Útilegupottréttur með kúskús
Þetta er sniðugur réttur fyrir þá sem eru að hugsa um heilsuna upp á fjöllum og vilja hollan og góðan mat í stað þess að kaupa tilbúinn (yfirleitt miður hollan) mat í útivistarbúðum. Ég ætla ekki einu sinni að nefna Pot Noodles eða núðlupakkasúpur á nafn (það eru bannyrði á mínu heimili). Ég taldi um sex E-efni (og fleiri óæskileg efni) utan á einum núðlusúpupakka um daginn. Allavega, nóg komið af röfli. Hér er einföld og góð uppskrift að pottrétti sem tekur enga stund að elda, þó maður sé á fjöllum. Maturinn er líka mun léttari í maga en hefðbundin súpa í pakka til dæmis. Þetta skiptir allt máli þegar maður er í gönguferð. Við borðuðum þennan rétt á göngu í Skotlandi sumarið 2006. Gangan var frábær, við borðuðum kvöldmatinn með útsýni yfir vötn, fjöll og firnindi í glampandi sól. Morguninn eftir var reyndar grenjandi rigning og slagveður af verstu sort og við næstum orðin innilokuð í tjaldinu okkar sem við plöntuðum við litla lækinn (sem nú var orðinn að beljandi stórfljóti) en það er annað mál he he.
Hvort að súpan er mjólkurlaus og gerlaus fer eftir því hvort súpan sem þið kaupið inniheldur mjólk og ger eða ekki. Ég geri ráð fyrir því í uppskriftinni að súpan sé mjólkurlaus og gerlaus. Athugið að kúskúsið inniheldur glútein en nota má soðið bygg eða hrísgrjónanúðlur í staðinn..
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án glúteins
Útilegupottréttur með kúskús
Innihald
- 2 pakkar af hollri pakkasúpu t.d. með tómatgrunni
- 1,5 lítrar vatn
- 100-200 g kúskús (eftir því hvað þið viljið hafa pottréttinn þykkan)
- Krydd í poka eða litlu íláti t.d. salt, pipar og basil
- 2 msk þurrkað grænmeti (má sleppa)
- Þið þurfið pott sem tekur um 2 lítra af vökva
Aðferð
- Sjóðið súpuna samkvæmt leiðbeiningum á umbúðunum.
- Þegar súpan er farin að malla, bætið þá þurrkaða grænmetinu út í (ef notað). Hellið svo helmingnum af kúskúsinu út í. Ekki hella öllu í einu því súpan þykknar mikið og gott að hafa hana ekki of þurra, sérstaklega ef er kalt í veðri og maður vill fá hlýju í kroppinn. Bætið meira kúskúsi í eftir um 2 mínútur þegar hitt hefur náð að belgjast út.
- Kryddið og bætið vatni við eftir smekk fyrir þynnri súpu.
- Njótið úti í náttúrunni.
Gott að hafa í huga
- Til að spara umbúðir og þyngd má hella súpuduftinu og kryddunum (ásamt þurrkaða grænmetinu ef notað) saman í poka, binda fyrir og stinga í bakpokann.
- Hollar pakkasúpur fást í heilsubúðum eða í heilsudeildum stærri matvöruverslana. Það ættu ekki að vera nein skrýtin efni eins og MSG í súpunni og sykur ætti heldur ekki að vera í henni. Kaupið helst lífrænt framleiddar súpur
- Það má nota margar tegundir af súpum saman í svona pottrétt, t.d. er gott að nota tómatsúpu og gulrótarsúpu saman en einnig má nota sveppasúpu, blandaða grænmetissúpu o.fl.
- Til að gera súpuna matarmeiri er hægt að bæta sojakjöti sem og þurrkuðum sveppum saman við.
- Fyrir kjötæturnar má taka með rifið, grillað kjúklingakjöt eða annað kjöt og setja út í.
- Ef þið finnið þurrkað eða frostþurrkað grænmeti skuluð þið kaupa svoleiðis til að geyma og nota í útilegumat. Það er létt, tekur lítið pláss en gefur gott bragð.
- Þessi réttur er fitulítill og ef þið þurfið auka fitu er gott að fá sér t.d. blandaðar hnetur í eftirmat (með rúsínum), hnetusmjör eða dökkt súkkulaði (með hrásykri).