Bloggið

Jæja, hvar er vorið

Mér er bara spurn sko. Það snjóaði á okkur í morgun kl 6 þegar við trítluðum í ræktina. Það er 17. MARS. Það er heitara í Reykjavík en í London (eitthvað sem er afar erfitt að útskýra fyrir fólki hér á skrifstofunni). Jóhannes þurfti að hjálpa mér í peysu nr. 5 í morgun því ég var orðin eins og Michellin man og gat ekkert mikið hreyft mig fyrir fötum. Það snjóaði líka í gær :( Þetta er orðinn lengsti vetur í manna minnum hér í London. Það er svo sem ekki snjór neins staðar en það er svona snjófjúk sem fer yfir öðru hvoru, svona eins og snjórigning.

En af Penelope myndinni er það að frétta að nú er búið að loka öllum götum við húsið okkar og í dag eru lokatökur á svæðinu og eru það eingöngu útitökur. Finnst glatað að ég sé ekki heima í dag, eða Jóhannes til að fylgjast með framvindu mála. Hefði verið gaman sko. Ætli við verðum ekki bara að bíða þangað til myndin kemur út. Ji hvað það verður spennandi.

Þetta verður bissí helgi eins og oft áður. Við ætlum að hitta Marie og Pete, áströlsku vini okkar á sunnudaginn og ætlum að kíkja með þeim eitthvert út að borða. Við þurfum bæði að vinna, við ætlum í ræktina, við þurfum að fara í búðina, ég ætla að elda eitthvað gott og svo þurfum að fara í smá fataleiðangur á sunnudaginn fyrir Afríkuferðina í næsta mánuði. Svo er auðvitað alltaf skylduferð á kaffihús. Við keyptum helling af fötum á mig í gær (það er mjög notalegt að versla á fimmtudagskvöldum, það er opið lengur í búðum og mjög lítið af fólki, ólíkt helgunum). Keypti buxur, helling af skyrtum og bolum og fleira aðallega í Esprit (æðisleg búð) og svo í H & M. Gat keypt helling og sett í einn poka því allt var svo þunnt :)

Það var hálf asnalegt að labba heim með poka fullan af léttum sumarfötum í gær. Ætli snjói ekki bara í Mombasa líka :( Jóhannes segir að ég eigi að taka með mér einna ullarpeysu svona til öryggis. Var reyndar í flíspeysu allan tímann síðast þegar ég var í Afríku en það var ekkert svo heitt þá og ég var lasin í þokkabót.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Mildreds

Já við fórum á fínan grænmetisstað síðustu helgi sem heitir Mildreds. Höfum lengi ætlað að fara á hann og ákváðum svo að láta verða af því um helgina. Staðurinn er sko rosa góður og maturinn var mjög fínn en hann var heldur dýr svona miðað við að þetta var eingöngu grænmeti og skammtarnir ekkert risastórir (alveg nóg fyrir mig samt). Það sem pirrar mig bara svo oft á veitingastöðum, sérstaklega svona þar sem allt er lífrænt ræktað og eitthvað fabulous er glataður borðbúnaður og dæner fílingur. Ég fæ alltaf svona á tilfinninguna að feitir trukkabílstjórar hafi nýlega verið þar og prumpað í stólana, hrist flösuna á borðið og þurrkað hor á borðið og svoleiðis (ekkert á móti trukkabílstjórum, er meira að hugsa um svona í amerísku bíómyndum). Ég veit að svo er ekki í þessu tilfelli en sama er.

Mér finnst að það verði að huga að öllum smáatriðum á svona stöðum, prentaðar servíettur með logoi, tómatsósta sem er ekki í glataðri ikea plastflösku heldur í svona gorgeous gleríláti, ekkert á að vera eins en samt í stíl, æi svolítið hippalegt og lífrænt, þið vitið hvað ég meina. Svoleiðis sér maður reyndar á mörgum stöðum en ekki þessum. Mér fannst alveg vanta svoleiðis fíling. Ég fékk mér grænmetis karrírétt og Jóhannes fékk sér burritos, alveg prýðilegur matur en ekkert sem ég hefði ekki getað eldað heima. Eitt sem ég skil aldrei. Afhverju, ekki einu sinni, ekki í eitt skipti er hægt að fá sykurlausar kökur eða hreina ávexti. Hvað er málið eiginlega? Ég bjóst við að fá eitthvað svoleiðis girnilegt á þessum stað en það var ekki raunin :( o jæja við eigum samt örugglega eftir að fara aftur á þennan stað.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Aaaaaaaaand Actiooooon!!!!

