki að sofa á gólfinu var álíka mikil hamingja og að vinna stóran vinning í happdrætti. Ég veit að þetta hljómar svolítið eins og við höfum verið við dauðans dyr úr fátækt en það var nú ekki þannig. Við tímdum bara ekki að setja t.d. máltíðir á VISA og leyfðum okkur því ekki neitt slíkt. Við vorum skítblönk en ekki fátæk, mikill munur þar á.

Maturinn þessa daga samanstóð af því sem hægt var að fá í dós en reyndar aldrei neitt sem gat talist "óhollt" á venjulegan mælikvarða...meira svona eins og baunir í tómatsósu og svoleiðis, brauð, pasta o.fl. Brauð er nefnilega ódýrt og fyllandi (en ekki sérlega hollt eintómt og til lengdar). Nú svo vænkaðist hagur strympu og Jóhannes fékk vinnu (hann vann með skólanum og tók námið á 2 árum) og ég fékk vinnu eftir skólann. Úr þessu öllu saman rættist, ég fór að elda almennilegan mat loksins því úrvalið af góðu hráefni var stórkostlegt (það var þá sem ég opnaði CafeSigrun) og að lokum kom dótið okkar með gámi. Ég lofaði sjálfri mér því að taka út allt drasl (hafði svo sem ekki borðað sælgæti eða sykur síðan ég var 12 ára) og að maturinn yrði héðan í frá sem hollastur. Það var við eins og við manninn mælt, heilsan gjörbreyttist og við losnuðum við það sem flestir eru að berjast við á haustin og veturna.

Það sem fékk mig til að hugsa um þetta allt saman er sá fjöldi námsmanna (og þeirra sem búa tímabundið erlendis) sem er algjörlega að hengjast í þessu erfiða ástandi sem nú ríkir þegar fólk er að treysta á greiðslur í krónum til útlanda. Alveg hrikalegt. Mánuði eftir að við fluttum út í nám veiktist nefnilega krónan þannig að hún stóð í 155 en ekki 122 eins og hún hafði verið í langan tíma. Það var erfitt því við tókum út pening frá Íslandi og skerðingin var mikil. Ég veit ekki hvernig námsmenn eiga að fara að núna, sérstaklega ekki þeir sem eru með fjölskyldur...það er sama hvað þeir gera því staðan er slæm...hvernig sem á það er litið og hvað sem þeir gera. Vonandi fer ástandið að batna því þetta er ekki hægt...pundið komið í 200 krónur og krónan orðin verðlaus. Nú er að herða sultarólina, elda súpur til að frysta, nota grænmetisafganga í ofnrétti, kaupa grænmeti og ávexti á tilboði, nota frystikistuna, smyrja nesti o.fl., o.fl. Pointið er sem sagt. Þó að námsmenn séu að hengjast þurfa þeir ekki að lifa á núðlusúpum, ef ég hefði kunnað að elda þá eins og ég kann í dag og ef einhver hefði haft t.d. vefsíðu til að fylgja þá hefði þetta verið minna mál, ég bara kunni ekki að elda ódýrt, hollt og gott. Það er hægt að gera góðan mat úr nánast engu. Fyrir ykkur sem ekki hafið rekið augun í Ódýrt flokkinn þá er kannski rétt að benda ykkur á hann núna....kannski er einhver sem áður borðaði þurrt pasta sem núna getur eldað góðan pastarétt (og jafnvel slegið í gegn á stúdentagarðinum!).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Óhollustusamkeppni notenda CafeSigrun: Þátttakandi #7

