Túnfiskssalat
30. október, 2003
Létt og gott túnfisksalat, passar æðislega vel með brauði og alls kyns kexi og hrökkbrauði. Ég borða sjaldan hráan lauk en mörgum finnst gott að setja rauðlauk í túnfisksalatið. Sumarið 2007 var ég í hestaferð um hálendið og bjó til túnfisksalat með sýrðum rjóma, majonesi, rauðlauk, karrí og pipar ofan í 12 þýska hestamenn. Þeir fríkuðu út. Þeir sleiktu skálina að innan, þeir hrópuðu upp yfir sig af gleði í hvert skipti þegar þeir sáu salatið og slógust þegar það var orðið lítið eftir í skálinni. Er túnfisksalat ný uppfinning í þýskalandi? Þau fengu öll sem eitt uppskriftina að túnfisksalatinu. Athugið að það er ekki algengt að sjá karrí í túnfisksalati en mér finnst það passa sérlega vel við.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án hneta
Túnfiskssalat
Fyrir 3-4 sem meðlæti
Innihald
- 2 harðsoðin egg (notið hvítuna úr einu eggi og svo má nota hitt eggið heilt (með rauðunni og hvítunni)
- 0,25 tsk svartur pipar
- 0,25 tsk karrí
- 1 dós túnfiskur í vatni (150-180 gr). Gætið þess að túnfiskurinn sé Dolphin Friendly, ætti að standa utan á dósinni.
- 2-3 mtsk majones Einnig má nota 5% sýrðan rjóma frá Mjólku (Hann er án gelatíns).
- Hálfur rauðlaukur, saxaður smátt (má sleppa)
Aðferð
- Sjóðið eggin og kælið.
- Fjarlægið aðra eggjarauðuna.
- Notið eggjaskera og skerið eggin fyrst langsum og svo þversum (svo þau endi í litlum bitum).
- Hellið vatninu af túnfiskinum og setjið hann í skál.
- Setjið egg, majones eða sýrðan rjóma, karrí og svartan pipar í skálina.
- Afhýðið og saxið laukinn ef hann er notaður og bætið honum út í.
- Hrærið öllu vel saman.
Gott að hafa í huga
- Það er í góðu lagi að láta salatið standa í ísskáp yfir nótt áður en á að nota það, verður bara betra.
- Notið hamingjuegg (orpin af hænum sem hafa ekki verið innilokaðar í búrum).
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
28. nóv. 2011
Æðislega gott salat! :)
Má frysta það?
28. nóv. 2011
Hmm hef ekki prófað það en sé ekki hvers vegna það ætti ekki að vera í lagi :)
20. mar. 2012
þetta er sjúklega gott salat! Bjó til majónes líka...
20. mar. 2012
Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)