Valhnetu- og rúsínukökur

Þessar kökur eru svo hollar að þær virka eins og vítamíntöflur. Þær eru óbakaðar og því nýtast ensímin og vítamínin til fulls. Hollusta valhneta er ótvíræð og holla fitan stuðlar að heilbrigðu hjarta en þær innihalda m.a. omega-3 fitusýrur, E vítamín, B vítamín, magnesium, andoxunarefni, prótein og trefjar. Valhnetur eru taldar geta lækkað vonda kólesterólið í blóðinu. Rúsínur og hnetur gefa okkur líka fína orku sem líkaminn dundar við að vinna úr yfir langan tíma. Ég sleppi stundum kakóinu og nota kanil í staðinn, sérstaklega fyrir jólin. Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur. Athugið að fjöldi kakanna fer eftir því hvernig kökumót þið notið. Ég nota frekar lítil mót og fæ um 15-20 kökur.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Vegan

Valhnetu- og rúsínukökur

Gerir 15-20 kökur

Innihald

 • 60 g rúsínur
 • 40 g valhnetur
 • 30 g kakó (eða carob)
 • 1 msk kakónibbur (cacao nibs)
 • 1 tsk agavesíróp

Aðferð

 1. Setjið valhneturnar og rúsínurnar í matvinnsluvél og malið í um 20 sekúndur eða þangað til allt blandast vel saman og er fínkornótt.
 2. Bætið kakónibbum, kakói og agavesírópi út í og blandið áfram í nokkrar sekúndur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið áfram í nokkrar sekúndur.
 3. Bætið 1 tsk af agavesírópi út í til viðbótar ef blandan er of þurr.
 4. Hnoðið deigið vel saman með höndunum og geymið í ísskáp í um 20 mínútur.
 5. Setjið plastfilmu á borð (eða bökunarpappír).
 6. Fletjið deigið út með höndunum eða kökukefli svo það verði um 0,5 sm að þykkt og skerið út kökur með smákökumóti.
 7. Geymið í ísskáp eða frysti og berið fram kalt.

Gott að hafa í huga

 • Nota má carob í stað kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur.
 • Sleppa má kakóinu og nota 30 g kókosmjöl og 1 tsk kanil í staðinn.
 • Nota má hlynsíróp í staðinn fyrir agavesíróp.
 • Kakónibbur fást í heilsubúðum, nota má dökkt súkkulaði í staðinn.