Þessi orð glumdu yfir hverfið í gær sem og Aannnnnnd CUT. Það er rosa gaman að fá beina útsendingu svona í gegnum stofugluggann. Ég get upplýst að í myndinni Penelope verður atriði þar sem Christina Ricci hleypur út af ískri krá og þar bíða hennar ljósmyndarar og aðdáendur (leikarar) og hún hoppar upp í svartan bíl (amerískan dreka) og kallað er á eftir henni Penelope, Penelope!! Þetta atriði var sem sagt endurtekið nokkrum sinnum og við sáum Christinu Ricci hlaupa nokkrum sinnum út í bílinn. Kráin er bara í 20 sekúndna göngufjarlægð svo við vorum með gott útsýni. Svo nota aukaleikararnir pöbbinn á móti sem bækistöð svo ég er farin að þekkja nokkra þeirra í sjón. Ekki góð vinna fyrir alkahólista he he. Við erum annars svo posh að við erum ekki með sjónvarp, við látum bara leika allt fyrir okkur beint. Er að vona að við sjáum Reese Witherspoon líka, væri gaman. Verst að vera ekki með fínu, góðu linsurnar okkar, hefðum alveg getað náð góðum myndum.

Bjó annars til rosa góðan rétt í gær, gerði svona franskar pönnukökur (Crepes) með grænmeti og bygggrjónum innan í, í sinnepssósu. Rooosa gott og hollt. Mæli alveg með þeim. Ekkert flókið að búa til ef maður býr til nokkrar aukapönnsur þegar maður bakar pönnsur (sleppa bara vanilludropunum og kaffinu í pönnsuuppskriftina).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sjónvarpsstjarnan

Veiiii Jóhannes var í sjónvarpinu. Sko þetta er dáldið flókið. Hann var sko á ljósmynd sem birtist á sjónvarpsskjá sem var á tölvu sem var í sjónvarpinu sem við sáum í gegnum Internetið. Það var sem sagt viðtal við Borgar bróður út af Afríkuferðunum. Myndin var af Jóhannesi sem var tekin þegar þau voru að koma niður af Mt. Kenya í síðasta mánuði. Þetta kom rosa vel út bara. Hér er tengillinn á þáttinn 6-7 (gæti hökt svolítið á netinu). Smellið á 14.03. Borgar kemur eiginlega alveg aftast í þættinum eða svona í síðustu 20 mínútunum held ég.

Ég var nú að vona að við yrðum frekar beðin um að vera með í Penelope myndinni en þetta er svo sem ágæt byrjun he he Gerði annars pönnsur í gær og opnaði alla glugga en allt kom fyrir ekki. Enginn bankaði upp á :( Sá samt að lögguþjónarnir bústnu sem stóðu út á götuhorninu í flóðlýsingunni af kösturunum, líklega að passa upp á Hollywoodleikonurnar, litu ansi oft í átt að glugganum. Þeir hafa verið sársvangir greyin. Jóhannes tímdi ekki pönnsum á þá.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Tryggggggðððð

Loksins, loksins. Nú getum við farið út úr húsi án þess að naga neglurnar og svitna. Við erum sem sagt búin að tryggja innbúið okkar en innbúið okkar samanstendur reyndar af myndavélum og tölvum. Tryggingarkonan spurði okkur um sjónvörp, dvd spilara, græjur og þess háttar en við eigum ekkert svoleiðis. Við eigum heldur ekkert inni í íbúðinni (svo sem eins og sófasett, stofuborð, rúm o.s.frv.) nema kannski í eldhúsinu því þar er eiginlega allar okkar eigur (fyrst þeir tóku ekki kaffivélina hans Jóhannesar síðast þá taka þeir hana varla næst he he). Við höfum reyndar falið dótið okkar þegar við förum út úr húsi (segi ekki hvar) svo þetta sé ekki ALVEG eins auðvelt og það var fyrir þá síðast (allt dótið okkar var á stofuborðinu) en það er mikill léttir að allt sé orðið rammlega tryggt. Það þýðir auðvitað að það verður ekkert brotist inn. Sem er svo sem ágætt. Svo spurði konan okkur voða mikið um hurðina okkar og komst að því að hún væri líklega orðin brynvarin, svo örugg væri hún, myndi sennilega þola allt nema sprengjuárás.

Sáum í morgun að upptökur á Penelope eru byrjaðar hérna úti. Ég slétti á mér hárið og setti á mig auka gloss og maskara en allt kom fyrir ekki, var ekkert gripin sem extra sko. Ekki Jóhannes heldur (hann reyndar setti ekki á sig maskara eða gloss). Spurning um að vera heima á morgun og baka bara. Get þá látið hárið flaksast dáldið í leiðinni, út um eldhúsgluggann. Hlýtur að virka.

