Hvernig útbúa skal sultað engifer (Gari)

Fyrir ykkur sem eruð óvön sushigerð þá er Gari (sultað engifer) notað til að hreinsa munninn á milli sushibitanna. Gari á ALDREI að setja ofan á sushibitana þegar maður borðar bitana. Bitarnir svo sem springa ekki ef það er gert, en við skulum vona að enginn Japani sé að horfa á ykkur borða...því svona gerir maður nefnilega ekki í Japan! Frekar en að nudda saman tréprjónum (einn versti ósiður sem maður getur upphaft við matborð Japana) eða að dýfa grjónum nigiri bita (grjón með fiski ofan á) ofan í sojasósuna fyrst (fiskurinn á að fara fyrst ofan í sojasósuna). Það á heldur ekki að hræra saman wasabi við sojasósuna (en ég hef reyndar séð Japana gera slíkt, á sushistað, í Japan og án þess að sushimeistarinn kálaði viðkomandi). Það má nota fingurna við að borða sushi (aldrei hnífapör) en hrísgrjón mega ekki vera í sojasósunni (óhreinindi eru ekki vel séð í sojasósunni). Það má hins vegar nota engiferið til að „pensla“ sushibitana með sojasósu. Það er einnig algjört virðingarleysi að skilja eftir sojasósu í skálinni, hún á alltaf að vera tóm eftir hverja máltíð (og helst hvern bita). Svo er heill kapítuli út af fyrir sig hvernig á að snúa prjónunum svo að maður sé ekki að tákna dauðsfall, blammeringar og ég veit ekki hvað. Það er þó efni í annan pistil. Við Íslendingar erum hins vegar dálitlir hill-billy-ar þegar kemur að sushiáti þannig að enginn tekur eftir því ef maður borðar ekki eins og Japönum sæmir. Það er hins vegar ágætt að lesa sér til um þessa borðsiði áður en ferðast er til Japan :)

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar fólk kaupir tilbúið engifer fyrir sushigerð því það er leikur einn að búa það til heima. Það er algjörlega fyrirhafnarinnar virði því ekki aðeins er það betra á bragðið, heldur er það mun ódýrara (ef þið gerið sushi oft), hollara (ekki hlaðið gervisætu og bleikum litarefnum) og geymist í marga, marga mánuði í krukkunni (en samt ekki of lengi til þess að manni þyki það dularfullt).

Það sem þarf er þetta:

  • Lítill mandolinskeri (eða stór, þarf bara að geta sneitt örþunnar sneiðar, svona eins og venjulegan skrifstofupappír að þykkt)*
  • Stevia dropar (hreinir) eða duft. Ég nota um 3-4 mtsk af stevia fyrir um 350 g engifer.
  • 600 ml hrísgrjónaedik (e. rice vinegar)
  • 1 tsk Himalaya salt eða sjávarsalt
  • 6-7 hreinar krukkur (frekar litlar því þið viljið ekki of mikið í hverri krukku)
  • Stór pottur til að sjóða engiferið í (og til að sótthreinsa krukkurnar)
  • Um 350 g ferskt engifer
     
  • Setjið hreinar krukkur og lok í pott og látið bullsjóða í 10 mínútur.
  • Hrærið saman ediki og salti. Smakkið til með stevia. Það á að vera nánast sjúklega sætt bragð af vökvanum (því hann vegur upp á móti beiska bragði engifersins). Edikið á einnig að vera svolítið salt svo bætið aðeins af salti út í ef jafnvægi beiska, salta og sæta bragðsins virðist vera í ójafnvægi.
  • Flysjið engiferið vel.
  • Skerið sneiðarnar örþunnt.
  • Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.
  • Setjið engiferið í pott og látið bullsjóða í um 5 mínútur.
  • Setjið engiferið í sigti og látið renna af (soðvatnið er ekki notað).
  • Takið krukkurnar úr pottinum með töng og látið vatnið renna af.
  • Fyllið krukkurnar 3/4 af heitu engiferi og hellið svo ediksblöndunni út í þannig að fljóti vel yfir.
  • Lokið krukkunum og geymið í ísskáp í upp undir 6 mánuði.

* Mandolinskerar fást gjarnan í búsáhaldabúðum en geta kostað sitt. Þeir eru þó lífstíðareign ef þeir eru ekki settir í uppþvottavél. Það eru alls kyns gerðir til og best að fjárfesta ekki í þeim ódýrasta. Ég keypti minn mandolin skera á Amazon. Minn er reyndar grænn en liturinn skiptir auðvitað engu.

Engiferið sneitt í mandolinskeranum

Látið renna af engiferinu

Engiferið tilbúið!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
19. júl. 2013

mig langar í sushi NÚNA!!!!

sigrun
19. júl. 2013

Er á plani helgarinnar hér....skal senda smakk í huganum :)

Elva Brá
24. júl. 2013

What ... sushi ... núna um helgina!!!!

sigrun
24. júl. 2013

Bara upphitun fyrir the real thing Elva mín :)