Vatnsdeigsbollur

Ég var hér áður fyrr ekki mikil bolludagskona og í bernsku, þegar ég fékk bollur skóf ég rjómann og sultuna úr og borðaði en henti bollunum sjálfum (eða gaf hestunum mínum), mörgum til mikillar skelfingar. Það var ekki fyrr en með börnunum að óskir komu fram á heimilinu um að ég gerði tilraunir. Og þær eru svo góðar að nú get ég ekki hætt að borða þær! Ég gerði þúsund tilraunir á bollunum og ég fór örugglega með 6000 egg í tilraunir (hamingjuegg...sem eru ekki ódýr). Flestar bollurnar enduðu í maga anda og gæsa á Tjörninni í Reykjavík og sumar tilraunir voru þannig að ekki einu sinni fuglarnir vildu þær. Ég var líka hrædd um að hafa rotað önd í eitt skiptið því þær tilraunir höfðu endað illa (og bollurnar mjög harðar).

Mikilvægt er að nota fínt spelti og einnig er AFAR mikilvægt hræra það í sjóðandi heitt vatnið um leið og potturinn kemur af hellunni. Bollurnar eru bestar samdægurs og best er að nota blástursofn.

Athugið að ég setti inn hugmynd að öðruvísi rjóma og sultu fyrir þá sem vilja en auðvitað má nota venjulegan rjóma og aðrar sultur, allt eftir smekk. Á myndinni er hefðbundinn þeyttur rjómi -cashewrjóminn verður nú ekki svona glæsilegur!

Ef þið viljið glassúr á bollurnar ykkar þá er hérna ein ægilega fín glassúr uppskrift sem ég setti saman.


Afskaplega fínar og auðveldar vatnsdeigsbollur

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Vatnsdeigsbollur

Gerir 10-12 stórar bollur eða 20-24 litlar

Innihald

  • 250 ml vatn
  • 120 g kókosolía
  • 0,25 tsk salt
  • 130 g fínmalað spelti
  • 3-4 egg, köld (byrjið með 3 egg)
  • 3 stevíudropar

Súkkulaðihjúpur:

  • 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri

Jarðarberjasósa:

  • 100 g jarðarber (fersk eða frosin)
  • 2 msk vatn
  • 10 stevíudropar án bragðefna eða 2 msk hlynsíróp

Cashewrjómi:
(tvöfaldið uppskriftina ef þið viljið cashew-súkkulaðimauk, sjá hér að neðan)

  • 100 g cashewhnetur eða tilbúið cashewhnetumauk
  • 2 msk vatn
  • 10 stevíudropar án bragðefna eða 2 msk hlynsíróp

Aðferð

Vatnsdeigsbollurnar:

  1. Hitið vatnið, olíuna og saltið í potti þangað til fer að sjóða.

  2. Takið pottinn af hitanum og látið bíða í 2 mínútur. Hellið þá speltinu út í og hrærið hratt og viðstöðulaust í nokkrar mínútur (best að nota trésleif). Deigið ætti nú að losna frá skálinni.  

  3. Látið deigið kólna í um 10 mínútur. Bætið eggjunum út í einu í einu (byrjið á 3 eggjum og bætið frekar við ef þarf - deigið má ekki verða of blautt) og hrærið vel á milli. Bætið því næst steviadropunum út í og hrærið aðeins. Deigið gæti orðið mjög kekkjótt, glansandi og skrýtið fyrst en haldið bara áfram að hræra þangað til auðvelt er að setja það í sprautupoka (eða moka með skeið á bökunarplötu án þess að það leki út um allt). Ef deigið er of blautt, setjið þá 1-2 msk af spelti til viðbótar og hrærið vel.

  4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og búið til um 10-12 stórar bollur eða 20-24 litlar bollur. Setjið deigið á pappírinn með sprautupoka eða matskeið (gott að nota aðra skeið á móti til að skafa úr). Bakið við 180°C í 25-35 mínútur (ekki opna ofninn fyrstu 20 mínúturnar því bollurnar eru ekki nægilega mikið bakaðar og munu falla) en skemur ef þið eruð með litlar bollur.

  5.  

Súkkulaðihjúpur:

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
     
  2. Dýfið toppum vatnsdeigsbollanna ofan í súkkulaðið og látið storkna.
     

Jarðarberjasósan:

  1. Setjið jarðarberin, vatnið og stevíudropana í pottinn og látið malla í 30 mínútur við vægan hita. Takið úr pottinum, setjið í skál og hrærið með gaffli svo að jarðarberin leysist vel í sundur. Geymið í ísskáp með plastfilmu yfir.

Cashewrjóminn:

  1. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og maukið í allavega 3 mínútur. Skafið hliðar vélarinnar að innan með spaða og bætið smá slettu af vatni við. Maukið þangað til hneturnar verða aðeins mjólkurlitaðar (í um 1 mínútu). Athugið að einnig má nota tilbúið cashewhnetumauk.

  2. Bætið öllu vatninu út í á meðan vélin gengur og maukið vel. Þið gætuð þurft að skafa innan úr hliðum vélarinnar og halda svo áfram. Bætið stevíudropunum saman við og maukið í nokkrar mínútur. Nú ætti blandan að vera orðin eins og þykkur grautur.

  3.  

Cashew-súkkulaðimauk:

  1. Takið 100 g af cashewrjómanum, og setjið 1-2 msk af kakói út í. Látið vélina vinna í nokkrar sekúndur. Smyrjið á bollubotnana.

Gott að hafa í huga

  • Geymið bollurnar í plastpoka eða plastboxi. Best er að borða þær samdægurs.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).