Nusco - heslihnetu og súkkulaðimauk Tillaga frá Guðrúnu

Nusco súkkulaðimauk

Ég held reyndar ekki að lenskan hér sé að smyrja brauð með súkkulaði eins og gjarnan er gert t.d. í Bandaríkjunum en þar ræður Nutella ríkjum. Það er merkilega mikið af fitu og hitaeiningum í þessari vöru. Það sem er óþolandi er að ekki er tekið fram hversu mikið af fitunni er mettuð. Einnig grunar mig að transfitusýrur sé að finna því jurtaolían er hert að hluta. Þar fyrir ofan er svimandi hátt kolvetnahlutfall og líklegt að það sé meirihluti sykur því það er jú tekið fram í fyrsta sæti. Þetta er sem sagt sykurmauk.....með kakóbragði! Það eina jákvæða er að ekki virðist vera mikið um auka-eða gerviefni en þó er tekið fram að notað sé aroma .....sem er svolítið "sveigjanlegt". Svo er talað um á krukkunni að um heslihnetumauk sé að ræða...en aðeins 4% innihaldsins er heslihnetur! Merkilegt hvað framleiðendur komast upp með. Þá er skárra að fá sér lífrænt framleitt hnetusmjör án sykurs eða jafnvel mauka saman tahini (sesammauk), smá kakó/carob og agavesíróp...það er fín blanda.

Innihaldslýsing: Sykur, jurtaolía (hert að hluta), heslihnetur (4%), fitulítið kakóduft, mjólkursykur, undanrennuduft, sojaduft, íruefni: sojalesitín, bragðefni.

Glúteinlaust:Mjólkurlaust: Nei Hnetulaust: Nei

Næringargildi í 100 gr: Orka (kcal): 559 Prótein: 2,7 gr Kolvetni: 60,8 gr Þar af sykur: 16 gr Þar af trefjar: 4-8 gr Fita: 33,8 gr Þar af mettuð fita: ekki tekið fram Þar af einómettuð: ekki tekið fram Þar af fjölómettuð: ekki tekið fram Transfita: 0,5 gr (ekki tekið fram en er alveg örugglega eitthvað þar sem notuð er jurtaolía og hún er hert að hluta)

Óhollustueinkunn: 3,5 (10 er hollast)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Skólafréttir frá Uganda

Fékk tölvupóst áðan frá lærlingnum (kalla hann E) í Uganda (þið munið eftir honum er það ekki....honum sem seldi geiturnar fyrir restinni af skólagjöldunum.....). E tilkynnti mér sem sagt að hann væri kominn í skólafrí og að hann ætlaði að senda mér einkunnirnar sínar. Hann veit að áframhaldandi fjárframlög velta á einkunnunum svo honum var mikið í mun að senda mér þær sem fyrst. Nú vona ég bara að niðurstöðurnar séu góðar svo drengurinn geti útskrifast með pompi og prakt. Ég var svo búin að lofa honum tölvunámskeiði í útskriftargjöf ef vel gengur og öll fjölskyldan er mjög spennt yfir því....er mér sagt (á milli bæna í tölvupóstum). Þá er nú von til að hann geti keypt fleiri geitur og jafnvel fengið vinnu. Ég nenni ekki að vera að útskýra fyrir honum að íslenska krónan sé orðin verðlaus og að Íslendingar geti ekki lengur keypt sér flatskjái á við fótboltavöll, 400 fm einbýlishús, Range Rovera, einkaþotur o.fl., o.fl.....hef grun um að hann myndi hrista hausinn. Held nefnilega að hann sé ánægður bara með að fá mat þann daginn.

Læt ykkur vita hvernig honum gekk :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Með og á móti

Komin heim frá London. Var að hugsa á leiðinni frá flugvellinum um svona pros and cons lista (með og á móti)...veit að þetta er ekki algilt (t.d. er meiri mengun í London, lengri tíma tekur að komast út í náttúruna (sem Íslendingar eru reyndar að spilla o.s.frv.) og sumt er alhæfing....en samt...(Jóhannes skammaði mig fyrir að vera of pirruð þannig að þið verðið bara að taka þessu eins létt og þið getið :))

Hafa ber í huga að þar sem gengi íslensku krónunnar er í frjálsu falli (199 núna) þá er ekki hægt að reikna verð yfir í íslenskar krónur og segja "hmm bara sama verð á Íslandi). Ég miða verð í báðum löndum við hlutfall af mánaðarlaunum. Þar sem ég fæ laun á báðum stöðum (og þekki innkaup vel eftir að hafa búið í London í 6 ár) þá get ég borið þetta saman.

