Víetnamskur kjúklingur í svartbaunasósu

Það er mjög sérstakt bragð af svartbaunasósunni, hvorki súrt né sætt heldur akkúrat á milli. Sósan passar vel með cashewhnetunum. Þetta er réttur sem er vinsæll á austurlensku matsölustöðunum en þá er búið að bæta fullt af sykri og olíu við. Þessi uppskrift er hollari. Auðvelt er að sleppa cashewhnetunum ef þið hafið ofnæmi. Bætið þá aðeins meira af kjúklingi við í staðinn. Einnig má nota tofu eða grænmeti í staðinn fyrir kjúkling.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja

Víetnamskur kjúklingur í svartbaunasósu

Fyrir 2-3

Innihald

  • 450 g kjúklingur, grillaður (helst) og skinnlaus
  • 50 g cashewhnetur, þurrristaðar
  • 3 hvítlauksgeirar, afhýddir og saxaðir smátt
  • Hálfur laukur, saxaður
  • 3 msk svartbaunasósa (enska: black bean sauce) úr heilsubúð
  • 1 msk austurlensk fiskisósa (Nam Plah)
  • 1 msk tamarisósa
  • 0,5 tsk chili pipar
  • 3-4 msk vatn
  • 0,5 tsk coriander
  • 1 msk sítrónugras (enska: lemon grass), saxað smátt
  • 2 tómatar, saxaðir smátt
  • 250 g frosnar strengjabaunir
  • 2-3 mtsk fersk, corianderlauf, söxuð (má sleppa)
  • Smá klípa svartur pipar
  • Sá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf
  • 1 tsk kókosolía

Aðferð

  1. Þurrristið cashewhnetur á pönnu (án olíu) í 4-5 mínútur eða þar til þær eru rétt farnar að taka lit, hristið pönnuna öðru hvoru. Takið svo hneturnar af pönnunni og látið þær kólna.
  2. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  3. Saxið sítrónugras smátt (fjarlægið ysta hýðið).
  4. Hitið kókosolíu á stórri pönnu og steikið sítrónugras, hvítlauk og lauk í nokkrar mínútur. Notið vatn ef vantar meiri vökva.
  5. Rífið grillaða kjúklinginn í strimla og bætið honum á pönnuna.
  6. Bætið fiskisósu, svartbaunasósu, tamarisósu, chili pipar og vatni á pönnuna ásamt coriander. Hrærið vel.
  7. Lækkið hitann dálítið, bætið tómötum, cashewhnetum og strengjabaunum út í, og látið sjóða áfram í um 7-10 mínútur eða þangað til kjúklingurinn hitnar í gegn.
  8. Smakkið til með salti og pipar.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að hafa hýðishrísgrjón eða bygg með réttinum.
  • Gott er að nota þessa uppskrift með núðluafgöngum, bætið þeim út í rétt áður en maturinn er borinn fram.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Notið „hamingjusaman kjúkling" (free range) ef þið mögulega getið.
  • Ef þið notið ekki grillaðan kjúkling getið þið steikt kjúklinginn (skinnlausan) upp úr smá kókosolíu og vatni.
  • Gætið þess að í sósunni sem þið kaupið sé ekki sykur eða aukaefni eins og MSG/Monosodium Glutamate/E-600 eða önnur efni. Sósan ætti að fást í flestum matvöruverslunum en best er að kaupa sósuna í heilsubúð (lífrænt framleidda) ef þið getið.