Ætla að baka pönnukökur í kvöld (var búin að lofa Jóhannesi að kaupa alvöru rjóma á Íslandi og baka fyrir hann pönnukökur) og koma þær í staðinn fyrir pönnukökurnar á Pancake Day (sem Jóhannes missti af) og bollurnar á bolludaginn íslenska (ég vil ekki búa til bollur, þær eru svo óhollar og mér hefur ekki tekist að gera þær hollar OG góðar). Reese Witherspoon og Christina Ricci hljóta að falla fyrir íslenskum pönnsum og rjóma.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nokkrar nýjar uppskriftir á CafeSigrun

Æ já ég lofaði að birta uppskriftirnar þegar þær væru komnar inn.

Hér eru nokkrar af þeim sem ég hef sett inn síðustu vikur:

Ólífubrauð með pestó og marmesan

Kókosbrauðbollur með pistachio- og heslihnetum

Tómatsúpa frá Zansibar

Thailenskur kjúklingur í hnetusósu (Satay)

Frosin Jesúterta

Sesamtoppar

Og ein ný mynd af eldri uppskrift

Hawaii ananasmuffins

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hollywood og Langham Street

Jæja loksins verðum við uppgötvuð...kannski allavega. Við fengum miða inn um lúguna okkar í gær og á honum stóð "Penelope". Ég ætlaði að fara að henda miðanum, hélt þetta væri ruslpóstur en þá var þetta póstur sem var dreift í alla götuna. Það á sem sagt að loka götunni eitthvað í þessari viku þar sem upptökur fyrir bíómynd eiga að fara fram. Myndin heitir sem sagt Penelope og það er frægasta kvikmyndaver Bretlands (Pinewood Studios) sem sér um upptökurnar og allt það. Þetta verður rosa spennandi. Það á að taka upp á pöbbnum við hliðina á okkur og svo í götunni sjálfri. Leikararnir eru til dæmis Christina Ricci, Reese Witherspoon, Catherine O'Hara og Richard E. Grant ásamt mörgum fleirum.

Sko er svona að spá í einu... á maður ekki bara að baka eitthvað rosa gott og opna eldhúsgluggann upp á gátt. Eru ekki allar Hollywood leikkonurnar hálfsveltar og svona hvort eð er. Svo þegar þær finna lyktina af einhverju hollu og góðu er þá ekki bara bein leið fyrir mig á toppinn. Kannski að maður fari að elda bara hollar kökur fyrir Reese Witherspoon og fjölskyldu. Ég verð að vera með viftu í eldhúsinu og blása góðu lyktinni út. Held að þetta muni svínvirka.

Verður ekkert smá gaman svo að sjá myndina þegar hún verður tilbúin!!! Verðið að muna eftir að kíkja eftir mér og Jóhannesi. Ég verð með skilti "CafeSigrun" í bakgrunni einhvers staðar. Langar svo að sjá svona "special thanks to CafeSigrun" í credit listanum. Væri rosa gaman sko :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gaukshreiðrið

Veiiii hvað ég hlakka til. Við erum búin að panta miða í leikhús 23. mars. Við ætlum að sjá Gaukshreiðrið á sviði í London. Frábær bók og frábær mynd þó hún sé komin til ára sinna. Jack Nicholson var ógleymanlegur í myndinni. En já leikararnir í þessu stykki eru ekki af verri endanum. Sem sé Christian Slater sem er einn af mínum uppáhaldsleikurum og Alex Kingston (leikur breska lækninn í ER, þessa dökku með krullurnar, Dr. Elisabeth Corday). Þetta verður ææææðislegt. Hlakka ekkert smá til að horfa á þessa leikara "live". Miðarnir voru dýrir en alveg þess virði (vonandi :))

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Á leið til London

Jæja þá fer ég að trítla til London aftur. Búin að hafa það mjög gott á Skóló og meira að segja náði 2 sushiboðum þar!!! Einu með Borgari og Svani bræðrum mínum og Elínu konu Borgars (ásamt Mána og Steini strákunum þeirra, miklir sushimenn líka (6 og 9 ára). Svo náði ég öðru með Jónsa, Auðni og Axeli og Arnari vinum þeirra. Það er magnað hvað hægt er að gera gott sushi með lélegum aðbúnaði. Þetta var svona hallærissushi þ.e. ljótir diskar, ömurlegir hnífar og þar fram eftir götunum en niðurstaðan var rosalega góð. Ég er enn þá að skilja hvernig Auðun getur skorið lax í svona þunnar sneiðar með ónýtum hníf. Ég er farin að hallast að því að hann hafi svona leysigeislasjón, geti sneitt niður laxinn með augunum. Hef engan séð skera lax í jafn þunnar, jafnar og flottar sneiðar. Jónsi er svo snillingurinn í að móta laxabitana. Jónsi og Auðun eru allavega útskrifaður úr sushiskóla CafeSigrun, held ég geti ekki kennt þeim meira hí hí.

