Sushi-isti

Hæ ég heiti Sigrún og ég er Sushi-isti. Ég hugsa stanslaust um sushi, þegar ég er nýbúin að fá sushi þá er ég byrjuð að hugsa um næsta skammt. Hef vaknað um miðjar nætur og hugsað um sushi. Ég heyri tónlist og sé fallega liti þegar ég hugsa um sushi. Allt verður gott og fallegt ef maður borðar sushi. Svei mér þá ef fólk fríkkar ekki við fyrsta sushibitann sem maður borðar. Ok sumir myndu segja að ég þjáist af joðskorti en fíknin lagast ekkert alveg sama hvað ég borða mikið sushi. Hef prófað að borða þangblöðin eintóm en það virkar heldur ekki. Hélt kannski að það væri ódýr leið út úr sushifíkninni en það reyndist vitleysa.

Besta sushiið sem ég fæ er hjá Borgari bróður og Elínu, við gerum sushi næstum því í hvert skipti sem ég kem til Íslands (sem er einu sinni í mánuði) og þau eru sushi meistarar með stóru M-i. Þau gera besta sushi í heimi og lærðu af kanadískri konu sem er víst afar fær sushigerðarkona Ég hef borðað á mörgum sushistöðum en þau gera samt besta sushiið. Við reynum alltaf að prófa eitthvað nýtt og spenningurinn er svo mikill í okkur að við erum öll á iði, hálfpartinn dansandi með tryllingsglampa í augunum, brosum mjög skrýtnu brosi, nánast geðveikislegu. Þetta er svokölluð "sushieftirvænting".

Það er einn stórhættulegur staður í London því maður borgar sig inn og svo borðar maður það sem maður getur í sig látið af sushi. Það kostar 13.50 pund (um 1500 krónur) og fyrir þetta getur maður setið, við færiband og staflað í sig sushi. Svo getur maður líka fengið núðlur og misosúpur. Þetta er náttúrulega bara snilld. Staðurinn heitir Gili Gulu (þýtt sem "Færiband dauðans" af Freysa vini okkar) og er á horninu á Monmouth Street og Tower Street í Covent Garden.

Hér áður fyrr fórum við á Yo Sushi sem er líka færibandastaður en vandamálið með hann er að maður þarf að borga fyrir hvern disk og endar því upp með ansi háan reikning. Á Gili Gulu borgar maður sem sagt eitt verð og étur á sig gat. Yo Sushi er með fínna sushi (meira lagt í hvern bita) en Gili Gulu er samt alveg í góðu lagi fyrir þetta verð. Sérstaklega þegar maður er búinn að fara oftar en 25 sinnum *roðn* og er hættur að telja *roðn*, *roðn*.

Við erum nú ekki mikið fyrir að troða í okkur mat en maður getur ekki hætt að borða sushi á Gili Gulu. Reyndar þegar maður er orðinn það saddur að maður finnur gubbubragð í munninum þá langar mann ekkert voðalega mikið að horfa á sushibitana fara endalaust fram hjá nefinu á manni he he. Þá bíður maður bara smástund og byrjar aftur! Vil taka það fram að ég borða ALDREI svona mikið af öðrum mat, bara sushi. En hey ef maður spáir í það þá hlýt ég að verða voða langlíf fyrst Japanir eru einna langlífastir og þeir eru jú sushiuppsprettan!

Jóhannes á eftir að koma fyrirtækinu á hausinn, held að það sé nokkuð ljóst. Hann staflar iðulega um 25 diskum í fallega, litríka súlu við hliðina á sér. Ég er farin að dreifa diskunum á þá sem eru með okkur því ég skammast mín. Jóhannes er kallaður "Svartholið" eða "Gámurinn" af vinum okkar og það er enginn sem hefur við honum í sushiáti, þar er hann með svarta beltið (eða í áti yfirleitt). Sem betur fer þá fer hann í líkamsrækt 5 sinnum í viku til að brenna öllu þessu sushi. Þetta myndi enda illa annars.

Í fyrsta skipti sem við smökkuðum sushi, þá vorum við hér í London (í fyrstu London ferðinni okkar árið 1997). Við fórum inn á pínulítinn stað í Soho þar sem gamall kokkur stóð fyrir innan lítið borð og inni á staðnum var einungis pláss fyrir 5-7 manns. Við horfðum á gamla sushimanninn búa til sushi og svo kom að því að borða þennan skrítna mat. Við settum einn bita upp í okkur hvort og sennilega hafa bragðlaukar gamla mannsins verið ónýtir því við grenjuðum úr SÁRSAUKA. Hann hafði sett svo mikið wasabi (piparrót) að okkur varð verulega illt í nefinu, það lak allt úr því sem lekið gat, tárin stóðu úr augunum á okkur í stríðum straumum og við náðum varla andanum, sviti spratt fram í hársverðinum og við urðum eldrauð í framan. Þetta var þó ást við fyrsta bita því við gátum ekki beðið eftir að fá næsta skammt!

Mig langar svo mikið í sushi núna að ég er með svona nettan skjálfta (þarf ég hjálp?). Fékk samt sushi síðasta laugardagskvöld, á Gili Gulu í boði Gróu frænku (sem gisti hjá okkur um helgina með Siggu dóttur sinni). Takk fyrir okkur.

Vissuð þið að til að verða fullgildur sushikokkur í Japan þarf maður að stunda sushinám í 7 ár, í háskóla! Ég veit að ég væri sérlega dugleg að læra heima. Jóhannes myndi nú sennilega borða allt heimanámið mitt þó.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
26. apr. 2005

þegar þu kemur næst viltu þá gera sushi ég á blöðin og til að vefja upp með bara að kaupa hráefnið Borgar og co meiga vera lika bless

Anna Stína
27. apr. 2005

Sushi smushi !! Verð endilega að prófa sushi sem hentar mér og mínum matar"þörfum" - úr því maður getur fengið einhvern trylling út úr þessu, brjálæðisglampa í augun og dansað stríðsdansa !! Kær kvejða AKM

Kristján
26. sep. 2006

JÁ!! Í japan borða allir daglega sushi og það er ekkert að því það er mikklu hollara enn einhverjir skyndibitar :) Og ég er ennþá að leita að sushi búð þar sem hægt er að kaupa svona vörur eins og hrísgrjóna hita vél. Sushi er cool!

CafeSigrun.com
26. sep. 2006

Þú getur keypt allt til alls í litlu japönsku búðinni á Brewer Street í London ef þú ert á ferðinni. Sushigrjónavél, blöð, engifer, wasabi, 20 kg grjónapoka, flugfiskahrogn (nauðsynleg), svört sesamfræ, ljós sesamfræ, plastílát til að búa til flotta laxabita, sushimottu og ég veit ekki hvað og hvað (ýmislegt skringilegt líka eins og eitthvað nammi sem lítur út eins og silokonfylling í brjóst hahahahaha). Búin að tala of mikið um sushi núna, er komin í mikla sushiþörf. Sem betur fer eru sushi 'skyndabitastaðir' allt um kring hér í London.....