Vefjur með avocadomauki og gulrótum frá Uganda

Þessar vefjur fengum við á miðbaug í Uganda febrúar 2008. Ef þið eigið leið hjá, endilega gefið ykkur tíma til að stoppa á kaffihúsinu við miðbauginn og smakka það sem þeir eru að bjóða upp á þar t.d. bananasmoothie, risamöffins (þeir stærstu sem ég hef séð á ævinni) og tortilla með guacamole svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er góð minjagripaverslun á staðnum sem og fín hilla með áhugaverðum bókum. Allt er þetta til styrktar eyðnismituðum, munaðarlausum börnum. Það sem ég pantaði mér var vefja með avocadomauki og rifnum gulrótum og það var alveg svakalega gott og seðjandi. Þessar vefjur eru fínar í nestið eða bara sem léttur hádegismatur. Hann dugði mér a.m.k. í margra klukkustunda akstri í jeppa á holóttum vegi!

Til að flýta fyrir sér er best að vera búinn að undirbúa vefjurnar með góðum fyrirvara (og frysta) eða kaupa úr heilsubúð.

Hægt er að gera þennan rétt glúteinlausan með því að nota maísvefjur.


Myndin er tekin við miðbaug í Uganda

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Vefjur með avocadomauki og gulrótum frá Uganda

Fyrir 2

Innihald

  • 2-3 maís eða speltvefjur
  • 2 mjög vel þroskuð avocado, maukuð
  • 1 tómatur, fræhreinsaður og saxaður gróft
  • Fjórðungur rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað smátt eða marið
  • Fjórðungur laukur, saxaður smátt (má sleppa)
  • 2 gulrætur, afhýddar og rifnar á rifjárni
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

  1. Byrjið á vefjunum ef þið áttuð þær ekki tilbúnar.
  2. Afhýðið avocado, hreinsið steininn úr og maukið eða stappið ofan í stóra skál.
  3. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
  4. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
  5. Skerið tómatinn í tvennt, skafið fræin úr og saxið smátt.
  6. Setjið chili piparinn, laukinn og hvítlaukinn í stóru skálina ásamt saltinu og piparnum.
  7. Skrælið gulræturnar og rífið gróft á rifjárni.
  8. Leggið vefjurnar á disk.
  9. Smyrjið avocadoblöndunni yfir vefjurnar og dreifið rifnum gulrótum yfir.
  10. Rúllið upp og berið fram.

Gott að hafa í huga

  • Það er gott að hafa svolítið af rifnum osti í vefjunum.
  • Í Uganda er notað þunnt chapati brauð í staðinn fyrir maís- eða speltvefjur sem passar mjög vel við.
  • Nota má rauðlauk í staðinn fyrir venjulegan lauk.
  • Nota má rauða papriku í staðinn fyrir tómat.