Ný mynd: Kitheri (afrískur pottréttur)

Ég er búin að vera að hugsa lengi að ég yrði að uppfæra myndina við Kitheri réttinn (afrískur grænmetispottréttur) en hann er einn af þessum stórkostlegu afrísku réttum sem allir geta útbúið og nærir marga með litlum tilkostnaði. Rétturinn er mildur og hentar börnum, þeim sem eru vegan, og/eða með mjólkur-, glúten-, eggja-,  og hnetuofnæmi. Það er saga á bak við baunirnar á þessari mynd en í síðustu viku komu Elín (mágkona) og Borgar (bróðir) með þær færandi hendi. Baunirnar koma langt að, alla leið frá Kenya þar sem þau dvelja með annan fótinn. Baunirnar eru ræktaðar af konu sem heitir Susan en hún á sæg barna. Susan vinnur baki brotnu, frá morgni til kvölds til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þau búa í hrörlegum bárujárnskofa án allra nútímaþæginda. Borgar og Elín hafa reynst þessari konu og fjölskyldu hennar vel eins og þeirra er von og vísa og með þeirra aðstoð er Susan búin að kaupa sér jarðskika og ætlar að byggja stærra hús. Vonandi mun fara betur um þessa duglegu konu sem snertir hjartað í öllum þeim sem henni kynnist. Mér þykir ótrúlega vænt um þessar baunir því þær sýna mér hvað heimurinn er í raun lítill og hve fólk er örlátt þó það ekki sé það efnað á okkar mælikvarða. 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It