Af sól og sykri

Takk fyrir stuðninginn varðandi síðustu færslu. Ég er að vona að fólk sem stelur efni frá mér verði að pöddum í næsta lífi og að einhverjir (sér til skemmtunar) stígi á þær. Ég veit að ég er vond en miðað við allt sem ég legg í vefinn minn, þá verð ég bara svekkt og sár þegar fólk stundar þetta. Ef þessir fyrrnefndu aðilar væru þeir einu væri þetta ok en ég er mjög víða að sjá (og frétta af) alls kyns stuldi á efni frá mér. Virkilega lélegt. Fólk hefur lagst svo lágt að stela myndum líka án þess að geta heimilda og jafnvel til að nota í auglýsingar. Jebb....svona er hin hliðin á þeim sem „nota“ vefinn minn. Jákvæða hliðin er fólkið sem sendir þakklæti og stuðning en því miður eru rotin epli til staðar.

Nú er vorið/sumarið heldur þetur komið í London. Skólaskrakkarnir svitna undan blazer jökkunum sínum og konur ganga út af fótsnyrtistofunum með svamp á milli nýlakkaðra tána. Það er reglulega ljúft að upplifa sólskin og 20 stiga hita í byrjun apríl. Það hefur verið frekar kalt að undanförnu og gott að fá svolítið D vítamín í blóðið, hita í vöðvana og sól í sálina.

Talandi um vítamín(leysi) og skólakrakka. Á hverjum degi sæki ég Afkvæmið til dagmömmu. Ég fer í strætó og á meðan ég bíð (á sama tíma hvern dag) hrúgast skólakrakkar fyrir utan strætóstoppið. Þetta eru aðallega Harry Potter skólastrákar. Beint fyrir framan strætóstoppið er sjoppa (eða það sem við köllum „Indverjabúð“ en það eru mjög miklir fordómar að tengja svona búðir endilega við Indverja því það getur vel verið að t.d. Pakistanar reki þær. Við erum bara of vitlaus til að vita muninn). Þetta er ágætis sjoppa, snyrtileg og hrein og selur flest sem vantar svona í neyð eins og te (Bretar myndu deyja ef þeir ættu ekki te í bollann sinn), WC pappír, kúlupenna og ljóta blómvendi með pínulitlum blómum sem eiga að vera rósir. Þeir selja líka sælgæti og nóg af því. Þetta sælgæti borða skólastrákarnir... og nóg af því. Ég sé sömu strákana á hverjum einasta degi, alltaf með sælgæti í höndunum. Þeir hrúga í sig súkkulaðistykkjum, einhverju sykurdufti í löngu, löngu röri (mjög vinsælt), karamellum, súkkulaðiíspinnum o.fl., o.fl. Ég fæ sykursjokk bara af lyktinni sem kemur af sælgætinu. Ég hef verið að horfa í kringum mig í strætó og á götunum. Iðulega og ég meina í svona 85-95% tilfella eru börn á öllum aldri að japla á sælgæti. Ein móðirin í strætó um daginn var að fóðra um ársgamla krakkaklumpinn sinn á hvítum súkkulaðibitum (White Chocolate Drops). Ég sé iðulega börn sem eru hálf tannlaus (því þau eru það ung) að naga súkkulaði, kremkex eða sykursnúða. Í dag sá ég t.d. eitt krógann sem var enn að slefa, með KitKat. Þetta eru ekki svona „féló“ börn þ.e. ekki endilega þó þau leynist inn á milli. Það virðist engu máli skipta hvaða þjóðfélagshópi fólk tilheyrir því það er ekki síst konurnar og karlarnir í teinóttu skyrtunum með lillabláu- og bleiku peysurnar á öxlunum sem gefa börnunum sínum sælgæti og drasl. Og það er ekkert barn sem virðist geta verið án Ribena sykursullsins. Ef það er ekki sykurinn eru það kartöfluflögurnar sem eru svo sniðuglega markaðssettar að þær koma í 30 gr pokum sem er akkúrat skammturinn fyrir skólakrakkana.