  • Í London var 16 stiga hiti og sól í gær (búið að vera alla vikuna), hér var 1 stigs hiti og rok.
  • Í London er hægt að kaupa lífrænt ræktaðar cashewhnetur á 6 pund kílóið, hér kostar það nálægt 6 þúsund.
  • Í London er hægt að fá free range og organic kjöt, hér er allt kjöt sprautað með alls kyns efnum, dýrin eru í búrum (svín og hænur aðallega) og fáir eru að huga að velferðarmálum dýra..
  • Í London kostar 400 ml af sjampói frá Loreal enn þá 2.18 pund (þrátt fyrir kreppuástand), hér kostar það tæpar 600 krónur og fer hækkandi (hef notað þetta sjampó í verðkönnunum). Það var á 3 fyrir 2 tilboði eins og yfirleitt.
  • Í London kaupir maður 1 lítra af besta mögulega lífrænt framleiddum appelsínusafa á 1.98, hér er það nálægt 500 krónum (ekki lífrænt framleiddur) og fer hækkandi.
  • Í London er hægt að kaupa Green and Black's súkkulaði á 1.90 pund, hér er það nálægt 400 krónum og fer hækkandi.
  • Í London kostar St. Dalfour sulta enn þá 1.85, hér kostar það nálægt 400 krónum og fer hækkandi.
  • Í London virka almenningssamgöngur það vel að maður hugsar ekki einu sinni um bílleysi, hér virka strætóar ekki/illa og það er alltaf rok.
  • Í London er fullt af öðruvísi fólki...t.d. einn með mörgæs úr plasti í fullri stærð undir hendinni, menn í pinnahælum (en samt bara venjulegir karlar í karlafötum), fólk með bleikt hár, alvöru pönkara með alvöru hanakamba, fólk er líka fjölbreytilegt í tungu, menningu og í útliti, hér eru allir eins.
  • Í London er fólk t.d. í matvörubúð almennt kurteist, hér ryðst fólk á mann með innkaupakerrur með frekju og yfirgangi án þess að segja afsakið.
  • Í London eru heilsubúðir svo flottar og girnilegar og á góðu verði að mann langar helst að flytja inn í þær, hér eru þær svo dýrar að maður skammast sín fyrir að opna veskið.
  • Í London er úrvalið af góðum veitingastöðum svo mikið að maður á erfitt með að velja úr, hér er hending ef veitingastaður lifir af mánuðinn.
  • Í London opnar enginn góðan veitingastað án þess að huga að velferð dýra, notkun á msg, transfitu, endurvinnslu og endurnýtingu o.fl., hér eru veitingamenn 10 árum á eftir (margir) og er oft alveg sama, svo lengi sem verði er haldið niðri (eðlilegt miðað við hversu erfitt er að reka veitingahús hér á landi).
  • Í London eru skemmtilegir götulistamenn sem lífga upp á daginn, hér er þeim bannað að athafna sig.
  • Í London er ég glöð og í góðu skapi, hér er ég pirruð og í vondu skapi (ok ekki alltaf).
  • Í London getur maður legið í grænum garði í miðri borg og notið lífsins, hér í RVK eru 2 garðar og þar er alltaf kalt, alltaf rok og alltaf hundaskítur.
  • Jæja...hætt að röfla........þið sjáið hvert stefnir........
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Óhollustusamkeppni CafeSigrun: Þátttakandi #6