Svo er ég búin að vera í kaffivellystingum hjá Röggu á Kaffitári, sakna þess alltaf jafn mikið þegar ég er í London að geta ekki rölt yfir á hverjum morgni og fengið mér latte. Jú ég hef svo sem Starbucks en það slær ekkert latteinu út hjá Röggu og co.

En já fréttir vikunnar eru þær að ég fjárfesti í nýrri ísvél. Auðun var svo sætur að kaupa hana með afslætti þannig að nú eigum við geggjaða Philips vél sem ég hlakka ekkert smá til að prófa, mmmmmm. Ég vona bara að Icelandair skemmi hana ekki fyrir mér. Er búin að fylla hana af nærbuxum og sokkum (hreinum of course) og bólstra hana með fötum og cheeriosi. Ég á líka Handle with Care miða frá Jónsa og ég ætla að setja hana á áberandi stað á töskunni he he.

Það er annars að hlýna aðeins hérna og mér skilst að sé aðeins hlýrra í London en var um daginn. Mátti líka við því, var skítkalt þar. Finnst alveg ógó fyndið samt eitt. Ég var að labba upp Laugaveginn um daginn í þvílíkum skítakulda, frosti og norðanroki, dagblöðin fjúkandi framan í mig, skiltin frá búðunum lágu á hliðinni alls staðar og kannski 2 manneskjur á ferð. Í götunni var ís, einhver hafði verið að borða bleikan ís í formi og greinilega misst hann. Hann sem sagt bráðnaði pínu en fraus svo fastur. HVAR annars staðar en á Íslandi myndi maður sjá þetta? Hvar annars staðar en á Íslandi myndi einhver vera nógu klikk til að borða ís í þessum kulda? Í London þekkjast Íslendingar vel úr. Það eru þeir sem labba um og borða ís þó að sé vetur, helbláir í framan og með bláa putta en skælbrosandi.

En já nú er það bara London og hitti loksins Jóhannes. Við ætlum sko að halda ærlega upp á að Kenya Railways sé no more (þeir sem þekkja mig vita hvað það þýðir :) fyrir forvitna er hægt að senda mér póst.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Snjókorn falla... á allt og alla...

Ji hvað ég er búin að vera löt við að blogga. Held að heilinn í mér sé frosinn, eða farinn eftir kvefið. Það hefur svo sem ekkert markvert gerst. Ég er búin að vera stútfull af kvefi, fékk gubbupest ofan í það og er búin að vera eins og drusla.

Jóhannes er kominn heim eins og ég sagði frá um daginn og hann er búinn að setja ferðasöguna inn http://www.urbanmania.com/blog/?p=136#more-136 ásamt myndum frá ferðinni http://www.urbanmania.com/myndir/index.php?us_id=16&us_nafn=Mt.+Kenya+-+2006  hefði sko alveg verið til í að vera með!! Mydndirnar flottar og ferðasagan skemmtileg. Því miður var hann ekki með stóru Canon vélina þar sem henni var jú stolið eftir innbrotið en þessi varð að duga í þetta skiptið. Mér sýnist hafa tekist bara bærilega.

Það er annars búið að vera ógó kalt í London, í morgun var -1 og spáð -4. Þegar ég labbaði heim úr vinnunni í gær var slydduél og ég kom alveg hvít heim. Ég er alveg orðin ringluð. Það er kominn mars og nú á að vera rétt að byrja að vora. Ég kenni Bush um. Ok það meikar ekki sens í þessu samhengi að segja frá því hvað við keyptum um daginn. Við keyptum Magimix ísvél sem er drasl og við ætlum að skila henni og við erum að spá í að kaupa Philips vél sem ég veit að virkar.

En hvað gerir maður á svona dögum? Jú maður býr til tómatssúpu auðvitað, mmmmm. Ekkert betra en heit súpa á svona dögum. Ég bjó til súpu eftir uppskrift úr bókinni sem Jóhannes kom með frá Afríku, Swahili Kitchen (æðisleg bók). Svo bjó ég líka til ólífubrauð með parmesan og pestó. Set uppskriftirnar inn á bloggið þegar þær eru tilbúnar. Vel við hæfi að fara að hita okkur upp fyrir Afríku, við förum þangað eftir rúman mánuð! Það verður brjálað að gera áður en við förum, ég fer til Íslands í lok mars og hef einn dag eftir að ég lendi í London til að pakka mér saman fyrir Afríku! Það verður bara gaman.

Annars fer ég að trítla til Íslands aftur, fer á laugardaginn. Það er varla að við hjónakornin hittumst. Æi það er þeim mun skemmtilegra þá þegar við erum á sama stað á sama tíma.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It