Hvað verður til þess að foreldri gefur barni sem getur ekki einu sinni talað, súkkulaði eða sleikibrjóstsykur? Ég kemst bara ekki alveg yfir þetta. Afkvæmið, 18 mánaða veit ekki einu sinni hvað þetta er, hvað þá hvaða nafni þetta heitir. Ef hún er svöng seinni partinn, fær hún hafrakex til að maula á, og vatn að drekka. That‘s it. Svo fær hún heitan, heimatilbúinn og hollan kvöldmatinn þegar hún kemur heim. Ef hún vill ekki hafrakex er hún ekki svöng. Á morgnana þegar hún fer út fær hún stundum epli, banana eða döðlur. Það fer dálítið eftir bleiustöðunni (þ.e. því sem kemur út he he). Ef það er kæfubleia (mjög stíft) fær hún t.d. döðlur eða Cheerios en ef það er guacamolebleia getur verið gott að gefa banana eða epli o.s.frv. til að stemma af. Það er einhvern veginn það eðlilega í stöðunni finnst mér að rétta líkamann af með náttúrulegum leiðum. Alsæl maular hún á þessu „sælgæti“ og drekkur vatn með (sem er gott til að skola náttúrulega sykurinn sem sest á tennurnar á milli mála).

Kannski kemur að því að Afkvæmið biður um súkkulaði, eða frostpinna eða brjóstsykur. Kannski mun hún smakka slíkt (ekki hjá okkur þó) og finnast gott. Það er ekki mikið sem hægt er að gera nema að bjóða upp á hinn kostinn alla hina dagana, þann holla.

Ætli skólastrákunum hafi einhvern tímann dottið í hug að borða epli eða banana í staðinn fyrir sælgæti? Ætli þeim hafi verið boðið það einhvern tímann eða ætli þeir kjósi sælgætið alveg sama hvað? Kannski hefur þetta allt með uppeldi að gera, kannski hefur þetta með aðstæður og hópþrýsting að gera. Ég veit sjálf hvað er erfitt að hætta að borða sælgæti 12 ára. Mig langaði aldrei í það aftur eftir að ég hætti en það var með ólíkindum hvað aðrir voru forvitnir um ástæður o.fl. Ég hugsa að það hefði verið auðveldara að vera 12 ára og hætta að reykja. Fólk hefði látið mig í friði en ekki með sælgæti, ó nei. Ég minntist aldrei á það sjálf að fyrra bragði að ég borðaði ekki sælgæti en það var fljótt að spyrjast út.

Á hverju einasta kvöldi á mínum yngri árum skar pabbi minn niður ávexti skál. Hann skar annað hvort epli eða appelsínu eða hvoru tveggja og maulaði yfir sjónvarpinu. Aldrei var sælgæti eða kartöfluflögur eða slíkt sem fór í skálina hans. Bara þetta eina litla atriði skiptir sköpum því mér þykir sjálfsagt að skera niður ávexti og maula yfir því sem ég er að gera í tölvunni (ég á jú ekki sjónvarp).

Þessir strákar búa í landi sem selur ekki fjórar eplategundir í matvörubúðinni heldur 20. Sama gildir um aðra ávexti, svo mikið úrval, allt ferskt og mikið til af lífrænt ræktuðum afurðum. Ég ætla ekki að vera skrýtna konan sem býður skólastrákunum upp á epli en mikið langar samt til að spyrja þá út í neysluvenjur heimilisins. Ég er svo óskaplega forvitin (svona eins og þegar ég reyni að sjá hvaða óhollustu fólk er að kaupa í matvörubúðinni).

Mér skilst að Íslendingar séu litlir eftirbátar Breta hvað sykurneyslu varðar (allt þetta jógúrt/skyr-sykursull er auðvitað skelfilegt) en það væri gaman að vita hvað íslenskir unglingar borða á leiðinni heim til sín úr skólanum. Ég hef nefnilega ekki hugmynd.

