Ísöld

Veit ekki hvar þetta endar eiginlega. Það er orðið dáldið kalt í London. Það er spáð næturfrosti á morgun. Brrrrrr. Það er búið að kaupa 4 litla blástursofna til að hita skrifstofuna. Þeim líst ekkert á bláa böggulinn með trefilinn í öllum peysunum í horninu (mig). Þeim finnst ég eitthvað kuldaleg. Reyndar komst ég að því að loftkælingin er búin að vera á í nokkra daga. Ekkert skrítið þó mér hafi verið kalt. Slökkti reyndar á henni. Fann samt engan mun :( Ég fór í ræktina í morgun og setti hitann í botn á sturtunni. Það var ekkert nóg. Ég er búin að horfa löngunaraugum á saununa í ræktinni þegar mér er svona kalt og í morgun fór ég bara inn í saununa og þurrkaði mér þar. Mmmmmmmm. Það var um 40 °C hiti þar inni og ég er búin að komast að því að það er kjörhitastig fyrir mig þegar mér er svona kalt. Langaði ekkert út úr saununni, langaði bara að leggjast á bekkinn, með handklæðið ofan á mér og hvíla mig í smá stund, í hlýjunni. Það var skammgóður vermir þó því mér var orðið kalt aftur þegar ég kom fram :(

Jóhannes er viss um að ef að kviknaði í húsinu, þá myndi ég bjarga dúnsænginni minni (mmmm dúnsængin) áður en ég myndi bjarga honum. Ég benti honum á að það væri alls ekki rétt, hann þyrfti að halda á dúnsænginni minni út svo hún kæmist örugglega út heil og ósködduð svo ég myndi eflaust sparka í hann ef kviknaði í :)

Er að spá í, þegar ég fer í hnéaðgerðina 8. desember, að biðja þá um að endurþræða alla víra í mér og athuga hvort það lagi ekki eitthvað hí hí. Já aðgerðin, komst að því að ég verð ekkert á fína spítalanum :( verð hérna í næstu götu (það eru 15 spítalar í 1 km radíus í kringum okkur). Erum svona að spá í hvernig ég komist heim eftir aðgerðina því það er eiginlega of stutt að fá leigubíl (tekur 2 mín að labba) en ég á eflaust ekki eftir að geta labbað. Kannski spurning um að stela innkaupakörfu og rúlla mér bara.

En jæja ég ætla að fá mér te og kveikja á öllum ofnunum á skrifstofunni, kannski að ég komist í eðlilegan líkamshita he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Þóranna
22. nóv. 2005

Þessi færsla passar líka voðalega vel við jólaskrautið á Regent Street sem er einmitt: Ice Age ;)