Cirka gengi

Ég fór í bankann í hádeginu..ekki í panikki eins og svo margir þessa dagana heldur fékk ég smá pening til baka úr skattinum í Bretlandi og ákvað að nýta mér ástandið hérna heima (eða öllu heldur leggja mitt af mörkum til að koma með pening inn í landið...hehe).

Þessum spurningum þurfti ég sem sagt að velta fyrir mér áður en ég lagði af stað.

  • Hvert er gengið á pundinu miðað við íslenska krónu?
  • Hvert er gengið hjá banka A, B og C?
  • Hvar er hagstæðast að skipta peningunum og hverjum á maður að treysta?
  • Í hvaða banka ætti ég að leggja peningana mína (er með reikninga í þremur bönkum)?
  • Hvaða banki er ekki farinn á hausinn?
Ég hef oft farið með breska debetkortið mitt og tekið út pening í íslenskum banka, án þess svo mikið sem að pæla í neinum af ofangreindum spurningum...enda er maður orðinn góðu vanur. Núna hins vegar skoðaði ég gengið hjá öllum bönkum og valdi svo þann sem virtist vera með hæsta gengið. Var samt ótrúlega hrædd um að það myndi lækka þessar 5 mínútur sem tók mig að labba í bankann.

Ég fer í bankann og í eyrunum glumdu orðin frá reiðum íslenskum tónlistarmanni yfir allt. Samtalið við bankaagreiðsludömurnar var kostulegt:

(Bankaafgreiðsludaman): Góðan dag

*(Ég) Góðan daginn, ég ætla að taka út pening af breska kortinu mínu og leggja inn á íslenskan reikning.

Hmm ok, ég veit ekki hvað gengið er, allt mjög óljóst?

*Uuuuu hvað er það t.d. núna?

Það breytist eiginlega á 5 mínútna fresti.

*Ok en hvað er það núna...cirka?

245 krónur.

*Ok ég ætla að taka út x mikinn pening af kortinu mínu og leggja inn á íslenska reikninginn.

Hmmm sko það breytist svolítið hratt gengið...ég veit ekki alveg hvað það er, mjög óljóst.

*Uuuuu ok en ég ætla að taka út pening samt hvað sem gengið er næstu mínúturnar (enda í hæstu hæðum hvort sem það lækkar um 10 krónur eða meira næstu sekúndurnar).

(Stúlkan spyr samstarfskonu sína): Heyrðu hvað er gengið núna...? Hin stúlkan svarar: "Veit ekki...mjög óljóst, erfitt að segja til um það"....Hin spyr aftur "Nota ég sölugengið eða kaupgengið eða almenna gengið"? (Svolítið merkileg spurning miðað við bankastarfsmann sem hefur eflaust gert þetta milljón sinnum enda var ég í raun bara að skipta pundum og ekkert annað).

"Sko þetta er allt mjög óljóst".... (ég fékk álíka ræðu og þessa fyrir ofan) og stúlkan spyr hina "Uuuu hvað er kaupgengið á"? "Munar það miklu" spyr hin. Hin stúlkan segir á milli tyggjósmellanna "Tsjáhhh alveg 50 kalli". "Ok notaðu þá bara svona cirka gengið"...."eða EITTHVAÐ".

*Cirka gengi? Er ég ekki að tapa á því ef þið notið Cirka gengi?

Ja sko það er það eina sem við getum gert núna því allt er svo óljóst...

Ég get svo svarið fyrir það.....nú hef ég oft tekið út pening t.d. í Kenya og er ekki viss um að ringulreiðin sé nokkurn tímann jafn mikil og ég upplifði þarna í hádeginu (ok reyndar tekur allt þar 400 sinnum lengri tíma).

Ástandið sem ég upplifði í bankanum var svolítið eins og að horfa á hóp af antilópum sem veit af ljóni rétt hjá...þær eru ekki farnar að hlaupa en eru mjög styggar og varar um sig og stökkva upp af minnsta tilefni, óöruggar um sig og vita ekkert hvert þær eiga að hlaupa.

Fyrir utan bankann voru ljósmyndarar, fréttamenn, lögreglumenn, öryggisverðir...Þetta var sem sé í Reykjavík, í dag.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

barbietec
08. okt. 2008

já.. nú væri gaman að gera verðsamanburð á heilsuvörum hehehehe...

CafeSigrun.com
08. okt. 2008

He he..nákvæmlega

Jóhanna
09. okt. 2008

Þetta er alveg magnað!

Elisabet
09. okt. 2008

Eru allir orðnir snarvitlausir??

hrundski
09. okt. 2008

hahahaahaa þetta er eins og atriði í grínmynd

Hildur
11. okt. 2008

Sæl Sigrún, takk fyrir ótrúlega skemmtilega síðu. Ég er með marokkóska súpuuppskrift sem mig langar að prófa, í henni eru "broad-beans" Getur þú sagt mér hvað það er á íslensku?

CafeSigrun.com
11. okt. 2008

Sæl Hildur og takk...

Broad beans kallast 'Hestabaunir' á íslensku, 'Bondebønner' á dönsku, og 'favas' á ítölsku.

Broad beans eru líka kallaðar 'Fava beans' á ensku...oft auðveldara að finna þær undir því nafni. Þær eru flatar að sjá, ljósgrænar og stundum dökkgrænar. Þær hafa fengist niðursoðnar sem og þurrkaðar t.d. í Hagkaupum...