Myoplex Lite: Chocolate Peanut Butter Crisp

Myoplex Lite

Ég held að svona „orkustangir“ eða hvað þetta kallast sé einmitt dæmi um hversu langt við erum komin frá forfeðrum okkar í næringaröflun. Hvað í #$#$% er eiginlega títandíoxíð og af hverju ætti ég að vilja setja það ofan í mig? Einnig er high fructose corn syrup (kornsíróp með hátt hlutfall frúktósa) það sem allt og alla er að drepa t.d. í USA (enda neysla á því gríðarleg). Einnig er í þessari orkustöng hellingur af sykri, tilbúin og náttúruleg bragðefni og allt of mikið af mettaðri fitu. Í 56 gr (einni stöng) eru 3,5 gr af mettaðri fitu sem og 16 gr af sykri. Það myndi þýða helmingi meira ef reiknað í 100 gr eins og flest í óhollustusamkeppninni er. Uss uss. Reglan hjá mér er sú að ef ég þekki ekki innihaldið, læt ég það ekki ofan í mig. Maður á nefnilega ekki að þurfa að vera efnafræðingur til að borða mat. Eða það finnst mér a.m.k. Ég bý miklu frekar til mínar eigin próteinstangir með hreinu undanrennudufti og hnetum, þurrkuðum ávöxtum o.fl. Maður býr til helling í einu, pakkar í plast og geymir í kælinum í margar, margar vikur. Svo er líka fínt að kaupa t.d. Larabar og svoleiðis í heilsubúðum. Svona til gamans prófaði ég að setja orðið Titandioxide í Google leitarvélina og fékk m.a. þessa niðurstöðu: Here you will find the latest news from the chemical, analytical and laboratory industries. Traustvekjandi!

Innihaldslýsing: Myo-Lean™ prótínblanda (einangrað mjólkurprótín, jónaskipt mysuprótín, kalsíum kaseinat, einangrað sojaprótín), kornsíróp með hátt hlutfall innihald frúktósa, fjölliða glúkósi, sykur, blönduð pálmakjarna olía, kornsíróp með hátt innihald frúktósa, náttúruleg og tilbúin bragðefni, þurrkuð epli, fitusnauð mjólk, maltitol síróp, vítamín- og steinefnablanda (kalsíumfosfat, magnesíum oxíð, kalíumfosfat, kalíumsítrat, kalíumklóríð, askorbínsýra, alfa tocopherýl, járn-orthofosfat, níasínamíð, kalsíum pantothenat, sinkoxíð, koparglúkonat, krómsítrat, pýrídoxín hýdróklóríð, ríbóflavín, þíamín mónónítrat, vítamín-A palmítat, fólínsýra, bíótín, kalíumjoð, vítamín-D3 og vítamín B12), epladuft, eplasýra, sellulósagel, maltódextrín, fitusnautt jógúrtduft (ræktuð mysa og fitusnauð mjólk), þrúgusykur, títandíoxíð bætt fyrir lit, sojalesitín og guarlím.

Glúteinlaust: Nei (maltilol getur innihaldið glútein) Mjólkurlaust: Nei Hnetulaust: Nei Næringargildi í einu stykki (sem er 56 gr): Orka (kcal): 190 Protein: 15 gr Kolvetni: 27 gr Þar af sykur: 16 gr Þar af trefjar: 4-8 gr Fita: 4,6 gr Þar af mettuð fita: 3,5 gr Þar af einómettuð: ekki tekið fram Þar af fjölómettuð: ekki tekið fram Transfita: 0,5 gr (ekki tekið fram en er alveg örugglega eitthvað þar sem notuð er pálmolía og ekki tekið fram hvort hún er hert eða ekki)

Óhollustueinkunn: 0,5 (10 er hollast)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Í London

Jæja þá erum við stödd í London...eins og við sjáum af bleikum hanakömbum, dansandi, trommandi, hempuklæddu Hari Krishna strákunum, klæðskiptingum í háum hælum, fólkinu sem er að flýta sér alls staðar í jakkafötum og drögtum, byggingunum sem eru svo stórar að þær gætu hýst alla Reykvíkinga, og allri þeirri flóru fólks sem hér er af öllum stærðum, gerðum, litum o.fl. Við erum komin "heim".