P.s. held ég sé sólbrunnin eftir daginn.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
07. apr. 2011

Þetta er hræðilegt finnst mér. Rachel Ray sagði í einum sinna þátta að hún hefði stundum verið að kynna grænmetisfæði í verslunum á árum áður. Börnin voru stundum forvitin og vildu smakka en þá sögðu foreldrarnir oftar en ekki áður en krakkarnir fengu færi á að smakka ,,nei elskan, þú borðar ekki svona"

sigrun
08. apr. 2011

Það er hrikalegt Melkorka!!!! Þetta heitir að kæfa góða siði í fæðingu!

Gunnhildur
08. apr. 2011

Jiii, já það er hrikalegt ef foreldrar eru að hindra barnið í að prófa grænmeti!!! Sem betur fer kem ég af góðu heimili þar sem mér var kennt að borða hollan og góðan mat á hverjum degi en ekki sykurdrasl í öll mál. En það sem mér finnst svo forvitnilegt er að af hverju er verið að troða salti og sykri í allar matartegundir?? af hverju þarf þetta að vera og af hverju er ekki meira úrval af ósykruðum jógúrtum og skyri? af hverju hafa fyrirtækin ekki metnað fyrir því að búa til hollar en bragðgóðar vörur??
Ég segi stolt frá því að krakkarnir mínir biðja mig um ávexti milli mála en ekki kex eða sælgæti - og mín von er að þau beri þetta áfram fram á fullorðinsaldur og geti kennt sínum börnum þetta líka :)

En lokapunkturinn er samt sá að þökk sé síðum eins og þessum erum við alltaf að fræðast meir og meir. Það er mjög margt sem ég hef lært af cafe sigrún og mun halda áfram að læra. Ég er búin að gera ótal uppskriftir af vefnum (sem voru allar góðar!!) og þegar fólk er að tala um hvar sé hægt að finna hollar uppskriftir bendi ég alltaf á þessa síðu því hún er einfaldlega BEST !!!

sigrun
08. apr. 2011

Takk fyrir hrósið Gunnhildur :)

Þetta er mikið til spurning um vana og fyrirtækin vita það svo sannarlega. Ef börn eru vanin á salt og sykrað bragð í æsku vilja þau ekkert annað. Ég útbý allt mitt jógúrt sjálf með hreinu jógúrti og ferskum ávöxtum sem ég mauka og Afkvæmið þekkir ekkert annað. Ef hún hefði verið vanin á sykrað jógúrt með gervibragði myndi hún líklega ekki vilja neitt annað :(

gudrunh
08. apr. 2011

Mér hefur ávallt fundið sérstakt hvað fólk á auðvelt með að setja ofan í sig allskyns fæðu án þess að huga nokkuð af áhrifunum. Svo þorir sama fólk varla að fá sér eina verkjatöflu "af því það tekur sko aldrei solleiðis" - æ þið skiljið - en raðar síðan ofan í sig, já, allskyns jukki...

Gæti ekki verið þakklátari fyrir svona síðu og þetta hefur áhrif, það er á hreinu, þið eruð að vinna frábært starf og vona þið vitið það og finnið!

Kærar þakkir fyrir mig og mína.

Guðrún

Anna Stína
08. apr. 2011

Halló og takk fyrir spjallið áðan!!

Uppeldið skiptir svo miklu, við vitum það. Okkar börn, eins og þín, kjósa ávextina númer eitt - frosin vínber eru í algjöru uppáhaldi og eru þeirra nammi. Uppáhaldsgræja græjusjúka gaursins er safavélin góða og hann eeeeelsakar hana.

Bróðir þinn kennir börnum á haustin að borða með hnífapörum !! Það segir eitthvað. Krakkar og unglingar borða afar sjaldan, sum nær aldrei, með hnífapörum eða með fjölskyldunni ef því er að skipta. Sum eru að vísu á sínum íþróttaæfingum á þessum tíma - þeim til varnar. En, þetta þarf hann nú að kenna þeim !! Og morgunmatur ... hvað er það ?? Ekki eitthvað sem þau almennt þekkja - hvað þá í skál og án þess að moka sykri yfir !!

