Útilegunúðluréttur
Þessi uppskrift er eiginlega hugmyndin hans Jóhannesar. Við höfðum á brölti okkar um fjöll og firnindi stundum keypt tilbúinn útilegumat sem maður setur vatn út í en eftir að hafa lesið innihaldslýsingar er ég hætt því, ekkert nema hert fita, litarefni og bragðefni. Ekki það sem maður vill borða í íslensku náttúrunni þar sem allt er svo hreint og tært. Það passar eiginlega ekki saman. Þar sem Jóhannes er svo mikill núðlukarl, datt honum í hug að gott væri að setja núðlur í poka ásamt kryddi sem væri svo hægt að hita upp í potti. Ég lagði aðeins hausinn í bleyti og mér datt í hug að taka með mér hollar pakkasúpur úr heilsubúð. Þetta reyndist svo vera hin besta hugmynd því við suðum súpuna, settum núðlurnar út í og létum malla í um 7 mínútur. Þetta var frábær matur og ótrúlega einfaldur. Rétturinn var eldaður á litlum gas prímusi sem er ætlaður fyrir bakpokaferðir (einfaldur og ódýr) svo maður þarf ekki að vera búinn dýrum og stórum græjum. Þennan núðlurétt prófuðum við fyrst á Síldarmannagötum í Hvalfirði, sumarið 2006. Það var svalt veður, við vorum búin að tjalda og ég að krókna úr kulda og ég var ekki lítið ánægð með að fá hlýju í kroppinn. Þessa uppskrift sendi ég svo síðar í erlenda uppskriftasamkeppni sem snerist um að vera með þriggja rétta máltíð sem hægt væri að elda í einum potti. Ég ætlaði ekki að taka þátt en það var Jóhannes sem sá samkeppnina auglýsta og beinlínis sagði mér að taka þátt. Þessi réttur var sem sé aðalrétturinn (ég var með forrétt og eftirrétt líka) og þessir þrír réttir UNNU samkeppnina. Það voru mörg hundruð manns sem sendu inn uppskrift en þessir þrír réttir mínir báru sigur af hólmi. Ég var ekki lítið montin. Ég fékk að launum útilegupottasett.
Takið súpupakkann með ykkur (þó þið séuð búin að losa innihaldið í annan poka) svo þið séuð með leiðbeiningar varðandi suðu á súpunni með ykkur. Þið getið líka skrifað niður leiðbeiningarnar og haft með ykkur. Athugið að það rétturinn er nánast fitulaus svo ef þið þurfið, verðið þið að bæta ykkur fituleysið upp með því að fá ykkur t.d. hnetusmjör í eftirmat (eða blandaðar hnetur), eða dökkt súkkulaði (með hrásykri).
Hvort að þessi matur er glúteinlaus, gerlaus og mjólkurlaus eða ekki fer eftir súpunni sem þið kaupið. Ég geri ráð fyrir því í uppskriftinni að þið kaupið glúteinlausa, gerlausa og mjólkurlausa súpu. Athugið að þið þurfið pott fyrir um 2 lítra af vökva.
Útilegunúðlur í íslenskri náttúrunni
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Útilegunúðluréttur
Innihald
- 300 gr þykkar hrísgrjónanúðlur (eða aðrar núðlutegundir)
- 2 pakkar hollar pakkasúpur úr heilsubúð t.d. sveppasúpa eða kartöflusúpa
- 1 lítri vatn (gæti þurft aðeins meira vatn)
- 10 g þurrkaðir sveppir, blandaðir
- Smá klípa salt og pipar (sem má geyma í litlum staukum eða pokum)
- Þið þurfið pott fyrir u.þ.b. 2 lítra af vökva
Aðferð
- Blandið súpunni út í kalt eða heitt vatn samkvæmt leiðbeiningum og hrærið.
- Brjótið þurrkuðu sveppina aðeins (eða klippið í sundur) og setjið ut í súpuna.
- Látið suðuna koma upp og setjið þá núðlurnar út í og látið malla í um 7 mínútur.
- Setjið meira vatn út í ef ykkur finst vanta meiri vökva.
- Kryddið með salti og pipar.
- Berið fram og njótið úti í náttúrunni.
- Nota má aðrar núðlutegundir heldur en hrísgrjónanúðlur, t.d. soba núðlur (úr bókhveiti) eða spelt spaghetti. Athugið þó að suðutími gæti breyst eftir því hversu þykkar núðlur þið notið.
Gott að hafa í huga
- Fyrir kjötæturnar má taka smávegis af rifnum, grilluðum kjúklingi eða öðru kjöti til að henda út í súpuna.
- Sojahakk hentar vel sem auka prótein fyrir grænmetisætur.
- Ég notaði sveppasúpu en hægt er að kaupa fleiri bragðtegundir t.d. tómatsúpu eða kartöflusúpu. Þær eiga að vera án aukaefna eða bragðefna. Kaupið helst lífrænt framleiddar súpur og úr heilsubúð.
- Venjulegar pakkasúpur úr búð eru oft hlaðnar alls kyns drasli svo ég kaupi þær aldrei.