Námskeiðið gekk þrumuvel og ég var vel undirbúin. Það er gaman að labba út úr einum stærsta banka heims og finna að maður hafi staðið sig vel. Námskeiðið var reyndar í norð-vestur hluta landsins og ég gisti á herragarði sem var byggður 1653 og Bítlarnir gistu á þegar þeir voru á svæðinu. Veggirnir voru metersþykkir og hlaðnir og innviðið eins og völundarhús með mjóum og löngum göngum. Gluggarnir voru litlir með blýrömmum (eins og á steindum gluggum) og það voru hestar á beit fyrir utan. Óskaplega fallegt, eins og á málverki.

Nú er ég í London og Jóhannes líka. Þarf að halda smá námskeið fyrir fyrirtækið sem ég er að vinna fyrir hér í UK í dag en svo ætlum við barasta að tsjilla. Við fórum á Neal's Yard í gær að borða....uppáhaldsheilsustaðinn okkar. Í dag erum við að hitta gamla skólafélaga, nágranna, vinnufélaga og fleiri vini. Nóg að gera. Ég fór í heilsubúðir í gær. Best að segja sem minnst um það....ykkar vegna :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Óhollustusamkeppni notenda CafeSigrun: Þátttakandi #5

Slim Fast Caramel

Slim Fast súkkulaði

Tillaga frá: Ingibjörgu Lárusdóttur

Það er mikill kostur ef maður er með gráðu í efnafræði....það myndi hjálpa manni að lesa utan á umbúðirnar á þessu „súkkulaði“. Bara nafnið...“Slim-Fast“ ætti að kveikja á aðvörunarbjöllum í höfðinu. Það er ekkert súkkulaði sem er „megrandi“ og fyrir utan það ætti orðið slim-eitthvað þ.e. „megrunar-eitthvað“ að vera algjörlega bannað. Mér finnst heldur ekkert Slim....við 382 hitaeiningar, 12 grömm af fitu (þar af meira en helmingurinn mettuð fita sem sest beint inn á æðarnar) og 52 grömm af sykri..... Þó að þessi stöng sé létt ætti maður ekki að láta gabbast og einnig inniheldur hún bragðefni og litarefni. Þá er moli af dökku, lífrænt framleiddu súkkulaði mun betri kostur.

Innihaldslýsing: Caramel (30%) (Glucose Syrup, Sugar, Bulking agent (Polydextrose), Skimmed Milk, Vegetable Oil, Salt, Flavourings, Emulsifier (Soya Lecithin)), Glucose Syrup, Milk Chocolate (21%) (Sugar, Cocoa Butter, Skimmed Milk Powder, Cocoa Mass, Lactose, Whey Powder, Milk Fat. Fat Reduced Cocoa Powder, Emulsifiers (Soya Lecithin, Polyglycerol Polyricionleate), Flavourings), Sugar, Water, Vegetable Oil, Bulking Agent (Polydextrose), Fat Reduced Cocoa Powder, Egg White, Salt, Colour (Plain Caramel), Flavourings.

Glúteinlaust:Mjólkurlaust: Nei Hnetulaust: Já (en með aðvörun frá framleiðanda um smit frá öðrum vörum)

Næringargildi í 100 gr: Orka (kcal): 382 Prótein: 3,4 gr Kolvetni: 69,6 gr Þar af sykur: 52,3 gr Þar af sterkja: ekki tekið fram Þar af trefjar: 1,2 gr Fita: 12,4 gr Þar af mettuð fita: 7,1 gr Þar af einómettuð: 1,2 gr Þar af fjölómettuð: ekki tekið fram Transfita: ekki tekið fram

Óhollustueinkunn: 2,0 (10 er hollast)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Afrísk matargerð - grein í Matur og Vín

Bara að láta ykkur vita að í nýjasta Matur og Vín blaðinu er grein um afríska matargerð sem ég skrifaði og nokkrar uppskriftir með. Er reyndar ekki búin að skoða blaðið :)

Einnig má finna afrískar uppskriftir á www.afrika.is/uppskriftir

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It