Jamm, blessuð börnin okkar eru kannski bara mjög heppin ;-)

sigrun
08. apr. 2011

Ó lord, talandi um "nammideildina" (morgunmatshillurnar í matvörubúðinni)....ég hugsa að fá bresk börn borði hollan morgunmat, svona miðað við hvað þau láta ofan í sig yfir daginn. Miðað við að börn hér hitta foreldra sína takmarkað eða lítið á kvöldin (vegna þess hvað samgöngur taka langan tíma) myndi ég trúa því að hnífapör séu lítið notuð...eða þá bara notuð til að opna örbylgjumatinn sem barnfóstran hefur til...ok kannski alhæfing en you get the picture&;:)

Hrönna
08. apr. 2011

Það sem mér fannst einna skrýtnast þegar ég bjó í englandi voru litlu pokarnir með kartöfluflögunum sem voru keyptir í nesti í skólann, hef aldrei fattað þá hugsun að senda barnið sitt með kartöfluflögur og nammi og ætlast til þess að því líði vel í skólanum, hvernig er það hægt á svona fæði? Þegar ég var í barnaskóla mátti ekki koma með snúð eða kökubita en nú veit ég ekki hvernig það er í dag, væri gaman að vita hvernig því er háttað í íslenskum skólum núna.

sigrun
08. apr. 2011

Nákvæmlega. Svo 'sniðug' markaðssetning hjá framleiðendum auðvitað, þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera.

Ég veit ekki hvernig þetta er í barnaskólum í dag en það væri gaman að vita.

Gunnhildur
08. apr. 2011

Í grunnskólanum þar sem börnin mín eru mega krakkar koma með hvað sem er nánast. T.d. engjaþykkni sem er ekkert nema sælgæti - stútfullt af sykri, en foreldrar halda að þetta sé hollt og gott en þau gætu alveg eins sent börnin með snickers... Einnig er samlokugrillið notað mikið - tískan er víst brauð með osti, skinku og mikið af kokteilsósu eða pítusósu.... :(
Hins vegar eru einstaka grunnskólar farnir að taka af skarið og gefa börnunum ávexti og grænmeti í morgunkaffi og ég er mjög ánægð með það. Einnig eru hjallastefnuleikskólar mjög duglegir að gefa börnunum ávexti og grænmeti.
Vildi bara óska að ávextir og grænmeti væri ódýrara þannig að hægt væri að gefa þeim ennþá meira !!!

sigrun
12. apr. 2011

Trúi varla að börn megi borða engjaþykkni....oj bara.

Hólmfríður Gestsdóttir
11. apr. 2011

Í leikskólanum hjá minni er alltaf ávaxtatími 2x á dag, 1x miðmorguns og svo eftir kl 4 á daginn. Síðan er hádegismatur sem er alltaf heitur matur, yfirleitt tiltölulega hollur. Síðan er kaffitími og þá er nú heldur lélegri kostur á boðstólum, held það sé nú ekki valið það alóhollasta en samt svona samsölubrauð og hrískökur og þessháttar svona næringarsnautt dót eitthvað. En í heildina ekki svo slæmt. Hvað skólann varðar þá fara börnin sjálf með nesti þannig að maður stjórnar því dálítið. Mín fer oftast með ávexti og svo kannski smáskyr eða eitthvað annað þægilegt. Síðan er heitur matur og það verður að segjast að ég er ekkert sérlega sátt við hvernig haldið er á málum þar, oft eitthvað á borð við kjötbúðing eða annan unninn óþverra sem ég læt aldrei inn fyrir mínar varir og býð börnunum aldrei upp á. Ég er einmitt að hugsa um að ræða þetta við aðra foreldra og ýta á skólastjórann að skipta við aðra birgja, það má svo vel gera betur.

sigrun
12. apr. 2011

Ok maður hefur heyrt verra en hádegismaturinn hljómar samt eins og mikið unnið drasl. Skelfilegt að börnin þurfi að þola þennan 'fangamat'.

