Vefjur með spínati og hummus

Þessi réttur er svo hollur og svo einfaldur að það er hálf asnalegt að borða hann ekki á hverjum degi! Það sem er líka æðislegt við hann er að maður getur búið til heilan helling og borðað í 2 daga eða haft með sér í nesti. Nammi namm. Það er ekkert sem mér finnst betra í nestisboxinu en þessar vefjur.

Auðvelt er að sleppa furuhnetunum og sólblómafræjunum ef þið hafið ofnæmi. Athugið einnig að í hummus er mauk úr sesamfræjum. Ef þið viljið glúteinlausar vefjur getið þið notað maísvefjur en lesið samt á innihaldslýsingu til öryggis.

Til að flýta fyrir sér má útbúa hummusinn deginum áður og vefjur má kaupa í heilsubúð en einnig er gott að eiga þær til í frystinum. Einnig má sleppa hummusinum og nota sinnepssósu í staðinn.


Vefjur með spínati og hummus

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Vefjur með spínati og hummus

Fyrir 3-5

Innihald

 • 8 speltvefjur (hægt að nota maísvefjur líka) úr heilsubúð
 • Hummus
 • Ferskt spínat, skolað
 • Nokkur blöð lambhagasalat
 • Hnefafylli ruccola (klettasalat), má sleppa
 • 1 appelsínugul (eða rauð) paprika, sneidd í þunnar sneiðar
 • 1 vel þroskað avocado, skorið í sneiðar
 • 16 kirsuberjatómatar, skornir í helminga
 • 50 g furuhnetur, þurrristaðar
 • 55 g sólblómafræ, þurristaðar

Aðferð

 1. Útbúið vefjurnar og pakkið þeim inn í plast á meðan þið undirbúið hráefnið inn í þær.
 2. Útbúið hummus og setjið til hliðar.
 3. Skolið salatið og þerrið.
 4. Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og sneiðið frekar þunnt.
 5. Skerið kirsuberjatómatana í helminga
 6. Ristið furuhneturnar á pönnu (án olíu) í nokkrar mínútur.
 7. Ristið sólblómafræin einnig í nokkrar mínútur.
 8. Afhýðið avocadoið, fleygið steininum og sneiðið avocadoið frekar þunnt.
 9. Setjið allt hráefnið í sér skálar.
 10. Raðið vefjunum á borðið fyrir framan ykkur og hafið hráefnið tiltækt í skálum svo að auðvelt sé að teygja sig í það.
 11. Raðið grænmetinu inn í vefjurnar, vefjið þeim upp og setjið á disk.
 12. Einnig má setja vefjurnar á borðið og raða hráefninu í kring og leyfa gestum að ráða sjálfir hvað þeir setja inn í sínar vefjur.

Gott að hafa í huga

 • Vefjurnar eru upplagðar í saumaklúbbinn og má útbúa þær með dags fyrirvara og pakka inn í plast. Skerið þær í bita og stingið tannstöngli/kokteilpinnum í þær rétt áður en á að bera þær fram.
 • Það er alveg upplagt að hafa þennan mat með sér t.d. í sumarbústað eða útilegu því það er hægt að undirbúa allt hráefnið vel fyrirfram og taka með sér.
 • Nota má vel þroskaða tómata í staðinn fyrir kirsuberjatómata.
 • Það má sleppa hummusinum og nota í staðinn sinnepssósu.

Ummæli um uppskriftina

Fjóla Margrét
16. okt. 2012

Gerði þessar áðan (líka Hummusinn og Vefjurnar), svakalega góðar, á pottþétt eftir að gera þær aftur :-)takk, takk :-)

sigrun
16. okt. 2012

Frábært að heyra Fjóla Margrét :)