Túnfiskssalat

Létt og gott túnfisksalat, passar æðislega vel með brauði og alls kyns kexi og hrökkbrauði. Ég borða sjaldan hráan lauk en mörgum finnst gott að setja rauðlauk í túnfisksalatið. Sumarið 2007 var ég í hestaferð um hálendið og bjó til túnfisksalat með sýrðum rjóma, majonesi, rauðlauk, karrí og pipar ofan í 12 þýska hestamenn. Þeir fríkuðu út. Þeir sleiktu skálina að innan, þeir hrópuðu upp yfir sig af gleði í hvert skipti þegar þeir sáu salatið og slógust þegar það var orðið lítið eftir í skálinni. Er túnfisksalat ný uppfinning í þýskalandi? Þau fengu öll sem eitt uppskriftina að túnfisksalatinu. Athugið að það er ekki algengt að sjá karrí í túnfisksalati en mér finnst það passa sérlega vel við.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Túnfiskssalat

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 2 harðsoðin egg (notið hvítuna úr einu eggi og svo má nota hitt eggið heilt (með rauðunni og hvítunni)
  • 0,25 tsk svartur pipar
  • 0,25 tsk karrí
  • 1 dós túnfiskur í vatni (150-180 gr). Gætið þess að túnfiskurinn sé Dolphin Friendly, ætti að standa utan á dósinni.
  • 2-3 mtsk majones Einnig má nota 5% sýrðan rjóma frá Mjólku (Hann er án gelatíns).
  • Hálfur rauðlaukur, saxaður smátt (má sleppa)

Aðferð

  1. Sjóðið eggin og kælið.
  2. Fjarlægið aðra eggjarauðuna.
  3. Notið eggjaskera og skerið eggin fyrst langsum og svo þversum (svo þau endi í litlum bitum).
  4. Hellið vatninu af túnfiskinum og setjið hann  í skál.
  5. Setjið egg, majones eða sýrðan rjóma, karrí og svartan pipar í skálina.
  6. Afhýðið og saxið laukinn ef hann er notaður og bætið honum út í.
  7. Hrærið öllu vel saman.

Gott að hafa í huga

  • Það er í góðu lagi að láta salatið standa í ísskáp yfir nótt áður en á að nota það, verður bara betra.
  • Notið hamingjuegg (orpin af hænum sem hafa ekki verið innilokaðar í búrum).

Ummæli um uppskriftina

Sara Björg
28. nóv. 2011

Æðislega gott salat! :)
Má frysta það?

sigrun
28. nóv. 2011

Hmm hef ekki prófað það en sé ekki hvers vegna það ætti ekki að vera í lagi :)

huldar
20. mar. 2012

þetta er sjúklega gott salat! Bjó til majónes líka...

sigrun
20. mar. 2012

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)