HuldaJons
12. apr. 2011

Eg er nykomin fra Bretlandi og tok eftir thvi hvad Bretar voru feitir margir hverjir (tok minna eftir thvi thau skipti sem eg hef verid i London) a ferdum minum um landid. Bornin voru lika alltof feit fannst mer.

Thetta er a abyrgd foreldranna og their vita oft ekki betur eda eru tyndir i heimi thar sem auglysingamennskan ruglar folk daglega.
Kannski er thetta abyrgd stjornvalda thegar ollu er a botninn hvolft...eg veit thad ekki.

Eg virkilega vona ad thad verdi hægt ad mennta og fræda folkid, thvi hver vill vera slæmt foreldri? Ju, nokkrir sækopatar en langstærstur hluti folks gerir thetta ekki af illgirni, ad gefa bornunum ohollustu.

Svo verd eg ad koma thvi ad ad eg nota uppskriftirnar thinar mikid og finnst thær mjog godar margar hverjar. Mer finnst thu hinsvegar dalitid hord i blogginu thinu (bædi domhord og hord i tali) og mer finnst thad varpa skugga a annars mjog goda sidu ad tala um "kroga" sem fekk Kitkat og tala um "feloborn".
Hægt ad finna onnur ord til ad lysa sama hlut.

sigrun
12. apr. 2011

Já það má segja að Bretar séu 'feit' þjóð (skárst í London þó en verst í norðurhluta Englands) og það versta er að Íslendingar eru engu skárri. Ég hef því miklar áhyggjur af þróun mála.

Bloggið er mínar persónulegar hugrenningar og ég er bara ég og nota orðalagið sem ég hef notað í mörg, mörg ár......svona er ég bara. Ég t.d. nota 'króga' og 'skrípi' um dóttur mína líka (og tala alltaf um hana sem 'Afkvæmið' í blogginu mínu, aldrei með nafni) en það er aldrei illa meint, ekki frekar en um önnur börn. Held að þarna sé auðvelt að misskilja út frá samhengi.

Stundum eru einföldustu orðin þau þægilegustu eins og t.d. 'félóbörn' því 'börn sem tilheyra þeim þjóðfélagshópi sem eru undir í lífinu og eiga foreldra á bótum' er kannski óþarflega flókið. Ég tala nú annars yfirleitt ekki niðrandi né móðgandi um annað fólk, svona miða við ara a.m.k. Hafðu t.d. í huga að ég lýsi fólki yfirleitt ekki sem 'feitu' heldur 'of þungu' nema ég sé að vísa beint í frétt eða beint í aðra (eins og ég vísaði í þinn texta hér að ofan). Það má því segja að þú sért kannski dómhörð líka? Sem er allt í lagi en ég held að þetta sé spurning um málfar og misskilning. Á mínu heimili var oft talað um króga og krakkaskrípi (og ekki í slæmri merkingu) og ég geri það sjálf. En þetta er ég, take it or leave it :)

Tóta
20. apr. 2011

Takk fyrir frábæra síðu. En þetta með börnin og ungmennin er mér hugleikið mál, ég er kennari og það sem sum börnin koma með í nesti er hræðilegt ! Vissulega koma flest börnin með hollan mat, ávexti og grænmeti, en það er annar flokkur það eru "heilsudrykkirnir" sem eru uppfullir af gerviefnum og viðbjóði. Ég hef séð börn niður í 6 ára koma með próteindrykki í nesti.

En ég er ansi hrædd um að ástandið eigi eftir að versna hér á landi með aukinni efnahagskreppu. Fátæka fólkið velur sér "ódýran" unninn mat á meðan efnaðra fólkið getur keypt sér grænmeti, ávexti og lífrænar vörur.

sigrun
21. apr. 2011

Það er hrikalegt að heyra þetta og já ég held að það sé rétt, bilið á eftir að aukast. Mjög svo sorgleg þróun.